Sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér!

Í Kvikmyndir, Rýni höf. Júlía Helgadóttir

Júlía Helgadóttir fór í Sambíóin Álfabakka að sjá Guardians of the Galaxy vol. 2. Hún gaf engar stjörnur.

Guardians of the Galaxy Vol. 2 (James Gunn, 2017) er framhald samnefndrar myndar – án tölfræðikennimerkisins – frá árinu 2014 og flokkast báðar sem svokallaðir geimvestrar (e. space western). Sögupersónuteymið er ljær myndunum nafn sitt birtist fyrst á síðum myndasögublaða árið 1969 en fékk sjálfstætt (teiknimyndasögu)líf árið 1992. Sú sæla varð þó ekki langlíf en útgáfu var hætt árið 1995 og hafa eingöngu verið gefnar út tveir sagnabálkar í viðbót, annars vegar árið 2008 og hins vegar 2014. James Gunn, sem bæði skrifaði og leikstýrði Guradians of the Galaxy 1 og 2, er á hinn bóginn ekki af baki dottinn og hefur þegar staðfest gerð þriðju myndarinnar. Miðað við kraftinn í mynd númer tvö gæti framhaldsröð þessi vel átt innistæðu fyrir framhaldi.

Hin fimm fræknu er saman mynda Vetrarbrautavarnarliðið; Peter Quill (Chris Pratt), Gamora (Zoe Saldana), Drax the Destroyer (Dave Bautista), Rocket Racoon (Bradley Cooper) og Groot (Vin Diesel) eru hér mætt aftur og búa að frækilegum afrekum fyrri myndarinnar, þar sem þau björguðu vetrarbrautinni frá yfirvofandi gereyðingu. Þau hafa hlotið opinberar þakkir og viðurkenningu, umbreyst í almannavitund úr úrhrökum í hetjur, og hafa jafnframt, á yfirborðinu að minnsta kosti, yfirstigið glæfra– og glæpalíf á glapstigu.

Í ljós kemur að hópurinn tekur nú að sér háskaleg verkefni gegn greiðslu, nokkuð sem afhjúpast í upphafsatriði framhaldsmyndarinnar þar sem teymið berst við ægilegt geimskrímsli sem best mætti lýsa sem ímynduðu afkvæmi hákarls og smokkfisks. Það var í það minnsta ekki fallegt. Þar sem bardaginn hefst færist myndavélin á Groot litla sem dansar um stríðssvæðið undir dillandi hljómi „Mr. Blue Sky“ með hljómsveitinni Electric Lights Orchestra sem telst vel til fundin til að undirstrika hið barnslega kæruleysi sem fylgir þessi ungviði, honum Groot litla. Má vera að strákssprekið sé eina söguhetjan í teyminu sem þarf að kynna fyrir áhorfendum, en Groot-afleggjarinn birtist ekki fyrr en í blálok fyrri myndarinnar.

Aðrar söguhetjur eru lítið breyttar; Gamora er alvarleg og fálát (og græn), Drax er alveg óttasnauður, eins konar geimtröll sem segir og gerir nákvæmlega það sem hann vill. Peter er tónelskur töffari með húmor og Rocket heldur öllum í viðráðanlegri fjarlægð með særandi athugasemdum til að fela brotna sjálfsmynd sína. Nebula (Karen Gillan) systir Gamoru slæst í hópinn gegn vilja sínum og mynda systraerjur þeirra skemmtilega hliðarsögu í gegnum myndina.

Söguþráðurinn fléttast um tvö aðalatriði: Peter kynnist loksins föður sínum, Ego (Kurt Russell) á sama tíma og fimmmenningarnir flýja undan Æðsta kynþætti (e. the Sovereign race) sem Rocket gerðist svo djarfur að stela mikilvægum ofurbatteríum frá en kynþáttur þessi er þekktur fyrir að vera eingöngu með eina refsistefnu; dauða. Hvað útlit varðar líkist Æðsti kynþátturinn gullslegnum Paris Hilton eftirhermum, og úrættaðir snobbtaktarnir sem einkenna þessa geimverutegund eru jafnframt líkt og paródía á hegðun dekurdýra hins nýja ímyndasamfélags. Líf meðlima kynþáttarins æðsta eru jafnframt of dýrmæt til að þau séu sett í hættu í hefðbundnum stríðsrekstri (þess vegna voru Vetrarbrautarverðirnir ráðnir til vinnu í upphafi myndar) og heyir hann því jafnframt stríð í gegnum fjarstýrð geimskip, en atriðin sem sýna þetta vísa meðvitað í tölvuleiki ásamt því að gefa í skyn ákveðna firringu. Fjarstýrðu geimskipin eru táknræn fyrir sýndarmennskuna og fjarlægð frá raunverulegri eymd sem einkennir daglegt líf Vesturlandabúa í dag. Ekkert raunverulegt innihald er að baki þessa kynþáttar. Þeir eru lítið annað en gullinhúðaðir snúðar sem treysta sér ekki til að takast á við veröldina nema í gegnum skjá.

Myndin hverfist að miklu leyti um fjölskyldutengd gildi og hvernig böndin innan tiltekins hóps geta orðið svo þétt að um fjölskylduígildi er að ræða. Gegnir þar sagan af endurfundum Peters við föður sinn, Ego, lykilhlutverki. Eins og nafn föðurins gefur sterklega til kynna er ekki allt sem sýnist hvað hlýleika hans varðar og löngun hans til að rækta föðurhlutverkið, þótt seint sé. Án þess að of mikið sé gefið upp um söguþráð myndarinnar er óhætt að segja að andstæðupari sé stillt upp milli sjálfhverfu – óhefts egós sem reynist hálfgerð alheimsæta – og samheldni og náungakærleik. Má í því ljósi sjá myndina sem ákveðna upphafningu á hefðbundnum fjölskyldugildum, þótt í nýjum (geim)búningi sé, ef svo má að orði komast. Hvort sem um er að ræða blóðskylda ættingja eða þéttan vinahóp þá er það að bera hag náungans fyrir brjósti og sýna honum samstöðu og kærleika, samkvæmt myndinni, ofar öllu öðru og grundvöllur afkomu mannsins. Sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér!

Um höfundinn
Júlía Helgadóttir

Júlía Helgadóttir

Júlía Helgadóttir er nemandi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

Deila


Yfirþyrmandi náttúrukraftur smásagna Rómönsku-Ameríku

17. október, 2017Út er komið annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins sem hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges og Gabriel García Márquez. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006. Aðalritstjóri þessa bindis, Kristín Guðrún Jónsdóttir, segir langflestar sögurnar vera þýddar úr spænsku, en einnig séu sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku. Sögurnar eru allar þýddar úr frummálinu og ...

„Vér hverfum frá oss sjálfum“

16. október, 2017Franska leikritaskáldið Florian Zeller hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verkið Föðurinn, meðal annars Moliere verðlaun árið 2014. Verðskuldað er það. Þetta er ákaflega vel skrifað og sterkt leikrit en það er þannig gert að það leiðir áhorfandann stig af stigi inn i hugarheim föðurins, André, (Eggert Þorleifsson). Sá hugarheimur er framandlegur og kemur okkur á óvart, það tekur smátíma fyrir áhorfandann að ná áttum. Ég ætla því að vara ykkur við og segja: ef þið ætlið að sjá þessa sýningu Þjóðleikhússins ættuð þið ekki að lesa lengra núna – lesið þegar þið eruð búin að sjá sýninguna! Má ég spyrja: ...

Leikstjóraspjall við Baltasar Kormák

13. október, 2017Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði, fjallar um Leikstjóraspjall Baltasar Kormáks, en hann svaraði spurningum um eigin feril og kvikmyndir, íslenska kvikmyndamenningu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.