Nýtt rit um heimspekinginn Jesú

Í Fræði, Fréttir, Ný rit, Trúarbrögð höf. Guðmundur Hörður Guðmundsson

Út er komin bókin Jesus as Philosopher: The Moral Sage in the Synoptic Gospels eftir Rúnar Má Þorsteinsson, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Bókin er gefin út af Oxford University Press. Í ritinu varpar Rúnar fram spurningunni hvort og þá hvernig höfundar samstofna guðspjallanna (Markús, Matteus og Lúkas) nýti sér samtíma hefðir um hinn „ídeala“ heimspeking í lýsingu sinni á Jesú frá Nasaret. Það er m.ö.o. ekki hinn sögulegi Jesús sem er til umfjöllunar heldur sá Jesús sem túlkaður var og kynntur af þessum fylgismönnum hans. Rúnar leitast við að svara eftirfarandi spurningum: Hvernig lýsir viðkomandi höfundur Jesú Kristi í samhengi samtíma heimspeki? Sjáum við Jesú í tilteknu heimspekilegu hlutverki í guðspjöllunum, annaðhvort í orði, röksemdafærslu eða lífsmáta? Á hvaða hátt samræmist boðskapur Jesú og gjörðir framámönnum grísk-rómverskrar heimspeki? Má kannski finna ósamræmi þarna á milli?

Í bók sinni tekur Rúnar fjölmarga grísk-rómverska samanburðartexta til umfjöllunar en áherslan er á að greina á hvern hátt þessir textar varpa ljósi á framsetningu guðspjallanna á persónu Jesú – það eru guðspjöllin sjálf sem eru meginfókus þessarar rannsóknar. Á meðan sviðin guðfræði og siðfræði eru oft samtvinnuð í þessum texum, að heimspekitextunum meðtöldum, einblínir Rúnar fyrst og fremst á siðfræðilega þætti þeirra í þessu sambandi, en ýmislegt bendir til þess að höfundar téðra guðspjalla hafi að einhverju leyti verið undir áhrifum frá klassískri dyggðasiðfræði. Meginniðurstöður þessarar rannsóknar eru að guðspjallahöfundarnir hafi tekið við arfsögnum um hinn sögulega Jesú sem messías og að þeir hafi leitast við að lýsa honum sem slíkum á eins sannan og sannfærandi hátt og þeir gátu, meðal annars með því að nýta sér heimspekilegar hefðir um hinn „ídeala“ vitra mann. Þessar hefðir áttu sér einkum rætur í stóuspeki.

 

[fblike]

Deila