Milli-greina listsköpun og minningastuldur

Í Leikhús, Myndlist, Umfjöllun höf. Sólveig Eir Stewart

Lóa Hjálmtýsdóttir er listakona sem hefur unnið að ýmsu í gegnum tíðina en er hvað þekktust fyrir teiknimyndasögur sínar, sem notið hafa gríðarlegra vinsælda á Íslandi undanfarin ár. Ásamt því að teikna og sinna myndlistinni syngur hún í hljómsveitinni FM Belfast. Aðspurð segist hún vera svokallaður milli-greina listamaður.

Vangaveltur milli-greina listamannsins

Lóa Hjálmtýsdóttir. Mynd: Olga Rei.

Á vinnustofu Lóu í miðbæ Reykjavíkur hanga teikningar eftir hana á veggjunum ásamt ýmsum litríkum smáhlutum sem hún er einnig með til sölu. Aðspurð um hvernig það sé að vera teiknimyndasöguhöfundur á Íslandi segir hún það geta verið svolítið ruglingslegt.

„Ég varð svolítið ringluð þegar ég var að sækja um listamannalaun. Hvar sækir maður um teiknimyndasögugerð? Það er ekkert fyrir það. Þetta er ekki beinlínis að vera rithöfundur og þetta er eiginlega ekki myndlist heldur, eða hönnun. Maður stendur á gati gagnvart því,“ segir Lóa og bætir við að það sem hafi komið henni mest á óvart þegar hún setti teiknimyndasögurnar á netið væri að fólkið sem læsi þær væri ekki endilega markhópurinn sem hún bjóst við. „Það er hægt að sjá tölfræðina á bak við vefsíðuna, hver lækar og hver er að skoða myndirnar. Það eru mest konur og þá helst konur sem eru eldri en ég, sem eru kannski ekki hinir dæmigerðu myndasöguskoðendur. Mér finnst það alveg ótrúlega skemmtilegt! Þær voru kannski alltaf markhópurinn án þess að ég gerði ráð fyrir því.“

Teiknimyndasögur settar á svið

Nýverið lauk í Borgarleikhúsinu sýningum á Lóaboratoríum, leikriti byggðu á samnefndri bók eftir Lóu sem inniheldur safn teiknimyndasagna eftir hana sem birtust í Reykjavík Grapevine. Hugmyndin að leiksýningunni kviknaði hjá leikkonunni Maríu Hebu Þorkelsdóttur þegar önnur leikkona, Elma Lísa Gunnarsdóttir, gaf henni bókina. María áttaði sig á því að hægt væri að gera áhugaverða sýningu sem spunnin væri úr teiknimyndasögunum og hafði þegar í stað samband við Lóu sem fékk það nýja verkefni að skrifa leikrit byggt á eigin myndasögum fyrir fjórar fjölhæfar leikkonur. Lóa, sem er bæði menntuð í myndlist frá Listaháskóla Íslands og ritlist við Háskóla Íslands, tók verkefninu fagnandi og bætti við sig enn einum starfstitlinum: leikskáld. Verkinu var síðan leikstýrt af Kolfinnu Nikulásdóttur auk þess sem Hrafnhildur Hagalín leikskáld veitti Lóu mikinn stuðning í ferlinu.

Leikritið fjallar um fjórar nágrannakonur sem virðast allar hafa sinn djöful að draga. Annars vegar er um að ræða mæðgur sem búa saman og hins vegar systur sem búa í húsinu á móti. Allt eru þetta sterkir kvenkarakterar sem auðvelt er að tengja sig við. Líf þessara fjögurra kvenna mætast þegar pitsusendill ruglar pöntunum þeirra saman. Atburðurinn verður til þess að það reynir á fjölskyldutengsl og sambönd kvennanna og í kjölfarið varpar hann ljósi á að þær þrá í raun allar hið sama í lífinu, þrátt fyrir að vera mjög ólíkar manneskjur.

Sviðsmyndinni er skipt í tvennt og áhorfendur sjá inn í mjög ólíkar íbúðir sem eiga það báðar sameiginlegt að vera á rúi og stúi. Inn á milli sena eru minni háttar dansatriði sem brjóta upp söguþráðinn.

Leikkonurnar Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir í hlutverkum sínum. Mynd: Þorbjörn Þorgeirsson.

Ferlið sem púsluspil

„Ég var í raun að vinna upp úr efni sem var þegar til, þ.e. myndasögunum. Beinagrind leikritsins er samtöl úr þeim en svo þurfti ég að raða hverri senu niður á fjórar leikkonur. Ég gerði það og hlutverkin eru á einhvern hátt mörkuð af teiknimyndasögunum. Ég þurfti að hugsa: Hver þessara karaktera myndi segja eða gera þetta? Ferlið varð eiginlega eins og púsluspil. Mesta vinnan fór því í að búa til tengingar og söguþráð utan um myndirnar. Sýningin er eins konar hybrid, ekki farsi en samt gamanleikrit og með listrænu ívafi,“ segir Lóa.

Verk Lóu eru einna mest innblásin af fjölskyldulífi og dægurmenningu en hún segist einnig eiga það til að stela minningum eða atburðum úr lífi annarra sem enda á einn eða annan hátt inni í verkum hennar. „Systir mín kallar mig stundum minningaþjóf – en samt gerist þetta alveg óvart! Maður er stanslaust að stela úr lifandi lífi, bæði sínu og annarra,“ viðurkennir Lóa og skellir upp úr.

Lóa segir að það hafi verið skemmtileg áskorun að skrifa leikrit upp úr teiknimyndasögunum, að enduruppgötva gamlar teiknimyndasögur sem hún hafði gleymt og vera í stöðugu samtali við Kolfinnu Nikulásdóttur og Hrafnhildi Hagalín um ferlið sjálft.

Svikaraheilkenni og listin að sleppa tökunum

„Erfiðast fannst mér þegar leikritið var komið í svokallað æfingaferli, þegar verið var að hökta og hjakka í efninu til að koma því saman og ná upp tempói,“ útskýrir Lóa. „Mér fannst ég vera umkringd svo flottu og hæfileikaríku fólki og fékk alveg smá svikaraheilkenni. En síðan varð þetta allt saman í lagi, fólk er víst svona í öllum fögum, sem er ótrúlega fyndið. Maður er svo mikill einyrki við gerð þessara myndasagna en þegar unnið er að leikriti þá áttar maður sig á því að allir hafa sitt hlutverk og að öll hlutverkin eru rosalega mikilvæg.“

Mynd: Þorbjörn Þorgeirsson.

„Ég hef alltaf verið svo mikil one-take manneskja að það var alveg frábær reynsla fyrir mig að hafa langvarandi verkefni til að bæta og fínpússa,“ segir Lóa. Hún segist vera þakklátust fyrir leikstjórann sem hafði yfirsýn yfir verkin auk fólksins sem hún hafði þá ánægju af að vinna með.

Fyrri reynsla Lóu af leikritagerð var í samstarfsáfanga sem fór fram á milli meistaranema í ritlistar við Háskóla Íslands og nemenda á leikarabraut Listaháskóla Íslands. Þar vann hún verkefni með tveimur leikurum sem unnu mestmegnis með spuna. Hún segir þá reynslu hafa kennt sér listina að sleppa taki á ritverki sínu og leyfa því þróast í höndum annarra, ferli sem flest leikskáld kannast eflaust við.

„Eftir að mínu hlutverki var lokið og leikstjórinn og leikhópurinn tekinn við verkefninu var lítið fyrir mig annað að gera en að mæta og gefa mitt álit ef einhver óskaði eftir því. Mér þótti mjög gefandi og áhugavert að fylgjast með þeirra ferli en að sama skapi þótti mér erfiðast að bíða eftir viðtökum frá áhorfendum og gagnrýnendum. Við fengum að mestu leyti mjög góða gagnrýni og áhorfendur voru yfir sig hrifnir. Sýningartíminn var framlengdur um tvær sýningar og ég leit auðvitað á það sem meðmæli með verkefninu. Ég mætti á lokasýninguna og upplifði mjög fallegt móment þar sem ég sat í sal fullum af fólki sem var að hlæja að einhverju sem ég hafði búið til. Það gladdi mig mikið og öll vinnan, allur sjálfsefinn og stressið sem fylgdi verkefninu urðu skyndilega erfiðisins virði. Ég er strax farin að skipuleggja næsta verkefni og hef nú skýrari mynd af ferlinu.“

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Sólveig Eir Stewart

Sólveig Eir Stewart

Sólveig Eir Stewart er meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila