Sæluhrollur á ,,sjúskuðu, sjabbí sjóvi”

Borgarleikhúsið frumsýndi þann 16. mars síðastliðinn söngleikinn Rocky Horror. Söngleikurinn var fyrst settur á svið í Menntaskólanum við Hamrahlíð í kringum 1990 en síðan þá hefur hann verið settur upp tvisvar, í Loftkastalanum 1995 og á Akureyri 2010. Margir þekkja kvikmyndina The Rocky Horror Picture Show sem gerð var 1975 þar sem leikarinn Tim Curry fór með aðalhlutverkið. Kvikmyndin naut mikilla vinsælda og að sumu leyti hafði hún áhrif á tísku 8. áratugarins, sér í lagi pönkmenningarinnar. Fólk flykktist í kvikmyndahúsin og var tekið upp á því að hafa eins konar þátttakendasýningar, þar sem bíógestir mættu jafnvel í búningum og tóku þátt í atburðarásinni á hvíta tjaldinu með t.a.m. tilsvörum úr salnum.

Söngleikurinn er eins konar skopstæling á vísindaskáldskap og lélegum hryllingsmyndum.

Sagan snýst um ungt par, Janet og Brad,  sem lendir í því óhappi eina óveðursnótt að bíll þeirra bilar, skammt frá gömlum kastala, langt frá mannabyggðum. Þau þurfa að komast í síma eftir hjálp og berja að dyrum kastalans. Þar taka á móti þeim kynjaverur og furðulegt þjónustufólk hins (kyn)óða kynsnillings, Dr. Frank N. Furter. Gestgjafi unga parsins er ekki allur þar sem hann er séður og lenda hjónaleysin í ýmsum hremmingum á meðan á dvöl þeirra í kastalanum stendur.

Uppsetningu Borgarleikhússins leikstýrir Marta Nordal. Marta hefur getið sér gott orð sem leikstjóri og hefur hún nýlega verið ráðin leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. Marta hefur fengið til liðs við sig einvala lið listrænna stjórnenda. Þýðingin er í höndum Braga Valdimars Skúlasonar, um tónlistarstjórn sér Jón Ólafsson, Ilmur Stefánsdóttir sér um leikmynd og Filippía Elísdóttir um búninga. Danshöfundur er Lee Proud.

Það er óhætt að segja að allir þessir listrænu þættir náðu frábærri heildarmynd. Leikmynd Ilmar var gerð af mikilli hugvitsemi, búningar Filippíu glæsilegir og kynþokkafullir, dansar kraftmiklir og söngur til fyrirmyndar. Þýðing Braga var skemmtileg. Þó saknaði ég á einstaka stað þýðingar Veturliða t.d. í laginu Taktu, taktu, taktu, taktu mig. Einhvern veginn fer betur í munni fyrri þýðing sem var einhvern veginn svona: komdu, komdu, komdu við mig. (borið fram koddu, koddu, koddu við mig). Á einstaka stað var eins og það væri einu atkvæði fleira eða færra sem hljómaði einkennilega í eyrum. En margt er gott. T.d. upphafslag sýningarinnar Sæluhrollur þar sem sungið eru um sykurhúðað, sýrubaðað, sjabbí sjóv.

Það er enginn annar en Páll Óskar Hjálmtýsson sem fer með hlutverk Franks N. Furter en hann fór einmitt með hlutverkið þegar verkið var frumflutt hér á landi 1990. Páll Óskar er þeim hæfileikum gæddur að hann hrífur fólk með sér. Hann er verulega gefandi listamaður og hans sterka nánd á sviði er heillandi. Hlutverkið er líkamlega krefjandi. Páll endasendist um sviðið, léttklæddur í háhæluðum skóm, syngjandi og dansandi. Hann nær vel hinni andstyggilega tælandi persónu Franks. N. Furter en svo eru augnablik í sýningunni þar sem hann á alla samúð áheyranda með sinni kliðmjúku rödd.

Parið er leikið af Þórunni Örnu Kristjánsdóttur og Haraldi Ara Stefánssyni. Janet og Brad eru heldur hverdagslegar manneskjur, enda eiga þau að vera fremur venjulegir, saklausir krakkar sem lenda í þessum furðulegu aðstæðum. Þórunn Arna og Haraldur Ari túlka hlutverk sín með ágætum. Söngleikjaformið fer Þórunni Örnu sérlega vel. Þjónustulið kastalans leika þau Vala Kristín Eiríksdóttir, Björn Stefánsson og Brynhildur Guðjónsdóttir. Þessar persónur eru ógleymanlegar. Brynhildur er dásamleg í hlutverki Magentu, Björn er kostulegur Riff Raff og Vala Kristín skemmtileg Kólumbía. Arnar Dan Kristjánsson leikur sympatískt vöðvatröll með ágætum, Katla Margrét Þorgeirsdóttir er með fremur lítið en skemmtilegt hlutverk dr. Scott og Valdimar Guðmundsson söngvari fer með hlutverk Freddys á eftirminnilegan hátt. Síðast en ekki síst er tilgerðarlegi sögumaðurinn sem Valur Freyr Einarsson túlkar á afar fágaðan hátt, með lúmskan húmor en algjörlega áreynslulaust.

Átta dansarar bregða sér í ýmis hlutverk. Það var feiknagóður kraftur og leikgleði í hópnum.

Lifandi tónlistin er flutt til hliðar á sviðinu og eru flytjendur í tilheyrandi búningum í anda verksins, sem og eltiljósafólk í hliðarvængjum sviðsins.

Í stuttu máli sagt er sýning Borgarleikhússins á Rocky Horror hin ágætasta skemmtun. Hér er mjög fagmannlega að verki staðið og hér ríkir gleði ofar öllu, bæði í leik og söng, svo sem vera ber í slíkum öndvegis söngleik.

Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

[fblike]

Deila