Ljúfsár og bráðskemmtilegur kabarett um ástina

Í Leikhús, Rýni höf. Ingibjörg Þórisdóttir

Ahhh…

Ástin er að halda jafnvægi

Nei fokk

Ástin er að detta

Föstudaginn 9. febrúar frumsýndi leikhópurinn RaTaTam í Tjarnarbíói nýjan kabarett sem fjallar um ást. Áður hefur hópurinn sýnt leikverk sem vakti mikla athygli en það var byggt á viðtölum við þolendur, gerendur og aðstandendur heimilisofbeldis. Hér er sem sagt umfjöllunarefnið allt annað.

Efnið er stórt. Hvernig er hægt að fjalla um ást og hvers konar ást er þá til umfjöllunar? RaTaTam nota texta skáldkonunnnar, Elísabetu Jökulsdóttur, sem sent hefur frá sér fjöldann allan af ljóðabókum, örsögum og leikritum. Hennar umfjöllunarefni hefur oftar en ekki verið um ástina. En það er viss galdur fólginn í því að fjalla um jafn tilfinningalegt efni og ást án þess að verða væmin. Elísabet býr yfir þessum galdri. Textar hennar eru einlægir, blátt áfram, fallegir, sorglegir, fyndnir, fullir af löngun og þrá eftir ást og margir hverjir tragíkómisíkir. En síðast en ekki síst eru þeir aðgengilegir fyrir lesendur sem í þessu tilfelli eru áhorfendur.

Leikstjórinn Charlotte Bøving hefur valið kabarettformið til að vinna úr textum Elísabetar. Kabarettinn er eins konar ádeila með söng, dansi og leikhústextum þar sem drepið er á félagsleg (eða pólitísk) málefni. Hér er það ástin. Þetta leikhúsform hæfir efninu frábærlega. Textar hafa verið valdir og settir saman af kostgæfni og hver þeirra skemmtilega útfærður á sviðinu. Þetta eru eins konar örsenur þar sem leikarar fara með textann á kómískan hátt og skiptir engu hvort leikari er karlkyns eða kvenkyns.

Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur undirstrika þessa kómík. Leikarar eru allir í eins búningum, nánast í trúðsgervi. Þórunn gerir einnig leikmyndina sem er einföld en bráðsnjöll og margnýtileg. Fjórir rauðir efnisstrangar hanga úr loftinu og geta leikarar nýtt þá á margvíslegan hátt. Rauði liturinn, litur ástarinnar, er allsráðandi. Sýningin er opinská, allt er uppi á borðum, ef svo má að orði komast. Kynþokkinn er alls ráðandi.

Allir leikarar sýningarinnar, Laufey, Guðmundur Ingi, Halldóra Rut og Albert standa sig með mikilli prýði í leik, dansi og söng. Textaflutningur er mjög góður, raddblær, svipbrigði, leikur, allt gengur upp. Öll hafa þau þessa tragíkómík á valdi sínu svo unun er á að horfa.

RaTaTam og listrænir stjórnendur eiga lof skilið fyrir mjög vel heppnaða og skemmtilega sýningu.

Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

[fblike]

Deila