Orðræða líkamans

Viðtal við Sif Ríkharðsdóttur, dósent í almennri bókmenntafræði

Næstkomandi haust býðst nemendum á BA-stigi, í almennri bókmenntafræði og kynjafræði, spennandi námskeið sem fjallar um orðræðu líkamans. Kennari námskeiðsins er Sif Ríkharðsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði en sérsvið hennar er m.a. miðaldabókmenntir og kynjafræði. Ég bað Sif að segja okkur nánar frá námskeiðinu, hvert umfjöllunarefnið er og hvernig efnið verður nálgast fræðilega. Einnig segir hún okkur frá því hvernig framsetning á líkamanum hefur breyst og hvort líkaminn sé hættur að vera spennandi bókmenntafræðilega séð.

Hvert er umfjöllunarefni námskeiðsins?

Námskeiðið fæst við líkamann sem bókmenntafræðilegt fyrirbæri sem og bókmenntir sem líkamlegt fyrirbæri. Námskeiðsheitinu, Orðræða líkamans, er ætlað að ná utan um þessa nálgun. Annars vegar erum við að skoða orðræðu um líkamann, þ.e. hvernig er fjallað um líkamann, hvernig kemur hann fyrir í bókmenntum, hvaða hlutverki gegnir hann innan verksins og hvernig er tekist á við líkamann sem fyrirbæri innan bókmennta. Hins vegar erum við einnig að fást við orðræðu líkamans, þ.e. hvernig líkaminn miðlar upplýsingum og hvernig þær birtast, bæði í bókmenntum og kvikmyndum. Að lokum tökumst við á við bókmenntir sem efnislegar afurðir, þ.e. hvernig höfundar og lesendur leika sér að þessum mörkum veruleikans (efnisleikans) og hins ímyndaða og hvernig líkaminn spilar inn í það.

Ef við hugsum til að mynda um miðaldabókmenntir (en það er sem sagt mitt sérsvið) þá eru þær upphaflega ritaðar á skinn. Þær eru því efnislegar í líkamlegum skilningi orðsins. Fornbókmenntirnar okkar (hugmyndir, viðhorf og menning) hafa því varðveist sem blek á skinnhandritum. Þannig má draga ákveðin líkindi þar við húðflúr þar sem texti eða ímyndir eru ritaðar í skinnið sjálft og verða því að orðræðu líkamans. Við lesum okkur því í gegnum alls kyns texta og horfum á myndir þar sem þessi mörk eru annað hvort til umræðu eða gerð að ádeilu eða þar sem við getum notað textana til að kanna betur hugmyndaheim og skilning mismunandi menningarhópa og þjóðfélaga á líkama, orðræðu sem tengist honum og því hlutverki sem líkaminn gegnir, hvort heldur sem tákn eða sem efnislegt fyrirbæri.

Hvaða lesefni verður í námskeiðinu?

Við lesum mjög margbreytilegt efni, bæði bókmenntatexta sem og fræðilega texta sem tengjast efni námskeiðsins. Markmiðið er að nálgast efnið á sem fjölbreytilegastan eða margbreytilegastan hátt sem fær okkur aftur til þess að endurskoða, íhuga eða velta vöngum yfir því sem við höfum kannski alla jafna tekið sem gefnu. Það er ekkert ánægjulegra í kennslu en að verða vitni að því þegar nemendur sjá allt í einu eitthvað frá allt öðru sjónarhorni en þeir hafa áður gert sem breytir því mögulega hvernig við hugsum um okkur sjálf, umhverfið okkar og samskipti okkar við aðra.

Við lesum allt mögulegt, frá fræðigreinum um kynlíf á miðöldum og hugmyndir miðaldamanna um kynferði og kyngervi yfir í fræðilegt efni um hvernig var tekið á hinum veika líkama á nítjándu öld, þar á meðal heilsu Charles Darwin og þau áhrif sem líkamlegt ástand hans hafði á skrif hans um þróunarkenninguna. Við tökum einnig fyrir hugmyndir um vald og hvernig það tengist líkamanum sem og efni um líkamann sem yfirborð sem ætlað er til áletrunar.

Hvernig er umfjöllunarefni námskeiðs ákveðið? Tengist það yfirstandandi rannsóknum?

Efnið tengist nú ekki endilega neinu sérstöku rannsóknarverkefni en endurspeglar að sjálfsögðu hugðarefni mín að einhverju leyti, meðal annars hvernig bókmenntir eru lýsandi fyrir og í einhverjum tilfellum breyta jafnvel hegðun og hugmyndum manna í menningarsamfélögum. Ég hef einnig mikinn áhuga á stöðu kvenna og samspili kynja í bókmenntum, valdatogstreitu, samspili líkamleika/efnisleika og óefnisleika, bókamenningu o.s.frv.

Ég held ég leitist jafnan við að kenna námskeið sem ég hefði gjarnan viljað sitja sjálf þegar ég var í námi. Mér fannst alltaf þau námskeið sem tókust á við efni sem spannaði marga menningarheima eða mismunandi tímabil mjög spennandi. Þegar við þurfum að taka okkur stöðu með sögumönnum eða sögupersónum sem tilheyra mjög ólíkum menningarheimum og leitast við að skilja og setja þau í samhengi er afleiðingin oft sú að við áttum okkur betur á þeim sjónarhornum og sjónarmiðum sem við tökum einfaldlega sem gefnum.

Varðandi námskeiðaval og hönnun námskeiða þá reynum við kennararnir að sjálfsögðu líka að setja saman námskeið sem við teljum að séu gagnleg fyrir nemendur okkar og áhugaverð og mikilvæg til að þau öðlist sem víðastan og breiðastan þekkingargrunn í bókmenntafræði.

Er meira hispursleysi í barnabókmenntum þegar kemur að líkamanum t.d. í bókinni Allir eru með rass sem kom nýverið út? Er hætt að tala um líkamann “undir rós” eða með skáldlegu ívafi?

Væntanlega þar sem við þurfum jú að kenna börnunum okkar um líkamann og þarfir og gjörðir hans. Fyrir þau er líkaminn að sjálfsögðu eins og heill heimur af ókönnuðu landsvæði sem gegnir alls konar hlutverkum sem þau þurfa smám saman að læra (svo við nefnum nú bara það að læra að fara á kopp til að mynda). Þetta hlutverk líkamans tekur svo að sjálfsögðu stöðugum breytingum eftir því sem við þroskumst og eldumst.

Í ljósi þess að það þarf ekki meira en að sjá glitta í kvennmannsökkla til að karlmaður falli nánast í yfirlið í einni af sögunni sem við lesum má sannarlega segja að það hvernig við tölum um líkamann og ekki síður hvernig við upplifum líkamann er mjög menningarbundið. Söguleg framsetning á líkama er því mjög breytileg en það er nú einmitt eitt af því sem við erum að skoða í námskeiðinu.

Hvernig hefur framsetning á líkamanum breyst? Vitum við e.t.v. of mikið um líkamann nú á dögum, er hann hættur að vera „spennandi” umfjöllunarefni eða er gróteskan í fyrirrúmi núna sbr. lýsingar á mannslíkum í vinsælum glæpasögum?

Ef við tökum ökkladæmið hér á undan þá er það augljóst að aðgengi að líkama hefur að sjálfsögðu mikið að segja, þ.e.a.s. er hann dularfullt forboðið landsvæði eða fyrir augum allra? Þetta er auðvitað mjög breytilegt og hefur að sjálfsögðu verið mikið í umræðunni undanfarið. Hins vegar er það nú ekki svo að það hafi ekki verið rætt opinskátt og á gróteskan hátt um líkamann á fyrri öldum. Það eru til fjöldinn allur af textum frá miðöldum sem eru mjög beinskeyttir og svo sannarlega ekki undir rós og einnig má nefna þekkt dæmi eins og François Rabelais eða Marquis de Sade sem væntanlega myndi fá hörðustu nútímalesendur til að blikna.

Hér er á ferðinni einstakt tækifæri til að sitja forvitnilegt námskeið sem á sannarlega erindi til allra nemenda sem leggja stund á bókmenntafræði og/eða kynjafræði. Ég þakka Sif kærlega fyrir að taka sér tíma til að svara þessum spurningum. Sérfræðiþekking hennar og kennsluhættir stuðla að skemmtilegu og lærdómsríku námi.

Hér er hægt að lesa nánar um námskeiðið í kennsluskrá.

Um höfundinn

Eyrún Lóa Eiríksdóttir

Meistaranemi í almennri bókmenntafræði og hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

[fblike]

Deila