Á miðöldum voru stofnuð hér yfir tíu klaustur þótt ekki hafi þau öll starfað samtímis og sum einungis verið rekin um skamman tíma. Hingað til hefur þekking okkar á þeim verið æði takmörkuð. Jafnvel svo að enn má deila um hve mörg þau hafi í raun verið!

Mikil klausturblinda hefur ríkt í hérlendum rannsóknum um langt skeið og hefur hún valdið því að þessum merku stofnunum í sögu landsins hefur verið lítill gaumur gefinn. Eftir að kirkjusögurannsóknir leystu hreina sagnaritun af hólmi voru þær mótaðar af lútherskum og á stundum allt að því and-kaþólskum sjónarmiðum. Þá hlutu klaustrin auðvitað að lenda á blinda blettinum. Þau höfðu verið einhverjar helstu þungamiðjur kaþólsku miðaldakristninnar í landinu en höfðu orðið að víkja vegna þeirrar hörðu gagnrýni sem Lúther og aðrir evangelískir siðbótarmenn beindu að þeirri trú kaþólskra að klausturlíf væri göfugra og Guði þóknanlegra lífsform en það sem lifað var utan klausturveggja. Síðar tók annars konar blinda við. Í sagnfræðirannsóknum langt fram eftir 20. öld var kirkjan almennt ekki talin hafa gegnt veigamiklu hlutverki í sjálfu gangverki sögunnar heldur var hún talin hafa verið hluti af yfirbyggingu samfélagsins sem fremur hafi streist gegn framþróuninni en haft áhrif á hana. Við þær aðstæður voru klaustur ekki áhugavert rannsóknarefni. Klaustrin voru helst uppgötvuð og virt þegar athyglin beindist að hlutverki þeirra á sviði ritmenningar og sagnaritunar hér á miðöldum.

Þetta mótaði mjög myndina sem við höfðum af íslensku klaustrunum þegar líða tók að síðustu aldamótum. Í tengslum við kristnitökuafmælið árið 2000 var síðan stofnaður Kristnihátíðarsjóður sem starfaði í fimm ár og veitti m.a. fé til að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar. Þótt Þingvellir, Skálholt og Hólar hafi þar einkum verið nefnd til sögunnar var fé einnig veitt til rannsókna á klausturstöðunum og má þar finna hinar ytri hagrænu forsendur fyrir rannsóknum á borð við þær sem Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur hefur stundað með góðum árangri allt frá aldamótum. Þær hafa nú skilað sér í umfangsmiklum uppgreftri á klaustrinu á Skriðu sem lokið var 2012 og tveimur viðamiklum ritum, Sögunni af klaustrinu á Skriðu (Reykjavík: Sögufélag, 2012, 375 bls.) og bókinni sem hér er til umfjöllunar.

Steinunn hefur með þessu aukið þekkingu okkar á kirkjusögu þjóðarinnar en á miðöldum gegndu klaustrin eflaust mikilvægu hlutverki bæði í kirkjunni og samfélaginu hér á landi eins og annars staðar. Eflaust er hér sagt vegna þess að enn er auðvitað margt ókannað og ýmislegt sem í ljós hefur komið má auðvitað túlka á fleiri en einn veg.

Tvímælalaust má telja að rannsóknir Steinunnar hafi bylt þeirri ytri mynd sem við gerum okkur af klaustrunum. Allt þar til rústirnar á Skriðu tóku að koma í ljós var sú trú sterk að klausturbyggingar hér hafi í grundvallaratriðum mótast af ráðandi byggingarlist, byggingartækni og byggingarefni sem hér var til staðar og í stórum dráttum líkst stórbýlum. Sú spurning var svo áleitin að hve miklu leyti innra líf í klaustrunum og það starf sem þar var unnið hafi svo mótast af þessum ytri ramma og tekið á sig innlenda mynd. Nú hefur Steinunn og samstarfsfólk hennar aftur á móti sýnt að Skriðuklaustur byggðist á sömu grunnhugmund og klaustur af sömu reglu og svipaðri stærð annars staðar í álfunni. Þá sýnir uppgröfturinn á kirkjugarði klaustursins að þar hefur verið umfangsmikið líknarstarf eins og víða við klaustur erlendis.

Steinunn Kristjánsdóttir

Síðari klausturrannsókn Steinunnar sem hófst 2013 og kynnt er í Leitinni að klaustrunum hafði að markmiði að staðfesta þessa mynd og leggja grunn að sambærilegum rannsóknum á hinum klaustrunum og þá ekki síst með því að staðsetja sjálfar klausturleyfarnar heima á klausturstöðunum. Þrátt fyrir ýmsar vísbendingar, örnefni, munnmæli og staðfræðiþekkingu ábúenda getur auðvitað leikið mikill vafi á staðsetningu sjálfra rústanna af klaustrunum gagnvart nútímabyggingum, bæjarhúsum og kirkjum, á stöðunum. Markmið Steinunnar var víðtækt og metnaðarfullt. Hún lýsir því svo að það hafi framar öðru verið að leita nýrra heimilda um klaustrin í jörðu, staðsetja rústir þeirra og að leita að gripum úr þeirra eigu ofan jarðar, þ.e. í kirkjum á öðrum stöðum, í söfnum eða hvar sem verða mætti. Markmiðið breikkaði þó til muna meðan á rannsókninni stóð og má raunar segja að í bókinni sé leitast við að rekja sögu allra klaustranna. Við rannsóknina var líka stuðst við flest þau gögn og aðferðir sem fornleifafræðingum standa nú til boða til að skyggnast undir yfirborð jarðar án umfangsmikilla uppgraftra sem stundum orka tvímælis vegna þeirra óafturkræfu áhrifa sem þeir hafa. Þannig notaði leitarhópurinn ljósmyndir, loftmyndir, innrauðar myndir, hitamyndir, kort teikningar, viðnámsmælingar, segulmælingar, radarmælingar og könnunarskurði en einnig ritaðar heimildir, munnmælasagnir og drauma!

Helsti ávinningurinn af þessari nýju rannsókn er að auk klaustranna tveggja sem grafin hafa verið upp, það er að Skriðu (1493–1554) og Kirkjubæ (1186–1542), er staðsetning klaustranna að Þingeyrum (1133–1551), Reynistað (1295–1551), Munkaþverá (1155–1551), Þykkvabæ (1168–1548) og Viðey (1226–1539) nú þekkt. Hins vegar tókst aðeins að leiða líkur að staðsetningu klaustranna að Helgafelli (1184–1543) og Möðruvöllum (1296–1551). Ekki hefur hins vegar tekist að staðsetja klausturrústir í Flatey (1172–1184 en þar var fyrirrennari Helgafellsklausturs), Hítardal (1166–1201/1237) og Saurbæ í Eyjafirði (1200–1224) en á báðum stöðu voru starfrækt klaustur í skamman tíma né heldur kristniboðsstöðvarinnar í Bæ sem Steinunn telur raunar til klaustra. Þá kom í ljós að á Munkaþverá og Mörðuvöllum voru klaustrin flutt um set í kjölfar bruna og annarra skakkafalla. Þetta er þó nokkur afrakstur af rannsókninni og góður grunnur til frekari þekkingaröflunar í framtíðinni. Ástæða er til að fagna þeim merku niðurstöðum sem nú liggja fyrir á þessu vanræta sviði.

(Lengri ritdómur mun birtast í næsta hefti Ritraðar Guðfræðistofnunar sem er rafrænt tímarit með opnum aðgengi).

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila