Slá í gegn

Í Leikhús, Rýni höf. Dagný Kristjánsdóttir

Slá í gegn, slá í gegn
þú veist að ég þrái að slá í gegn
Af einhverjum völdum hefur það reynst mér um megn…

Söngleikurinn „Slá í gegn“ er vafinn utan um lög Stuðmanna frá níunda áratugi síðustu aldar. Einkum lögunum úr mynd Ágústs Guðmundssonar Með allt á hreinu frá 1981. Það sem var svo ótrúlega heillandi við þá mynd var einhvers konar sambland af einlægni og íroníu og súrrealísku bulli í hinni sérkennilegu Stuðmannablöndu. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú er þessi næstum fertugi smellur orðinn klassík og upp er kominn nýr söngleikur – söngleikur um söngleik – saminn og leikstýrt af Guðjóni Karlssyni, og við sáum hann á laugardagskvöld í Þjóðleikhúsinu.

Sálin hans Jóns míns
Sagan gerist í smábæ þar sem leikstjórinn Sigurjón (Jón Gnarr) er að setja upp Gullna hliðið af mikilli geðvonsku og rekur leikarana af því að ekkert er nógu gott fyrir hans hátign, leikstjórann. Í sömu mund kemur farandsirkus Binna og Helgu í bæinn og leikararnir ráða sig hjá þeim og eitt leiðir af öðru með einni ástarsögu, nokkrum sorgarsögum og flóknum afleiðingum enn flóknari framhjáhalda en allt endar vel.

Þarna er næstum allt landsliðið í gamanleik mætt til leiks með Óafíu Hrönn Jóhannsdóttur og Örn Árnason í aðalhlutverkum sem þau léku af sjarma og öryggi. Ólafía Hrönn er sálin í sirkusnum, sú sem reddar, huggar og skammar. Edda Björgvinsdóttir lék hlutverk sirkusdömu, sambland af skeggjuðu konunni og Dolly Parton – makalaust leikgervi og maður mátti minna sig á að inni í því var glæsikvendi. Sigurður Sigurjónsson leikur sóknarprestinn og sýnir hverja hliðina á þeirri persónu á fætur annarri, nú sögumann, nú fyllibyttu, nú fallbyssukúlu og nú eiturtöffan hnífakastara. Hann fór á kostum. Og ekki skemmdi að hafa Jón Gnarr í hlutverki Sigurjóns digra.

Lögin (hans Jóns míns)
Það hefur verið sagt að söngleikir og klámmyndir eigi það sameiginlegt að vandræðalegur söguþráður tengi „atriðin/lögin“ sem allir bíði eftir. Það er ábyggilega nokkuð til í því. Þetta gerðist samt ekki í Ellý í Borgarleikhúsinu þar sem ævisaga Ellýjar tengdi lögin snoturlega saman og gerði þau oft að eins konar hluta af sögu hennar. Veikleiki sýningarinnar „Slá í gegn“ er að gamanleikurinn sem ofinn er kringum Stuðmannalögin er ruglingslegur og ekki fyndinn. Lögin voru hins vegar vel flutt yfir línuna og leikarar sem ég hef ekki oft heyrt syngja reynast fantagóðir söngvarar. Esther Talía, Sigurður Þór Óskarsson, Hilmir Snær og Snæfríður Ingvarsdóttur komu mér öll á óvart. Og áhorfendur klöppuðu og blístruðu og nutu sinna kæru smella.

Samhæfðasta og flottasta atriði sýningarinnar fannst mér klappatriðið fyrir hlé en mér fannst of sjaldan myndast sú samhæfða, myndræna og fókuseraða söng- og sviðsmynd/uppstilling sem maður sér í þekktum söngleikjauppfærslum. Það gerðist þó í langri lokasenunni, sjálfri sýningu sirkussins, sem var glæsileg, flugeldasýning sem sendi áhorfendur glaða út úr húsinu.

Og salurinn stóð úr sætum í lokin og klappaði en það er orðin skylda í íslenskum leikhúsum – sama hvað er sýnt. Þau sjö ár sem ég stundaði leikhús í Osló sá ég þetta tvisvar gerast og þar hafði þetta einhverja merkingu.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila