Í gærkvöldi var Stríð eftir Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson frumflutt í Þjóðleikhúsinu af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hilmi Snæ Guðnasyni.

Tjald upp

Þegar tjaldið er dregið upp blasir við vígvöllur í forgrunni, þrír hermenn liggja fallnir og líkamshlutar af þeim fjórða, fjallasýn í fjarska og máluð leiktjöld af himni með hnígandi sól í bakgrunni.  Lengi er enga hreyfingu að sjá og nægur tími fyrir áhorfendur að hlusta á tónverk Kjartans, lágstemmt og tregafullt í byrjun og hugsa um hve mjög sviðsmyndin líktist málverki eða lifandi mynd (tableaux vivant) af ógnum stríðs. Ragnar Kjartansson hannar leikmyndina, Axel Hallkell Jóhannesson og Jana Wassong útfæra leikmyndina og tjöldin eru máluð af fimm málurum auk Ragnars. Helga I Stefánsdóttir annaðist búningana.

Stríðsþrá sumra manna…

Kynstrin öll hafa verið skrifað um stríðsrekstur, herkænsku, hernaðarsigra og hetjudáðir,  en flest allt sem við kemur hernaði er mér – og öðrum almenningi – illskiljanlegt. Og hversu mikið sem talað er, nefnir enginn, hvorki hernaðarsinnar né friðarsinnar, það sem heldur ekki er hægt að lýsa og enginn er til frásagnar um – en það er hið langa, kvalafulla og einmana dauðastríð sem helsærðir hermenn heyja á vígvellinum. Um það fjallar þessi sýning.

Engin saga er sögð á sviðinu.  Uppúr valnum skríður hermaður, leikinn af Hilmi Snæ Guðnasyni. Hann dregst hægt með kvalastunum, kjökri, hvási, gráti, öskrum og öðrum búkhljóðum fram hjá föllnum félögum. Það er einsog hann haldi að hann komist burt. Hann faðmar dáinn félaga, heldur dauðahaldi um byssuna með byssustingnum og ýmist styður sig við hana eða skekur hana í reiði. Ekkert getur þó forðað því sem koma skal, ekkert er verðskuldað eða ósanngjarnt. Hér og nú er allt merkingarlaust. Í raun er þessi sýning kannski óður til tilvistarstefnunnar og tilgangsleysis tilverunnar, sem hægt er að skoða sem tragedíu eða kómedíu eftir því hver á heldur.

Tilfinningarík tónlist

Tónlist Kjartans Sveinssonar er áhrifarík og minnir á verk meistaranna,  Mahlers eða jafnvel Wagners, full af endurteknum stefjum, stígandi og hnígandi, sem  kalla fram alls konar hugrenningatengsl um dauðann og samlíðan með manninum sem er að deyja svo hörmulega.

Í afskaplega góðri hugleiðingu og greiningu Ragnars Helga Ólafssonar í leikskrá er það undirstrikað að allt sem fram fer í verkinu er þykjustuleikur; Hilmir Snær er að leika sig að leika ímyndaðan riddaraliðsmann, búningarnir eru ekki sögulegir heldur úr tveimur ólíkum leikritum  úr safni Þjóðleikhússins.

Tónlistin er ekki Mahler eða Beethoven enda verða þeir ekki endurlífgaðir – en samt er þetta verk ekki skopstæling segir Ragnar Helgi – „til þess er treginn í tónlistinni einfaldlega of áþreifanlegur.“  Og hann bætir við: „Stríð er leikhús sem leikur leikhús. En markmiðið virðist ekki vera það að afbyggja leikhúsið, afhjúpa það eða veikja mátt þess, ekki frekar en málverk Ragnars eru afbygging á málverkinu. …. Í Stríði vitum við aldrei fyllilega hvar við höfum nokkurn skapaðan hlut – enda kannski ekki nema von – þar sem við erum ekki alveg viss um hvort við erum vakandi eða sofandi.“

Tjaldið fellur

Það er satt, maður veit ekki alltaf hvað maður er að horfa á eða dreyma um en þessi skrýtna sýning leitar á mann og í henni felst „sögn“ sem gerir verkið þrælpólitískt þegar upp er staðið.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila