„að predika dýraverndun fyrir soltnum hýenum“

Í Bókmenntir, Pistlar, Umfjöllun höf. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir

„Flettu upp í nitjándu aldar bókum, tuttugasta öldin hefur gleymt svo mörgu “, sagði Jakob Benediktsson við mig fyrir þrjátíu árum þegar ég leitaði ráða hjá honum af því að ég hafði einsett mér að fá botn í örfá orð í Sturlungu sem aldrei höfðu verið skýrð. Jakob reyndist hafa nokkuð til síns máls; ég fann sumt af því sem mig vantaði í 19. aldar handbókum, ekkert í 20. aldar. Mér varð hins vegar aftur hugsað til orða hans þegar ég fór á síðasta ári einu sinni sem oftar að velta vöngum yfir lífsspeki Þórbergs Þórðarsonar, ekki síst þeim þætti sem skáldið kallaði sjálfur „dulræn vísindi“. Þá þurfti ég að horfast í augu við hversu margt af því sem kallaðist sennilega „almenn þekking“ meðal fróðleiksþyrstra manna á fyrstu áratugum 20. aldar – þar á meðal hugmyndir þekktra vísindamanna – orkar nú beinlínis framandi og krefst langra skýringa og útlistana.

Í greininni beini ég sjónum að uppreisn Þórbergs Þórðarsonar gegn viðteknum hugmyndum og valdinu sem í þeim felst. Ég leitast við að sýna fram á að séu verk hans skoðuð með hliðsjón af gnósis, þ.e. þekkingu sem menn afla sér með innri reynslu eða dulrænum hætti, blasi þau við í öðru samhengi og öðru ljósi en fyrr. Fyrst ræði ég í stuttu máli um afstöðu skáldsins til þekkingaröflunar og uppreisn hans gegn ríkjandi samfélagsgerð og tengi hvorttveggja hræringum í vestrænni menningu um aldamótin 1900. Þá vík ég að persónulýsingum hans og skilningi hans á persónuleikanum en ber aðferðir hans þó ekki síst að aðferðum leikstjórans Konstantíns Stanislavskíj og ræði um hvað þessir tveir sóttu til jóga og sálfræði. Menningarsamhengið, sem ég reyni þannig að draga upp, víkka ég svo með því að taka tvö dæmi úr Bréfi til Láru af lýsingum Þórbergs á sjálfum sér og tengi þau ekki síst guðspeki. Ég styð rökum hvernig ég hygg að hún marki lýsingarnar en drep þá t.d. líka á þjóðlegan fróðleik, sálfræði og jóga. Í lokakafla tek ég saman örfá meginatriði.

Þar eð svo margt hefur gleymst í upplýsingaflæði síðustu áratuga reyni ég oftar en einu sinni í greininni að benda á efni sem vert væri að kanna; velta upp spurningum sem ástæða væri til að fylgja eftir á annan hátt en mér var unnt – og vísa óspart í gamalt og nýtt fræðiefni til að safna sem flestum heimildum á einn stað.

Greinin „að predika dýraverndun fyrir soltnum hýenum“. Þættir um lífsspeki Þórbergs Þórðarsonar eftir Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur prófessor er birt í Ritinu:1/2017.

Um höfundinn
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir

Bergljót er prófessor í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Deila


„Vér hverfum frá oss sjálfum“

16. október, 2017Franska leikritaskáldið Florian Zeller hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verkið Föðurinn, meðal annars Moliere verðlaun árið 2014. Verðskuldað er það. Þetta er ákaflega vel skrifað og sterkt leikrit en það er þannig gert að það leiðir áhorfandann stig af stigi inn i hugarheim föðurins, André, (Eggert Þorleifsson). Sá hugarheimur er framandlegur og kemur okkur á óvart, það tekur smátíma fyrir áhorfandann að ná áttum. Ég ætla því að vara ykkur við og segja: ef þið ætlið að sjá þessa sýningu Þjóðleikhússins ættuð þið ekki að lesa lengra núna – lesið þegar þið eruð búin að sjá sýninguna! Má ég spyrja: ...

Leikstjóraspjall við Baltasar Kormák

13. október, 2017Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði, fjallar um Leikstjóraspjall Baltasar Kormáks, en hann svaraði spurningum um eigin feril og kvikmyndir, íslenska kvikmyndamenningu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.

Leitin að íslensku klaustrunum

12. október, 2017Út er komin á vegum Sögufélags og Þjóðminjasafns Íslands bókin Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði. Steinunn bregður hér ljósi á sögu kaþólsks klausturhalds í landinu á persónulegan hátt þar sem skipulögð leit að íslensku klaustrunum er í forgrunni. Klaustrin voru öflugustu stofnanir kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á miðöldum, næst á eftir biskupsstólunum. Saga þeirra, sem spannar nær 500 ár, einkennist af auðsöfnun og aga í bland við bóklega menntun, handverk, stjórnsýslu, hjúkrun, lækningar og útbreiðslu trúar á Guð alvaldan og helga menn og konur. Hún er líka saga síendurtekinna ...