Að fanga augnablikið

Það eru örlög allra dansverka að hverfa út í tímans tóm og snúa aldrei aftur eftir að sýningum líkur. Ekkert verðu eftir nema minningin. Minning áhorfandans af upplifun sinni af verkinu, minning sýnendanna af æfingaferlinu og því að flytja áhorfendunum afrakstur þess, minning höfundarins af hugmyndinni sem fæddist, þróaðist, raungerðist í gegnum þrotlausa vinnu með flytjendunum og eignaðist síðan sitt sjálfstæða líf á sýningardegi.

Í myndlistasýningunni Hamskipti, augnablikið vs. varanleiki sem opin var í Listamenn Gallerí dagana 21. apríl til 5. maí 2018 skoðar danshöfundurinn Sigríður Soffía Níelsdóttir og myndlistamaðurinn Helgi Már Kristinsson hvort og þá hvernig hægt er að fanga dansinn í varanlegt form. Sigríður Soffía á 10 ára feril að baki sem danshöfundur en þrátt fyrir að hafa verið virkur danshöfundur allan þann tíma þá á hún engin verk í handraðanum sem hún getur sýnt gestum og gangandi. Minningarbrot um verkin hennar má finna í myndbandsupptökum, ljósmyndum, fjölmiðlaumfjöllunum, líkamsminni flytjendanna og hennar sjálfrar og minningum áhorfenda af sýningunum. Verkin sjálf lifðu aftur á móti aðeins þau augnablik sem tók að flytja þau.

Þrá danshöfunda eftir því að varðveita og gera verk sín varanlega má rekja langt aftur. Nokkur skráningaform hafa verið fundinn upp til að fanga danshreyfingar í fast form svona eins og tónlist má fanga í nótur en ekkert þeirra hefur náð útbreiðslu. Dansverk hafa því helst náða að lifa á milli kynslóða ef dansarar og danshöfundar hafa flutt þau frá líkama til líkama. Stóru klassísku ballettverkin eru sterkasta dæmin um þetta en þar er miðlun þekkingar stóru klassísku hlutverkanna áfram til næstu kynslóðar, þáttur í ferli bestu ballettdansaranna.

Með sýningunni Hamskipti, augnablikið vs. varanleiki leitar Sigríðar Soffíu leiða til að skapa verk sem hefur varanlegt form. Í samvinnu við Helga Má myndlistamanni skapa þau dans-verk, annars vegar í gengum ljósmyndir en hins vegar með því að Sigga Soffía dansar spor á pappír með krít eða málningu á fótunum og sýnir þannig áhorfendur slóð dansarans í mismunandi hreyfingum. Sigríður Soffía velur hringi og snúninga til að festa á pappír sem og lítið klassískt ballett verk, Deyjandi svanur og brot úr eigin verki Himininn kristallast. Útkoman eru mynstur og ferlar eftir snerti flöt iljarinnar við blað sem skapa falleg myndverk.

Það er merkilegt að sjá hvað mikið er hægt að lesa út úr myndunum sem verða til. Bletturinn sem myndast við það að hún gerir Pirouette á blaði opinbera algjörlega hversu sterkt jafnvægi hún hefur og ballettverkið sem er dansað á táskóm gefur allt annað útlit og áferð en nútímadansverkið hennar sjálfrar. Í ljósmyndunum á sýningunni tala hreyfingar Sigríðar Soffíu beint við myndlist Helga Más. Skoðuð eru form og línur dansarans og þau sett í samhengi við línur og form í myndlist. Í þessum myndum sést hvernig þessar listgreinar hafa að ákveðnu marki sameiginlegan kjarna þó að hann birtist á ólíkan hátt.

Helgi Már og Sigríður Soffía hafa unnið saman áður í nokkur skipti en Helgi Már gerði sviðsmyndina í dansverk Sigríðar Soffíu, Fubar, Himininn kristallast og Svartar Fjaðrir. Í þeim verkefnum var hlutverk myndlistarinnar að skapa fallega og sterka umgjörð fyrir dansinn. Í þessu verki haldast myndlist og dans algjörlega í hendur án þess að annað formið sé að þjóna hinu. Efniviður sýningarinnar er vissulega dansinn en framsetningin er myndlist ef svo má að orði komast. Sigga Soffía hefur farið ótroðnar slóðir í listsköpun sinni og hefur áður þanið út mörk danssköpunar eins og þegar hún kóreógraferaði flugeldasýninguna á Menningarnótt þrjú ár í röð. Sýningin Hamskipti, augnablikið vs. varanleiki var falleg og einföld framsetning á djúpum og áhugaverðum rannsóknum og pælingum um það hvernig hægt er að gera augnablikið í dansi varanlegt.

Um höfundinn
Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir er menntuð í íþróttafræðum og dansi auk sagnfræði. Hún hefur skrifað gagnrýni og greinar um dans undanfarin ár auk þess að kenna listdanssögu á framhaldsskólastigi og skapandi dans fyrir börn.

[fblike]

Deila