Smán eftir Ayad Akhtar

Amerísk-pakistanska leikskáldið Ayad Akhtar sló í gegn með leikritinu Smán (Disgraced) árið 2012 í Bandaríkjunum og fékk Pulitzer verðlaunin fyrir það sama ár. Þorsteinn Bachmann leikstýrir verkinu.

Aðalpersónur eru metnaðargjarn lögfræðingur Amir (Jónmundur Grétarsson) sem hefur náð langt í fyrirtækinu þar sem hann vinnur enda afneitar hann Islam, sem honum finnst ömurleg trúarbrögð, og hefur þagað yfir því að hann hafi skipt um nafn og sé fæddur í Pakistan. Hann er giftur fallegri, hvítri listakonu, Emely (Salóme R. Gunnarsdóttir) gengur í 600 dollara skyrtum og er verulega aðlagaður Bandaríkjunum en það breytir því ekki að hann er „nýlendubúi“ og getur ekki orðið eins og „nýlenduherrarnir“ – hann er „almost the same – but not quite“ eins og Homi Bahba segir um þann litla mun sem skilur hinn vel aðlagaða nýlendubúa frá húsbóndanum. Honum er ekki treyst, hann „er tvöfaldur í roðinu“ eins og yfirmaður hans segir um hann. Abe, frændi hans (Hafsteinn Vilhelmsson) er hins vegar sannfærður múslimi og reiðin kraumar í honum – en hlutverkið er svolítið bláþráðótt, forsendur hans óljósari en hinna.

Við fáum að sitja í kvöldverðarboði þeirra hjóna fyrir vinahjónin, Ísak (Magnús Jónsson) sem er gyðingur og sýningarstjóri sem er ástfanginn í Emely, og blökkukonuna og lögfræðinginn Jory (Tinna Björt Guðjónsdóttir) sem vinnur með Amir og hefur ekki sagt honum að hún sé að taka við af yfirmanni hans. Allir eru hræddir, með vonda samvisku og bælda heift í huga og þetta verður ekki farsælt matarboð! Kynþáttahatrið, tortryggnin og fordómarnir liggja og bíða eins og forrit sem fólk getur virkjað af minnsta tilefni.

Leikritið er innihaldsríkt, haglega fléttað, pólitískt sterkt og vel leikið af dásamlega alþjóðlegum íslenskum leikhóp. Gaman að nýtt leikár skuli byrja svo vel.

(Nánari upplýsingar um sýninguna á leikhusid.is).

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila