Áhrif Lúthers í 500 ár

Rannsóknarverkefnið 2017.is og Hið íslenska bókmenntafélag hafa gefið út greinasafnið Áhrif Lúthers. Siðaskipti, samfélag og menning í 500 ár, í tilefni þess að 500 ár eru liðin síðan Marteinn Lúther hratt af stað víðtækri þróun á sviði trúar, kirkju, samfélags og menningar í norðanverðri Evrópu með því að birta mótmælagreinarnar 95.

Tuttugu fræðimenn á sviði guðfræði, sagnfræði, bókmenntafræði og málvísinda rita greinar í bókina sem varpa nýju ljósi á ýmsa fleti lútherskrar menningar á Íslandi í sögu og samtíð. Áhrif Lúthers hér á landi hafa löngum verið umdeild en allir eru sammála um að siðbreytingin marki tímamót í sögu Íslands. Í bókinni er fjallað um þessi áhrif Lúthers og hvernig þau birtast, beint og óbeint, á fjölmörgum sviðum samfélags og menningar, sum býsna síðbúin. Höfundar fjalla meðal annars um samfélagslegar breytingar, uppfræðslu og kennsluaðferðir, bókaútgáfu, sálmakveðskap, myndlist, gagnrýni á kirkjuna, kvennabaráttu og kynferðislegan margbreytileika.

Ritgerðirnar tuttugu eiga rætur að rekja til þverfræðilegs rannsóknarverkefnis um áhrif siðbótar og siðaskipta á íslenska kristni, samfélag og menningu er Guðfræðistofnun Háskóla Íslands hleypti af stokkunum af þessu tilefni.

Ritstjórar bókarinnar eru Hjalti Hugason, Loftur Guttormsson og Margrét Eggertsdóttir.

Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs, Margrét Eggertsdóttir ritstjóri, Hjalti Hugason ritstjóri og Arnfríður Guðmundsdóttir, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.

Efnisyfirlit:

Samfélag og almenningsfræðsla

  • Skyldur lúthersks yfirvalds. Páll Stígsson og siðbótin á Íslandi. Hjalti Hugason kirkjusagnfræðingur.
  • Konungsbréfið 1635 um kverfræðslu og húsvitjanir. Bakgrunnur og áhrif. Loftur Guttormssonar sagnfræðingur.
  • Arithmetica — það er reikningslist. Rætur í menningu mótmælenda. Kristín Bjarnadóttir stærðfræðingur.

Þýðingar og útgáfa

  • Horft til horfinnar bókar. Um „Fjóra guðspjallamenn“. Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur.
  • Breytingar Guðbrands biskups á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. Hverjar voru fyrirmyndirnar? Guðrún Kvaran málfræðingur.
  • „Frómum og guðhræddum, leikum og lærðum“. Um Guðbrand biskup Þorláksson og þýðingar hans. Margrét Eggertsdóttir bókmenntafræðingur.
  • Sálmar Lúthers í íslenskum messusöng. Einar Sigurbjörnsson trúfræðingur.

Kirkjubyggingar og búnaður

  • Þættir úr sögu innanbúnaðar íslenskra kirkna á fyrstu öldum eftir siðaskipti. Guðrún Harðardóttir sagnfræðingur.
  • Málverksmyndir, skurðgoð og líkneskjur. Um myndskilning siðbótarmanna og áhrif hans hér á landi í sögulegu ljósi. Gunnar Kristjánsson guðfræðingur.
  • Voru helgimyndir eyðilagðar á Íslandi? Athugun á varðveislu dýrlingamynda fyrsta áratuginn eftir siðaskipti. Margaret Cormack miðaldafræðingur.

Hugarfar og menning

  • Kraftaverk og furður eftir siðaskipti. Ásdís Egilsdóttir bókmenntafræðingur.
  • „Gegnum Jesú helgast hjarta í himininn upp ég líta má.“ Lesið í líkamsmyndir Passíusálma. Sveinn Yngvi Egilsson bókmenntafræðingur.
  • Að lifa guðlega og deyja kristilega. Um píslarvætti Jóns Þorsteinssonar í Vestmannaeyjum. Þorsteins Helgasonar sagnfræðingur.

Konur og kristni

  • „Dyggðafull kona er ein eðla gáfa“. Menningarleg mótun kyngervis á 17. öld. Þórunn Sigurðardóttir bókmenntafræðingur.
  • „Andvarp syrgjandi ekkju“. Dauðinn, sorgin og trúin í bréfum Sigríðar Pálsdóttur. Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur.
  • Sr. Ólafur Ólafsson fríkirkjuprestur og kvenréttindabaráttan um aldamótin 1900. Aðdragandi laga um rétt kvenna til embættisnáms, styrkja og embætta. Arnfríður Guðmundsdóttir trúfræðingur.
  • „Haf þinn guð í stafni“. Kristileg orðræða og andóf í skrifum og ljóðum kvenréttindakvenna. Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur.

Guðfræði í sögu og samtíð

  • Blessun Arons. Uppruni, notkun og áhrif. Sigurjón Árni Eyjólfsson trúfræðingur.
  • Var Magnús Eiríksson siðbótarmaður? Nokkur atriði í gagnrýni hans á þróun kristindómsins. Ævar Kjartansson guðfræðingur.
  • Að umfaðma hið óvenjulega. Lúthersk sýn á kynferðislegan margbreytileika og mannréttindi. Sólveig Anna Bóasdóttir siðfræðingur.
Um höfundinn
Guðmundur Hörður Guðmundsson

Guðmundur Hörður Guðmundsson

Guðmundur Hörður Guðmundsson er kynningar- og vefstjóri Hugvísindasviðs HÍ. Sjá nánar

[fblike]

Deila