Vill bæta heiminn með listinni

Listakonan Skaði Þórðardóttir flutti tónlist sína fyrst opinberlega undir nafninu Skaði í janúar 2016 og hefur síðan komið fram á fjölmörgum tónleikum hérlendis, m.a. á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í nóvember 2017. Nýjasta tónlistarverkefni hennar, Mix Noir, er unnið í samstarfi við þrjá aðra listamenn og var afraksturinn fluttur á tónleikum 1. mars síðastliðinn. Skaði fæst einnig við myndlist og hefur verið áberandi í hinsegin samfélaginu, bæði sem meðlimur fjöllistahópsins Drag-Súgs og vegna þess að á seinasta ári kom hún formlega út sem trans kona, sagði skilið við gamla nafnið sitt og hóf hormónameðferð. Ég fékk að kíkja í stúdíóið til Skaða og hún ræddi einlæglega við mig um listina og lífið.

Tónlistin er fyrst og fremst hvatvísi

Ég heimsæki Skaða upp í Breiðholt, þar sem hún býr og starfar. Hún býður mér upp á kaffi og sýnir mér aðstöðuna þar sem hún vinnur bæði myndlist og tónlist. Málverk, skissur, hljóðfæri og ýmiskonar tæki eru áberandi í rýmunum og ljóst er að hér fer fram fjölbreytt listsköpun.

Skaði á tónleikum. Mynd: Jóna Svanlaug (a.k.a. Svartálfur).

„Ég er farin að segja að tónlistin mín sé mainstream,“ svarar Skaði hlæjandi þegar ég spyr hana hvernig hún skilgreini sig tónlistarlega. Hún útskýrir síðan að margt sem tilheyri meginstraumnum í dag hafi sannarlega verið á jaðrinum fyrir nokkrum áratugum. „Hver veit, kannski verður kynusla elektró-pönk orðið mainstream eftir tíu ár. Tónlistin mín er fyrst og fremst hvatvísi, þetta er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég er athyglissjúk og fullkomlega sátt við það, ég nærist á hóli ef ég geri eitthvað gott en ég nærist líka á gagnrýni því hún fær mig til að vaxa.“

Skaði lýsir sviðsframkomu sinni sem blöndu af ágengni og munúð, hún leggur líka mikið upp úr tengslum við áhorfendur. „Ég elska þegar ég næ að gleðja fólk með því að vera uppi á sviði bara … BÚMM … horfið á mig! Síðan kem ég með þessa ruddatónlist sem býr til vissan árekstur við það að vera rosalega kvenleg, máluð með skart og í brjáluðum kjólum.“

Í stúdíóinu hjá Skaða. Mynd: Sólveig Johnsen.

Tónlistarfólk sameinar krafta sína

Nýjasta verkefni Skaða var unnið í samstarfi við listafólkið Mighty Bear, Kríu og Seint. Undir heitinu Mix Noir sömdu þau ábreiður á þekkt dægurlög og leyfðu sínum eigin stíl að njóta sín í útgáfunum. Lögin unnu þau hvert í sínu lagi en lögðu krafta sína saman í kynningarstarfseminni og á tónleikum sem haldnir voru á Loft Hostel 1. mars, en þar var afrakstur verkefnisins fluttur í heild sinni.

Skaði segir samstarfið hafa sprottið upp að miklu leyti vegna þess að í sameiningu geti þau vakið mun meiri athygli heldur en ein og óstudd. „Við erum öll stödd á svipuðum stað í tónlistarsenunni á íslandi, við erum öll ótrúlega metnaðargjörn og höfum mikil heilindi í sköpuninni okkar. Við erum samt sóló-artistar og ég efast um að við gætum búið til tónlist saman, það myndi líklega drepa vináttuna okkar.“

Skaði og Mighty Bear hafa verið góðir vinir síðan þau kynntust í gegnum fjöllistahópinn Drag-Súg og bralla margt saman. „Við erum límd saman af tónlistarlegum kærleika og ást og höfum sameiginleg markmið. Ég er samt ekkert viss um að tónlistin okkar passi endilega saman og sé hluti af sömu senunni, en mér þykir hugmyndin um tónlistarsenur gölluð að því leyti að oft vinnur gegn fólki hvernig það skilgreinir sig. Vissar leiðir lokast ef skilgreiningin passar ekki, ég á til dæmis hip-hop lög en þar sem ég er ekki skilgreind sem hip-hop artisti á ég ekki greiða leið inn í senuna.“

Listaverkið ræður forminu

Þegar ég spyr Skaða út í muninn á því að skapa tónlist og myndlist segir hún að listaverkið sjálft fái oft að ráða hvert formið verður. „Ég reyni að nálgast tónlistarmyndböndin mín eins og myndlistarverk og langar mikið til að fara að færa myndlistina meira inn í sviðsframkomuna, t.d. með sviðsmyndum. Ég held það eigi vel heima saman. En þetta er alltaf spurning um tíma, orku, fjármagn, aðstöðu og fleiri þætti.“

Skaði segir tónlist sína vera mun hvatvísari en myndlistina. „Ég held að ég fari dýpra inn í sálina í myndlistinni,“ segir hún og lýsir síðan fyrir mér verki sem hún kallar „Grand-listaverkið“ sitt og er í vinnslu. Það er söngva- og dansmynd, teiknuð að miklu leyti, sem byggir á vangaveltum um eðli raunveruleikans og sjálfsins. Í þessu verki vinnur Skaði meðal annars með persónur sem eru byggðar á tilfinningum, t.d. er veran Gauri byggður á hvatvísi og með honum er alltaf kærastan hans, Skömm. „Ég held að upplifun okkar á lífinu sé að miklu leyti tilfinningalífið okkar,“ segir Skaði, en henni er mjög hugleikið hvernig hver einstaklingur upplifir raunveruleikann á sinn einstaka hátt.

Skaði Þórðardóttir: Boredom of the Crown

Er loksins heil manneskja

Í byrjun árs 2016 hóf Skaði að koma fram á sviði sem kona og nota opinberlega nafnið Skaði, sem kemur úr norrænni goðafræði. Hún segist þá þegar hafa vitað innst inni að hún myndi fara í gegnum kynleiðréttingarferli og að það hafi verið mikilvægt skref að „koma út“ á þennan hátt. Skaði hóf síðan hormónameðferð í maí 2017 og segist aldrei hafa liðið betur. „Ég er í fyrsta skipti á ævinni að upplifa það að vera heil manneskja. Mér líður eins og estrógenið hafi bara verið þetta tannhjól sem vantaði til þess að líkami og hugur gætu náð sátt. Munurinn á að vera Skaði og að vera sá sem ég var er að ég „höndla“ lífið loksins einhvern veginn, næstum eins og fullorðin manneskja,“ útskýrir hún brosandi og lýsir svo þeirri þjáningu sem fylgdi því að vera ekki sátt í eigin skinni. „Ég hef verið í áratugi í efa og að fela mig, líka gagnvart sjálfri mér. Allan tímann langaði mig að koma út, geta klætt mig eins og mig langaði. En ég vissi að ef ég færi af stað þá gæti ég ekki snúið við. Ég var að fela stóran part af mér og bíða eftir að hann dæi og ég sá í raun enga aðra leið til að það gerðist aðra en að taka mitt eigið líf. Þar var ég fyrir ári síðan, ég hugsaði á hverjum degi að ég gæti þetta ekki lengur.“

Sögur fólks geta breytt samfélaginu

Skaði telur víst að hinseginfræðsla á aldrinum 12-13 ára hefði breytt miklu fyrir hana og ítrekar mikilvægi þess að unglingar fái slíka fræðslu nú á dögum. Einnig segir hún mikilvægt að fólk hafi rödd og geti sagt sína sögu, sem hún sjálf gerir helst í gegnum tónlistina. Hún hefur m.a. unnið talsvert með texta sem eru byggðir á hennar eigin lífi, þó að hún taki sér vissulega skáldaleyfi og skáldi sumt upp frá grunni. „Í gegnum söguna hafa listir og menning, sér í lagi vinsæl tónlist, verið sterkt vopn í tilveru- og réttindabaráttu minnihlutahópa. Auðvitað vil ég að fólk „fíli“ tónlistina mína hennar sjálfrar vegna, ekki vegna þess að ég er trans kona. En sögur af fólki, um hvernig við lifum og hvernig við sigrum og töpum er það sem fær okkur til að vaxa sem samfélag. Sögurnar okkar gera samfélagið betra. Við getum sagt þær í gegnum listina og menninguna. Þetta eru hlutir sem geta breytt heiminum.“

Myndband við lagið „Dimmar Hvatir“, unnið í samstarfi við meðlimi Drag-Súgs.

Myndband við lagið „Love Killed“

Teiknimyndin Cronicles of Igor eftir Skaða

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen er kvikmyndafræðingur (BA), meistaranemi í ritlist og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila