Kynferðisleg smánun Vantrúar

Föstudaginn 15. desember síðastliðinn skrifaði sr. Bolli Pétur Bollason færslu á Facebook vegg sinn þar sem hann fagnaði #metoo hreyfingunni sem undanfarnar vikur hefur miðlað miklum fjölda frásagna kvenna af kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi sem þær hafa sætt innan hinna ýmsu starfsstétta og vinnustaða hér á landi. Þar má nefna konur innan vísindasamfélagsins og þá ekki síst úr Háskóla Íslands en sömuleiðis úr röðum stjórnmálamanna, leikara, kvikmyndagerðarmanna, sviðslistamanna, lækna, heilbrigðisstarfsmanna, flugfreyja, hugbúnaðar- og tæknistarfsmanna og starfsmanna úr menntageiranum. Sr. Bolli Pétur nefndi í þessu samhengi að sjálfur hefði hann orðið fyrir margra ára löngu einelti í netheimum af hálfu félagsmanna Vantrúar og þá alveg sérstaklega Matthíasar Ásgeirssonar sem frá upphafi hefur verið einn helsti forystumaður þess félags. Máli sínu til stuðnings vísaði sr. Bolli Pétur á bloggvef Matthíasar Örvitann þar sem skömmunum er látið rigna yfir hann og hann m.a. kallaður níðingur vegna þess að hann hafi sem prestur heimsótt leikskóla barna Matthíasar og þegar þau hafi náð grunnskólaaldri hafi heimsóknir grunnskólabarna í m.a. sóknarkirkju hans tekið við. Þetta allt hafi hann hins vegar gert á forsendum viðkomandi leikskóla og grunnskóla og alla tíð viljað lúta reglum þeirra og viðkomandi foreldra í samtali við þá. Sr. Bolli Pétur var þegar í stað gagnrýndur fyrir þessi skrif sín af m.a. ýmsum vantrúarfélögum og var hann sakaður um að misnota með þessu í eigin þágu þá vitundarvakningu sem #metoo hreyfingin hefði náð að hrinda af stað. Gagnrýnin varð til þess að sr. Bolli Pétur ákvað fáeinum klukkutímum síðar að fjarlægja þessa færslu sína með öllum umræðuþræðinum en í staðinn birti hann þar eftirfarandi yfirlýsingu:

Ég setti inn færslu í gær sem vísaði á umræðu á netinu sem átti sér stað þegar ég var prestur í Seljahverfi á árunum 2002-2009. Mikil umræða átti sér stað við færsluna og sérstaklega varðandi það að ég vísaði í metoo hreyfinguna. Það var ekki til að notfæra mér þá byltingu mér og mínum málstað til framdráttar heldur til að vísa í þennan málstað sem fyrirmynd um það hvernig til tekst þegar við ávörpum ofbeldi og neteinelti, neitum að taka þátt í því og bregðumst við með marktækum hætti til að gera samfélagið okkar betra. Það að halda því fram eins og gert var í athugasemd við færsluna að ofbeldi og níðskrif á netinu gagnvart persónu fólks sé oft eina leiðin til að ná fram réttlæti, er rangt. Við getum gert betur og eigum að gera betur á hverjum degi, án ofbeldis. Við erum ekki langt komin ef við teljum að persónuníð í opinbera rýminu sé eina lausnin málstað okkar til framdráttar. Það er ekki álitlegt samfélag sem hugsar þannig. Þess vegna er ég hugsi og læt umræðuna staðar numið hér!

Ótvírætt er að sr. Bolli Pétur upplifði skrif vantrúarfélaga gegn sér um árabil sem einelti en samhliða birtu þeir ótal skrif þar sem þeir lýstu öllum þeim prestum sem boða trú meðal barna sem barnaníðingum. Sjálfur talar Matthías jöfnum höndum um slíka presta sem níðinga og barnaníðinga í blogggrein sinni „Berjum presta‟ frá 2005. Matthías beindi þó ekki aðeins reiði sinni að sr. Bolla Pétri og öðrum prestum heldur kaus hann einnig að beina spjótum sínum gegn eiginkonu sr. Bolla Péturs en hana kallaði hann frillu hans og sagði hana m.a. vælandi prestsfrú enda „séu engin takmörk fyrir því hvað hún getur vælt blessunin‟.

Dæmi um hvernig Matthías Ásgeirsson einn helsti stofnandi Vantrúar beitir kynferðislegri smánun í trúarandófi sínu.

Sjálfur lít ég svo á að Matthías og félagar hans í Vantrú hafi með réttu krafist þess að ekki megi neyða börn til trúariðkana sem séu andstæð veruleikasýn þeirra sjálfra og foreldra þeirra en þar má m.a. nefna það að biðja bænir, hvort sem er í hljóði, upphátt eða með söng. Þar með er ekki sagt að gagnrýni þeirra um öll önnur efni hafi verið réttmæt eða þær aðferðir sem þeir beittu í málflutningi sínum hafi verið óaðfinnanlegar. Það vekur ennfremur ýmsar spurningar að umsvifalaust hafi verið reynt að þagga niður í sr. Bolla Pétri þegar hann greindi frá neikvæðri reynslu sinni af vantrúarfélögum í tengslum við #metoo hreyfinguna og hvernig hann upplifði ofbeldið af þeirra hálfu sem m.a. hafði tekið á sig mynd kynferðislegrar smánunar. Allar þessar spurningar eru mikilvægar. Geta vissar aðstæður réttlætt það að menn eigi ekki að greina frá því ofbeldi sem þeir hafa upplifað? Er með réttu hægt að halda því fram að vissir einstaklingar verðskuldi ofbeldi á borð við kynferðislega smánun vegna stöðu sinnar, orða og gjörða? Og ef svo er, skiptir þá máli af hvaða kyni viðkomandi sé, hvaða hópi hann tilheyri eða í hvaða liði hann sé sagður vera? Má smána karlmenn úr afmörkuðum hópum eða vissum stéttum og valdastöðum kynferðislega ef það er í þágu nægilega mikilvægs málstaðar? Þeir sem halda slíkum viðhorfum á lofti eða öðrum áþekkum verða að rökstyðja mál sitt með fullnægjandi hætti og það þarf að ræða slíkt opinskátt.

Mikilvægt er að hafa það í huga að kynferðisleg smánun er fyrst og fremst valdbeiting sem snýst um það að ná taki á þeim sem er viðfang niðurlægingarinnar. Kynferðisleg smánun þarf sem slík ekkert að snúast um kynferðislegan áhuga hins brotlega á brotaþolanum. Hún snýst ekki síður um að sýna yfirburði og vald viðkomandi yfir þeim sem þessi óumbeðna athygli beinist að. Þetta er það sem svo margar konur hafa miðlað í reynslufrásögnum sínum undanfarnar vikur.

Sjálfur skil ég #metoo hreyfinguna svo að ekki beri að líða ofbeldi á borð við kynferðislega og kynferðisbundna áreitni sama hver eigi í hlut og það beri að afhjúpa það. Þó svo að það hafi verið konur sem hafi haft þar frumkvæðið að því að leiða fram með reynslusögum sínum það víðtæka samfélagsmein sem þetta vandamál er þá séu raddir karlmanna þar ekki síður mikilvægar. Þess vegna sé það aðeins til marks um þöggun og meðvirkni með ofbeldinu þegar vissir aðilar eru gagnrýndir fyrir að misnota #metoo hreyfinguna í eigin þágu þegar þeir greina frá raunverulegu ofbeldi sem þeir hafa sætt. Ég vil því sem karlmaður gjarnan nota tækifærið hér og greina frá minni eigin reynslu enda eru það ekki bara konur sem verða fyrir kynferðislegri smánun af ýmsu tagi. Ég segi hér um hverja er að ræða vegna þess að þeir beittu sér í þessum efnum gegn mér opinberlega.

Kæruherferðin sem félagið Vantrú skipulagði gegn mér sem kennara við Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum og stóð samfleytt yfir í tvö ár og átta mánuði fékk töluverða fjölmiðlaumfjöllun á sínum tíma en öll kærumálin fimm vann ég að lokum. Eftir að þessari kæruherferð lauk hafa ritrýndar tímaritsgreinar verið birtar sem sýna hvernig vantrúarfélagar skipulögðu hana sem einelti en sjálfir kusu þeir að nota það orð um margþættar aðgerðir sínar gegn mér. Kæruherferð vantrúarfélaga var grundvölluð á eintómum getgátum um hvað ég hefði mögulega sagt eða látið ósagt í tengslum við nokkrar glærur í kennslustund sem enginn þeirra sótti og lögðu þeir áherslu á að engu máli skipti út frá hvaða fræðilegum forsendum og greiningarkerfum var gengið í námskeiðinu eða hvað nemendur mínir, sem ýmsir hverjir voru meira að segja yfirlýstir trúleysingjar, hefðu um kennslu mína að segja. Það sem skipti vantrúarfélagana mestu máli var að reyna með spuna sínum og skrifum í ótal áttir að sannfæra allt háskólasamfélagið, fjölmiðla, ríkisstofnanir og almenning um að ég væri ómarktækur á mínu fræðasviði og óhæfur til kennslu vegna vitsmunaskorts, þroskaskerðingar, rangra skoðana og vafasamra kynferðislegra hvata. Raunar lögðu margir vantrúarfélagar sig fram við að smána mig og lítillækka sem mest með því að setja mig og störf mín í kynferðislegt samhengi af ýmsu tagi. Þessi kynferðislega smánun fólst m.a. í því að ég var sagður haldinn annarlegum kynferðislegum áhuga á vantrúarfélögum og öllu því sem þeir hafa skrifað og sagt á opinberum vettvangi, ég væri eins og „vanviti sem hýðir sjálfan sig sér til sársaukafullra ánægjustunda‟, ég frói mér löngum stundum við störf mín og ég fái „daglega raðfullnægingarútrás‟ vegna þess að ég telji vantrúarfélaga hafa eitthvað á móti mér í sífelldum skrifum sínum gegn mér og kæruherðferð. Einum stjórnarmeðliminum, sem þá var ritstjóri vefs Vantrúar og átti síðar eftir að verða varaformaður félagsins, var tíðrætt um kynfæri mín í skrifum sínum og komst þar m.a. svo að orði við eitt tækifæri í greininni „Akademísk kveðja og blessun‟ á bloggi sínu Æblogdodd: Gubbiði uppí hvers annars kjafta:

Þú ert nú meiri dindilhosuhrákælauglubrundsböggull og kaunfúll barmabrundull, og ekki nóg með það heldur ertu líka fjörulallastigamaður með útferðarfés Bob Sagets og Óla Skúla þú holgóma þrumukunta og þarmasugulegremburotta sem angar af tussudufti og öryrkjafýlumúslí með lítin og ljótan þráatilla pikkfastan í daunfúlum skorpusníp á einhverri klofhóruæluömmu með svip Barböru Streisand sem hefur gengið í gegnum tæplega 200 kílómetra langa prestatittlínganámu með smá viðkomu hjá stórum svörtum saurþjöppurum og þjáist þar af leiðandi af alvarlegri iðraþrumu og ógeðslegri kuntuígerð að jafnvel bestu pjöllusjampóin duga ekki til hafa hemil á krakkbláu skapabörmunum, þú drulluháleistur og dusilmenni. 🙂  Vertu í bandi! p.s. Það er kannski óþarfi að taka það fram en til að taka af allan vafa þá er þetta náttúrulega háalvarleg og reður fræðileg úttekt sem ég bind miklar vonir við að virtustu menntastofnanir landsins taki akademískt mark á og athugi gaumgæfilega þá magnþrungna merkingu sem ofangreind málsgrein viðhefur og var unninn útfrá ákveðnum gæðastöðlum og gæti markað djúp fræðileg spor er kljást við eðli og tilurð þessara orða og einstaklinga í nærsamfélaginu þar sem eitt þarf ekki að útiloka annað.

Þó svo að rúm fimm ár séu nú liðin frá því að ég vann síðasta kærumál Vantrúar á hendur mér fæ ég enn níðsendingar frá þessum sama einstaklingi, Þórði Ingvarssyni, ýmist í Facebook skilaboðum á mig einan eða í greinum, færslum og athugasemdum á opinberum vettvangi.

Guðni Elísson prófessor tók saman nokkur dæmi um þessi skrif vantrúarfélaga um mig í ritrýndri grein sem birtist í Ritinu: Tímariti Hugvísindastofnunar árið 2014 og nefnist „Fúsk, fáfræði, fordómar? Vantrú, Háskóli Íslands og akademísk ábyrgð‟ en þar segir:

Heilagt stríð Vantrúar ætti þó ekki að afgreiða sem kaldranalega hernaðartaktík. Fyrir ýmsum félögum er um persónulegt réttlætismál að ræða en þeir upplifa félagsfræðilega greiningu Bjarna sem megna óvirðingu. Bjarni brýtur með túlkun sinni gegn sjálfsmynd þeirra eins og má sjá í kynferðismyndmálinu sem þeir beita stundum þegar þeir takast á við tilhugsunina um að Bjarni lesi þá og setji orð þeirra í annað samhengi en þeim þykir við hæfi. Óli Gneisti Sóleyjarson kallar gagnagrunn þann sem Bjarni hefur komið sér upp á síðustu áratugum um trúarumræðuna á Íslandi, en þar má m.a. finna mikið magn upplýsinga um íslenskar trúleysishreyfingar, „einkarúnksafn“ Bjarna, á meðan Þórður Ingvarsson veltir því fyrir sér hvort Bjarni örvist kynferðislega yfir stóryrðalistum þeim sem hann hefur tekið saman upp úr skrifum vantrúarfélaga: „Þetta er krúttlega krípi tilhugsun og alls ekki fjarri sannleikanum – einsog þú veist. En veistu; það væri verulega fokking krípí ef þú værir að fróa þér yfir orðum mínum. Sú tilhugsun. Úff. Ég fengi hroll ef mér væri ekki skítfiokkingsama. Bara svona, þér að segja.“ Að lokum er Birgi Baldurssyni umhugað um að tengja áhuga Bjarna á trúarlífsfélagsfræði kynferðislegri endaþarmsörvun, en hann hefur oftar en einu sinni kallað innihaldsgreininguna „þermisstigsskrifstofuvinnu“.

Uppnefnaþrönginni sem beint er að Bjarna Randveri á þeim endalausu listum sem hann hefur tekið saman má skilgreina sem tilraun félagsmanna til þess að kveða hann í kútinn, að svara „þverhausarúnkinu“ í honum. Hér er sýnishorn. Bjarni er glámskyggn og grunnfær, mannfýla, flón, fáviti, fífl, rotið epli, andstæðingur, andskotans hálfviti, djöfulsins lúði, hlandspekingur, hlandhaus, skaddaður KFUM-drengur, slordóni, kauði, fáfróður, klikk, viðbjóðslegur, hrokafullur fáviti, fucking fucker, guðfræðifáviti, aumingi, vitleysingur og undirmálsmaður. Bjarni á bágt að vissu leyti. Hann er barnalegur, einfeldningslegur, alvarlega húmorlaus, stropaður, forhertur, hálfgerður api, gaur, drulluháleisti, andskoti, undirförull djöfull, guðsmaður, meðalgreindur mannapi, lygari, skítalabbi, karlógeð, kóni, heigull, ómenni, bjána guðfræðingur með kjánalega húfu, steiktur, klikkaður, með asperger, vanhæfur sem kennari, veruleikafirrtur, bölvaður vesalingur, kaunfúll barmabrundull, þrumukunta og þarmasugulegremburotta sem angar af tussudufti, algjörlega úti að skíta, barnaskólakennari og vanviti sem hýðir sjálfan sig sér til sársaukafullra ánægjustunda. Bjarni er ekki skarpskyggn, ekki ærlegur, fer með ósannindi, fer með rangfærslur í kennslu, fer undirförlar leiðir, er með gagntæka truflun á þroska, er skynlítill, smáborgari, tröll, þjófur, þrjótur, hylmari, mykjudreifari, óbilgjarn, óheiðarlegur og ofstækisfullur í málflutningi. Bjarni er óvandaður maður sem vílar ekki fyrir sér að beita siðlausum bolabrögðum. Bjarni er BRandari, Brandver, „fræðimaður“, Guð”fræðingur” og fjörulallastigamaður með útferðarfés Bob Sagets og Óla Skúla. Bjarni er þrautarmein Háskóla Íslands, kennsla hans er prump, hann hefur gerst sekur um fíflaskap, siðleysi, lygar og afskaplega lélega akademík, er minni fiskur en Hannes Hólmsteinn Gissurarson og hegðar sér eins og kjáni í alla staði. Bjarni er með öllu áhugalaus um samhengi hluta „heldur safnar einfaldlega saman því sem hljómar illa fyrir Vantrú“ og síðast en ekki síst er hann með „gríðarlega fordóma gegn okkur“. Bjarni hefur þó sjálfur, ólíkt félagsmönnum Vantrúar, passað „sig á að segja ekkert skemmtilegt í öllu ferli málsins“ eins og Birgir Baldursson viðurkennir og Matthías Ásgeirsson hefur játað líka. En það hefur Bjarni alltaf gert, líka árin áður en Vantrú lagði fram kærur sínar. [Bls. 172-174.]

Væri ég kona hefði ég hæglega getað verið meðal þeirra háskólastarfsmanna sem skiluðu inn frásögnum af reynslu sinni af kynferðislegri áreitni og ofbeldi í störfum sínum. Og ég hefði auðveldlega getað fjölgað þeim dæmum sem Guðni tilgreinir og þá ekki bara um mig heldur einnig um fjölda annarra, því að helstu forystumenn Vantrúar og ýmsir af dyggustu fylgismönnum þeirra hafa á liðnum árum leitast ítrekað við að smána og lítillækka ýmsa þá kynferðislega sem þeir vilja jaðarsetja á opinberum vettvangi. Inn á þetta hef ég þegar komið í greinunum „Vantrú um barnaníð‟ sem birtist hér á Hugrás: Vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands 18. febrúar 2015 og „Vantrú um hryðjuverk‟ sem birtist í Stundinni 1. september 2015. Ennfremur geri ég grein fyrir því í greininni „Brautryðjandinn Helgi Hóseasson: Áhrif mótmælanda Íslands á aðgerðarsinna í þágu guðleysis‟ sem birtist í Tímariti Máls og menningar árið 2012 hvernig vantrúarfélagar hafa markvisst nýtt sér kynferðislegt níð Helga Hóseassonar úr útgefnum kveðskap hans um þá Íslendinga sem honum var mest í nöp við og hann nafngreinir. Vantrúarfélagar hafa lýst Helga sem einni helstu fyrirmynd sinni og gerðu hann að heiðursfélaga sínum. Eins og ég rek í þessari grein minni hafði Helgi marga mannkosti og hann náði að setja mark sitt á þróun trúmála í landinu og gildir það sömuleiðis um aðdáendur hans í Vantrú en helsti ljóðurinn á málflutningi þeirra allra er eftir sem áður sú persónubundna smánun sem þeir hafa ítrekað beitt í baráttu sinni og myndbroti (iconoclasm).

Kynferðisleg smánun hefur lengi verið tæki ýmissa harðlínuhópa sem beita henni til þess að þagga niður í andstæðingum sínum eða gera lítið úr þeim. Því miður hafa umræddir vantrúarfélagar freistast til að beita þessum smánunaraðferðum í málflutningi sínum en aðferðin er samt engan veginn bundin við þá eins og sjá má þegar skoðað er hvernig rætt er um fólk í hinum ýmsu stéttum þjóðfélagsins og þá ekki síst í trúarlegum og þjóðfélagslegum minnihlutahópum, svo sem innflytjendur og hælisleitendur. Það eru jafnt konur sem karlar sem sitja undir svona smánun.

Ekki er hægt að halda því fram að það sé eitthvað skárra eða jafnvel hinn sjálfsagðasti hlutur þegar kynferðisleg smánun og lítillækkun af þessu tagi beinist að karlmanni í stað konu.

Um höfundinn
Bjarni Randver Sigurvinsson

Bjarni Randver Sigurvinsson

Bjarni Randver Sigurvinsson er guðfræðingur og trúarbragðafræðingur. Rannsóknarsvið hans eru trúarhreyfingar á Íslandi og trúarstef í kvikmyndum. Hann hefur sem stundakennari kennt fjölda námskeiða á sviði trúarbragðafræða við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ og Háskólann á Bifröst.

[fblike]

Deila