Systur í skúmaskotum

Í Leikhús, Rýni höf. Dagný Kristjánsdóttir

Á litla sviðinu í Borgarleikhúsinu hefur, á miðju gólfi, verið byggður turn einn mikill úr dósum. Þar er sýnt eitt af barnaleikritum vormisserisins, Skúmaskot eftir Sölku Guðmundsdóttur í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur.

Við okkur blasir búð sem selur aðeins eina vöru: lífrænar, grænar baunir. Hún er rekin af Geir Skúmssyni (Halldóri Gylfasyni) sem er ógn leiður yfir því að hafa hvorki talað við né séð tvíburabróður sinn í 20 ár. Þeim lenti saman útaf smámáli, bróðirinn stakk af og hefur ei síðan sést en sendir kort öðru hverju svohljóðandi: „Ég er hér“. Það reynast orð að sönnu eins og áhorfendur komast að í leikritslok.

Inn í þessa baunaverslun hrynja systurnar Rúna (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) og Vala (Vala Kristín Eiríksdóttir), þeim lendir saman útaf smáatriðum og Rúna litla rýkur burt í fússi. Þegar hún sér auglýsingu um partý allra tíma finnst henni að hún eigi rétt á smá ánægju í þessu lífi. Til að komast í partýið það þarf hún að fara í lyftu niður í miklar vistarverur neðanjarðar og leysa furðulegar þrautir undir stjórn enn furðulegri konu sem kallar sig Kristveigu Kristel (Maríanna Klara Lútersdóttir). Vala finnur hana þar aftur, systurnar sættast og áfram hlykkjast sagan með ærslum og óhugnaði.

Það er Signý Berger sem stendur fyrir leikmynd og búningum. Hvort tveggja ber vott um hugmyndaauðgi og frumleika. Þær Gréta búa til skrautlegan, litríkan og furðulegan neðanjarðarheim. Í litlu rými Litla sviðs Borgarleikhússins verða til ranghalar og viðkomustaðir á leiðinni erfiðu að partýinu. Þetta er eins og smámynd af ferð Ódysseifs til Íþöku með viðkomustöðum hjá furðudýrum og merkilegum kvikindum en kyndugastur allra er þó hinn dularfulli, mannfælni húsvörður. Hann verður eins konar hjálparmaður Rúnu í þrautakónginum, kemur og fer, eldsnöggur og óhugnanlegur. Leikgervi hans, sem Elín S Gísladóttir býr til, eru mikilfengleg. Það er mikil hreyfing upp og niður í leikmyndinni, flóknar leiklausnir virðast einfaldar og með lýsingu Juliette Louste, ljósi og skuggum urðu skúmaskotin ýmist óhugnanleg eða krúttuð. Tónlist Axels Inga Árnasonar og leikhljóð þeirra Ólafs Arnar Thoroddsen léku stórt hlutverk í sýningunni.

Texti Sölku Guðmundsdóttur er bráðskemmtilegur. Þar er mikið af orðaleikjum, myndhverfingum og bröndurum en líka einlægni og pælingum um vináttu, samstöðu og samskipti. Þórunn Arna og Vala Kristín fóru prýðilega með hlutverk sín, Vala er meiri gelgja, ofurviðkvæm fyrir sjálfri sér og öllum öðrum, Rúna er meira athafnaskáld, alltaf að búa eitthvað til, skapmikil og viðkvæm. Halldór Gylfason vakti mikla hrifningu áhorfenda bæði í hlutverki húsvarðarins og Geirs Skúmseiganda lífrænu baunabúðarinnar. Maríanna Klara Lútersdóttir leikur Kristveigu Kristel og stjórnar ratleiknum í undirheimum með miklum tilþrifum. Sem öldruðum áhorfanda fannst mér að hefði vel mátt draga úr látunum, sambandið við hina ungu áhorfendur skiptir meira máli en stuðið á sviðinu. Heyra má þó lægra sé látið.

Ég á svolítið erfitt með að sjá fyrir hvaða aldur leikritið er ætlað, það er of flókið og óhugnanlegt fyrir allra yngstu börnin en börn eldri en átta ára skemmtu sér vel. Una Sædís Jónsdóttir, sem fylgt hefur mér í barnaleikhús í nokkur ár, er nú orðin unglingur. Hún getur verið óvæginn gagnrýnandi en þessi sýning fannst henni skemmtileg.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila