RIFF 2017

Í Kvikmyndafræði, Umfjöllun höf. Guðrún Elsa Bragadóttir

RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, var haldin í fjórtánda sinn 28. september til 8. október síðastliðinn. Á hátíðinni voru sýndar yfir hundrað myndir í fullri lengd, tugir stuttmynda og yfir tíu sérviðburðir, þar á meðal var meistaraspjall við heiðursverðlaunahafa RIFF, leikstjórana Werner Herzog og Olivier Assayas. Til að auðvelda áhorfendum valið, er kvikmyndum hátíðarinnar skipt upp í flokka á borð við „Fyrir opnu hafi“ sem inniheldur, samkvæmt vefsíðu RIFF, meistarastykki sem hafa þyrlað „upp ryki hér og þar um heiminn“, „Sjónarrönd“ sem er flokkur mynda frá því þjóðlandi sem RIFF beinir sviðsljósinu á hvert ár—í ár var Finnland á sjónarröndinni—og flokkar íslenskra og alþjóðlegra stuttmynda.

Kvenleikstjórar verðlaunaðir

RIFF veitir einnig verðlaun í fimm ólíkum flokkum og er óhætt að segja að 2017 hafi verið gott ár fyrir kvenleikstjóra á hátíðinni, sem hrepptu verðlaun í fjórum af fimm flokkum.

Chloé Zhao, kínverskur leikstjóri sem starfar í Bandaríkjunum, hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann, fyrir Kúrekann eða The Rider. Kúrekinn sigraði í keppnisflokknum „Vitranir“, en þar keppa myndir sem eiga það sameiginlegt að vera fyrsta eða annað verk tiltekins leikstjóra og tjá jafnframt nýstárlega, jafnvel byltingarkennda sýn í kvikmyndagerð. Myndin, sem fjallar um mann sem verður að hætta að keppa í kúrekasýningum og finna lífi sínu nýjan tilgang eftir að hann lendir í slysi, hefur hlotið góðar viðtökur víða um heim og fékk listbíósverðlaun á Cannes á þessu ári.

Stórmerkileg heimildarmynd, Hrifsið og flýið eftir spænska leikstjórann Roser Corella, sigraði í flokknum „Önnur framtíð“, en flokkurinn var í ár skipaður ellefu mikilvægum heimildarmyndum um mannréttinda- og umhverfismál. Hrifsið og flýið fjallar um þann gamla sið, sem tekinn var upp í enn meiri mæli eftir að Kirgistan fékk sjálfstæði árið 1991 og er enn afar útbreiddur þrátt fyrir að hann sé nú lögum samkvæmt glæpur, að karlmenn þar í landi ræni sér konu og geri að eiginkonu sinni.

Brexitannia eftir Timothy George Kelly er meðal þeirra mynda sem einnig hlutu viðurkenningu dómnefndarinnar, en lesa má umfjöllun Engra stjarna um myndina hér á Hugrás.

Sigurmynd flokks íslenskra stuttmynda er Atelier eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur, en myndinni hefur verið lýst sem „sláandi fallegri rannsókn á þörf manneskjunnar fyrir einveru“. Dómnefnd RIFF komst að þeirri niðurstöðu að myndin hefði „sterk höfundareinkenni og [fangaði] áhorfendur inn í sinn heim.“

Copa Loca, eftir gríska leikstjórann Christos Massalas var valin besta erlenda stuttmyndin, en myndin, sem dómnefnd þótti bæði fersk og margræð í merkingarsköpun sinni, fjallar um stúlkuna Paulinu og vindur fram á yfirgefnum grískum sumarleyfisstað.

Loks hlaut myndin Þraukaðu eða Hold On eftir skoska leikstjórann Charlotte Scott-Wilson verðlaunin Gullna eggið, en þau verðlaun koma í hlut bestu stuttmyndarinnar sem tekur þátt í Kvikmyndasmiðju RIFF. Myndin hlaut líka verðlaun á Tribeca-kvikmyndahátíðinn á síðasta ári. Hægt er að nálgast hana í fullri lengd hér

Hátíðarhápunktar

Eins og komið hefur fram, voru um tvö hundruð myndir sýndar á RIFF í ár, auk sérviðburða, og því var í raun varla hægt annað en rétt svo að gára í yfirborðið. Í ár stóðu nokkrar upp úr að mati undirritaðrar en þar ber fyrst að nefna Grab and Run, heimildarmyndina vann verðlaun í sínum flokki og minnst var á hér á undan. Það er stórmerkilegt að Corella hafi tekist að miðla þessari óhugnanlegu hefð af jafnmikilli yfirvegun og raun ber vitni, en hún tók það fram í spjalli eftir myndina að skiptar skoðanir séu um brúðarránin meðal bæði karla og kvenna í Kirgistan og að hún hafi viljað sýna sem margbrotnasta mynd af samfélaginu. Afstöðu leikstjóra er hins vegar að einhverju leyti miðlað í lok myndar, en myndin endar á raunverulegri upptöku sem tekin var af þátttakanda í einu slíku ráni, „í gamni“ að vísu, en það gerir hana engu auðveldari fyrir áhorfendur. Myndbandið, sem sýnir unga konu grátandi, ítrekað reyna að komast burt og sárbiðja um að vera látin í friði, tekur af allan vafa um það hversu grimmdarleg athöfnin er.

Meðal uppáhaldsviðburðanna á RIFF þetta árið var meistaraspjall við franska leikstjórann og handritshöfundinn Olivier Assayas, sem var sérstakur gestur hátíðarinnar í ár. Þrjár mynda hans voru sýndar, Disorder (1986), Irma Vep (1996) og Clouds of Sils Maria (2014), en þeirra að auki er Assayas helst þekktur fyrir að hafa skrifað og leikstýrt myndunum Demonlover (2002), Paris, je t’aime (2006) og, nú síðast, Personal Shopper (2016), sem hann fékk leikstjóraverðlaun fyrir á Cannes í fyrra. Assayas tókst að koma skemmtilega á óvart í meistaraspjallinu og raunar líka í spurt og svarað spjalli eftir sýningu á Irmu Vep síðar sama dag. Hann er málglaður mjög en að sama skapi fróður maður og með skýra listræna sýn sem leikstjóri, sýn sem hann talaði um að hefði mótast mjög á meðan hann skrifaði fyrir franska kvikmyndaritið Cahiers du Cinema á 9. áratugnum. Nefndi hann m.a. að hann saknaði kvikmyndakenninga, þ.e. yfirgripsmikillla og metnaðarfullra skrifa um kvikmyndir á teórískum nótum, en nokkuð hefur dregið úr slíkum skrifum innan kvikmyndafræðanna á nýju árþúsundi.

Irma Vep reyndist svo vera besta „gamla“ myndin sem ég sá á hátíðinni í ár. Í raun þótti mér ótrúlegt að ég hefði ekki séð hana áður. Myndin fjallar um tilraun fransks leikstjóra til að endurgera þögla meistaraverkið Les vampires (1915-1916) með leikkonunni Maggie Cheung í aðalhlutverki, en hún leikur sjálfa sig í myndinni. Irma Vep er uppfull af lífi og spennandi hugmyndum; sögunni vindur fram í kaótísku umhverfi kvikmyndaiðnaðarins, sem áhorfendur nálgast að miklu leyti með augum aðkomumanneskjunnar Maggie sem týnist næstum í hringiðu tökuumhverfisins undir óstjórn hins hviklynda og óskipulagða leikstjóra. Kvikmyndir eru öðrum þræði efni myndarinnar, sem setur fram ólíkar kenningar um tilgang og eðli miðilsins—um kvikmyndina sem tækni og kvikmyndina sem afsprengi þrár—og endurspeglar þannig umhverfið sem hún sprettur úr, að sögn Assayas, sem benti á það eftir myndina að hún hafi orðið til á tíma þar sem engin samræmd kenning hafi verið ríkjandi um það hvað kvikmyndir væru eða ættu að vera.

Meðal leikinna mynda stóð Tom of Finland eftir finnska leikstjórann Dome Karukoski upp úr. Myndin fjallar um lífshlaup finnska listamannsins Touko Valio Laaksonen, sem er þekktastur fyrir erótískar teikningar af vöðvastæltum og oft einkennisklæddum karlmönnum sem hann sendi frá sér undir listamannsnafninu Tom of Finland. Nokkrar þessara mynda voru til sýnis í Háskólabíó á meðan á kvikmyndahátíðinni stóð, gestum og gangandi eflaust til ánægju, enda verður ekki annað sagt en að þær séu virkilega vel gerðar.

Tom of Finland er áferðarfalleg og að mörgu leyti metnaðarfull mynd, en hún hefst á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar, þar sem Laaksonen berst fyrir finnska herinn og fellur fyrir karlmönnum í einkennisbúningum en lýkur rúmum 40 árum síðar í Californiu þar sem HIV-veiran herjar á samfélagið og Laaksonen berst gegn fordómum og hvetur til smokkanotkunar með list sinni. Það er því ekki hjá því komist að hratt sé farið yfir sögu, en efniviðurinn er stórmerkilegur og forvitnilegri mynd er brugðið upp af samfélagi vanþekkingar og ofbeldis í garð samkynhneigðra.

Það kom því á óvart þegar aðalleikari myndarinnar, Pekka Strang, tjáði þá upplifun sína í spurt og svarað að myndin fjallaði einfaldlega um mann sem á erfitt uppdráttar innan samfélagsins og sagðist ekki hafa nálgast hlutverkið og handritið með samkynhneigð í huga. Það var jafnvel enn óvæntara að svipaðan tón skyldi kveða við í spurt og svarað með breska leikstjóranum Francis Lee eftir sýningu Gods Own Country, þar sem hann ræddi þá skoðun sína að myndin fjallaði fyrst og fremst um hversu erfitt það er að opna sig og leyfa sér fyllilega að elska aðra manneskju. Það sem greinir þó ekki síst milli þessara svara er að Strang virðist ekki hafa hugleitt mikilvægi reynsluheims samkynhneigðra fyrir myndina áður, að minnsta kosti ekki að neinu ráði, en Lee hefur brugðist við spurningum um samkynhneigð í myndinni ótal sinnum í viðtölum, oft í sömu andrá og myndin er borin saman við Brokeback Mountain. Hann tók það líka fram að samfélagið sem myndin gerist í, en hér er um samtímasögu að ræða, sé ekki fjandsamlegt samkynhneigð og það því sé tregða aðalpersónu til að horfast í augu við tilfinningar sínar fyrst og fremst persónubundin og sammannleg.

Gods Own Country fjallar um ungan bónda í Yorkshire í Norður-Englandi, sem fellur fyrir rúmenskum farandverkamanni sem kemur á bæinn til að hjálpa við sauðburð. Myndin er oft gullfalleg, bæði á að líta og að innihaldi, en áhersla virðist vera lögð að miðla sögunni sjónrænt frekar en með orðum. Leikstjórinn hafði orð á því eftir myndina að það ætti ekki að skemma fyrir þótt sumum áhorfenda þætti erfitt að skilja það sem persónur myndarinnar segja, en þær tala með sérlega þykkum norður-enskum hreimi. Þessi áhersla á hinn myndheiminn var afskaplega vel til þess fallin að segja sögu ungs manns sem á erfitt með að færa eigin tilfinningar í orð. Sveitaró, krúttleg lömb, laumulegar augngotur og feimnisleg snerting varð að áhrifamikilli andstæðu ofsans sem gat brotist gjarnan fram hjá aðalpersónu þegar hann drakk frá sér vit og rænu í tilraun til að flýja flóknar tilfinningar.

Að lokum langar mig að minnast á mynd sem á síður en svo í vandræðum með það að sýna og ræða tilfinningar og verður að teljast allra besta myndin sem ég sá á hátíðinni, Visages Villages, nýjustu mynd mikilvægustu kvikmyndagerðarmanneskju samtímans, Agnèsar Varda. Hún gerir myndina með franska ljósmyndaranum JR og hugmyndin er einföld: þau keyra um Frakkland, heimsækja staði og taka myndir af íbúunum, sem þau framkalla og líma á mannvirki. Hér er hlýja og áhugi á fólki allsráðandi. Myndin er ljóðræn en alveg laus við tilgerð, Varda hlustar af athygli á þá sem hún hittir og taka þátt í verkefninu, og henni tekst í hvert skipti að fanga eitthvað sérstakt í viðmælandanum. Sambandið milli hennar og JR er svo ekki síður hrífandi, þar er augljós virðing og væntumþykja á milli þótt samtölin séu gjarnan úthugsuð og stílfærð.

Mig langar að enda þetta yfirlit á lokaorðum dóms um myndina sem birtist hér á Hugrás fyrir nokkrum dögum:

„Agnès Varda minnir mann á að njóta þess að hittast, hlusta á hvort annað og tala saman. Að sjá fegurð hvert sem þú horfir og leyfa sér að staldra við um stund. Sætta sig við það sem maður hefur og vera sáttur í eigin skinni. Myndin er umfram allt einlæg og skilaboðin eru skýr. Komum til dyranna eins og við erum klædd og munum að hver manneskja er sérstök. Fögnum fortíðinni og látum hana ekki íþyngja okkur heldur fögnum lífinu og því sem það hefur upp á að bjóða.“

Um höfundinn
Guðrún Elsa Bragadóttir

Guðrún Elsa Bragadóttir

Doktorsnemi í bókmenntafræði við SUNY at Buffalo.

[fblike]

Deila