Listi yfir það sem er frábært

Verkið Allt sem er frábært eftir Duncan Macmillan í uppsetningu Borgarleikhússins minnir okkur á hversu mikilvægt það er að rækta með sér jákvæðni, bjartsýni og þakklæti. Aðalpersóna verksins, leikin af Vali Frey Einarssyni, segir frá því hvernig það kom til að hann fór að skrifa niður allt sem honum þykir frábært, allt sem gerir lífið þess virði að lifa því. Og hvernig þessi listi varð honum einskonar haldreipi í gegnum þann rússíbana sem lífið er. Leikstjórn er í höndum Ólafs Egils Egilssonar.

Allt sem er frábært er þroskasaga manns eða ef til vill frekar lífssaga hans. Á 90 mínútum er stiklað á stóru. Áhorfendur fá því góða yfirsýn yfir lífságrip aðalpersónunnar en komast ekki endilega á djúpið. Það kann að vera meðvitað hjá Macmillan, höfundi verksins, þar sem sagan segir frá manni sem hefur ekki unnið almennilega úr tilfinningum sínum og á, líkt og margir karlmenn, erfitt með að opna sig og ræða um líðan sína. Deila má um hvort sagan sé yfirborðskennd eða einfaldlega skýr og þægileg.

Þátttaka leikhúsgesta gegnir stóru hlutverki í verkinu. Hún gefur verkinu ferskan blæ. En felur einnig í sér áhættu. Fólki tekst misvel upp í hlutverkum sínum eins og gengur. Ef salurinn er móttækilegur býður sýningin upp á kærkomið tækifæri til að hlæja dátt. Ef ekki getur þátttaka áhorfenda orðið þreytt til lengdar, því í hvert sinn sem aðalpersónan kemst á flug í frásögn sinni er áhorfandanum jafnan kippt aftur inn í raunveruleikann.

Þá er ekki nema viðeigandi að búa til lista yfir allt sem er frábært við sýninguna:

  1. Ís með dýfu.
  2. Að búa til lista yfir allt sem er frábært.
  3. Hvernig Valur Freyr heldur uppi sýningunni. Það mæðir mikið á honum.
  4. Sigurdans aðalpersónunnar.
  5. Söngur Vals Freys.
  6. Vonin sem felst í því að vera í gulum Adidas skóm við bláar buxur, bláa skyrtu og vínrauðan bol.
  7. Hvernig sýningin minnir á uppistand. Hún er lifandi og stílar inn á hlátur. Það er hláturinn sem er hennar helsti drifkraftur.
  8. Að geta hlegið með hópi fólks.
  9. Að það sé ekki hlé í miðri sýningu.
  10. Að fólkið í salnum er virkjað. Það er enginn fjórði veggur sem skilur leikara og leikhúsgesti að.
  11. Að fjöldi aukaleikara úr sal virðist draga úr vandræðaleika og stressi þátttakenda.
  12. Að geta horft á svipbrigði annara leikhúsgesta.
  13. Hvernig Valur Freyr les í salinn. Sú tækni minnir á spuna.
  14. Að Haukur Mortens kemur við sögu í verkinu þökk sé vel heppnaðri staðfærslu.
  15. Hversu stórt hlutverk tónlist spilar í verkinu. Hún er notuð til að skapa persónur, tíðaranda og stemningu. Hún túlkar tilfinningar án orða.
  16. Að ekki þurfi leikmynd til að skapa frásagnarheim. Á sviðinu er ekkert nema barstóll sem getur snúist í hringi og síðar örfáir leikmunir.
  17. Að finna fyrir algerri þögn með hópi fólks.
  18. Hvernig verkið skapar hugrenningatengsl við söguna Maður að nafni Ove eftir Fredrik Backman.
  19. Að varpa ljósi á erfiðleika lífsins með húmorinn að vopni.
  20. Stjörnubjartur næturhiminn. Lokalýsingin var heillandi.
Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila