Sjónljóð: Ævintýri forma og lita

RÚNA  / Sigrún Guðjónsdóttir
Línudans
Menningarhús Gerðubergi
12. nóv. 2016 – 5. feb. 2017
Í Menningarhúsinu Gerðubergi stendur nú yfir ljóðræn og ljúf en jafnframt sterk og heilsteypt myndlistarsýning á nýlegum verkum listakonunnar Rúnu (Sigrúnar Guðjónsdóttur). Þótt verkin séu flest öll ný á sýningunni eru þau í anda fyrri verka en einkenni þeirra eru mjúk og flæðandi abstrakt form, gjarnan kvenverur, fuglar, fiskar og bátar.

Rúna á langan og fjölbreyttan feril að baki sem myndlistarkona en hún er nú níræð. Rúna hefur haldið fjölda sýninga hérlendis sem og erlendis og var til að mynda haldin yfirlitssýning á verkum Rúnu í Hafnarborg árið 2013. Rúna var nemi við Hand- og myndlistaskóla Íslands og nam í framhaldinu málaralist í Kaupmannahöfn við Konunglegu listaakademíuna frá 1946 til 1947 hjá Lundström (1893-1950), helsta fulltrúa Kúbisma í Danmörku á þeim tíma. Önnur íslensk kona, nánast jafnaldra Rúnu, var einnig nemi Lundström, Elín Pjet. Bjarnason (1924-2009) og má segja að þær báðar hafi orðið fyrir nokkrum áhrifum af list hans. Þær eiga það sameiginlegt að vera hæfileikaríkar en jafnframt minna þekktar en ætla mætti.

Eiginmaður Rúnu, Gestur Þorgrímsson (1920-2003), stundaði einnig nám við listaakademíu Kaupmannahafnar, í höggmyndalist. Eftir heimkomu unnu hjónin saman að listsköpuninni, meðal annars að leirlistinni um tíma og stofnuðu fyrirtækið Laugarnesleir. Rúna vann um skeið fyrir danska postulínsfyrirtækið Bing og Gröndal og hefur myndskreytt fjölda bóka, samið og myndskreytt barnabókina Rauða fiskinn (1972) sem var nýlega endurútgefin (2011), unnið við myndlistarkennslu og sinnt félagsstörfum í þágu myndlistarmanna. Í dag helgar hún sig alfarið myndsköpuninni.

Mater dolorosa (verk nr.29, til vinstri) og Horft í djúpið (verk nr. 30, til hægri)

Í nýlegu viðtali við Rúnu í tengslum við hina nýju sýningu skín í gegn að listsköpun Rúnu veitir henni mikla gleði; áberandi jákvæðni einkennir listakonuna. En þrátt fyrir alla gleðina fylgir þó einnig einhver þjáning ef marka má myndtitlana Mater dolorosa (verk nr.29) og Horft í djúpið (verk nr. 30) þar sem þjáningarmóðir rýnir ef til vill inn á við. Notkun latínunnar leiðir hugann að hinni ítölsku guðsmóður, sem jafnan var bláklædd, örlítill blár fylgir henni í verki Rúnu, en að mestu er dökkur angistarsvipurinn látinn nægja; frekar dimmir litir einkenna myndirnar tvær.

Á sýningunni í Gerðubergi eru öll verkin unnin á pappír og innrömmuð í ferhyrningslaga ramma með hvítu passe-partout. Fram kemur á opnunarvegg sýningar og í fjölmiðlum að verkin séu öll unnin á síðustu þremur árum en þó eru nokkur verk á sýningunni frá 2010 og 2012. Nýjustu verkin eru unnin með akrýlmálningu á japanskan pappír með einkennandi efniskenndu yfirborði.

Hluti af verkinu Trúin (2010)

Litavalið í verkunum er misjafnt en gjarnan einfalt og hnitmiðað. Rúna er sjaldnast áberandi litaglöð; hún heldur sig við ákveðna liti frekar en aragrúa skærra lita. Oft ræður ákveðinn litur ríkjum en þó ekki alltaf. Ósjaldan bregður fyrir bláum (yfir í fjólubláa tóna) og gulum, gulbrúnum, jafnvel gylltum tónum í verkum hennar. Rúna notar stundum málmkennda liti sem gefa verkunum draumkenndan blæ, sem úr öðrum heimi.

Formin hafa mikið vægi í sköpun Rúnu, hugsanlega meira vægi en litirnir – þó þeir séu greinilega mikilvægir henni. Titill sýningar, Línudans, vísar til formsins, eða línunnar, sem gæti allt eins verið litlaust fyrirbæri. Rúna birtir frumsamin ljóð á vegg sýningarinnar og innrammað ljóð ásamt mynd. Hér hefur hún tvinnað saman ljóðlist, nokkrum línum, við dansandi línur verka sinna. Ljóðin eru beintengd sköpuninni sjálfri, innihalda orð sem vísa til forms og lita, nánast uppskrift að verkunum. Ljóðlistin, eða hin ljóðræna hlið, birtist einnig í titlum verka Rúnu þar sem stundum bregður fyrir litum eða litaorðum.

Hringformið kemur oft við sögu í verkum Rúnu, nú sem fyrr. Hringformið hennar er stundum órætt form, stundum vísun í sólina,  brjóst eða kvið konunnar. Hringurinn er mjúkt form sem við höfum tilhneigingu til að tengja við kvenleika. Rúnu tekst vel að sameina styrk og mýkt á yfirvegaðan hátt. Stundum eru hringirnir fullkomnir hringir, stundum teygðir, stundum hefur jafnvel sjálft verkið verið hringlaga. Það er því óhætt að segja að hringformið tilheyri sköpun Rúnu og fylgi henni gjarnan.

Í ýmsum verkum Rúnu skiptist myndflöturinn upp í ferhyrninga í anda kúbisma, í sambýli við fjölda hringforma myndanna og minna stundum á verk Soniu Delaunay (1885-1979)  – sem varð reyndar háöldruð rétt eins og Rúna. List Lundströms, lærimeistara Rúnu við listaakademíuna, einkenndist af einföldum línum og fáum litum og hefur því Rúna án efa orðið fyrir áhrifum frá lærimeistara sínum. Lundström hafði dvalist í París kringum 1920 og orðið fyrir áhrifum frá Braque, Picasso og Cézanne. Hringurinn kemur fyrir í verkum Lundströms. gjarnan í formi appelsínu í hans ótal mörgu uppstillingum sem hann var frægur fyrir og er hún þá gjarnan stök í áberandi lit, stelur senunni. Andlitin í verkum Rúnu minna á andlit Lundströms, sem aftur eru náskyld andlitsdráttum í verkum Fernands Leger (1881-1955) sem þróaði einmitt fígúratífan anga kúbisma. Rúna segist halda upp á Þorvald Skúlason (í fyrrnefndu viðtali) en hann dvaldist um tíma í París og kynntist vel kúbismanum þar á fjórða áratug síðustu aldar.

Verkin Rökkrið er rautt (verk nr.13) , Í Dumbshafi (verk nr. 14)  og Um rauða nótt (verk nr. 15) sameina mörg tákn sem eru Rúnu kær, þ.e. hringinn, fiskana og konuna. Hér tekur hringurinn einmitt á sig þessar algengu myndir í merkingarmáli Rúnu: hringurinn sem sól, hringurinn sem brjóst og geirvörtur, hringurinn sem kviður og nafli. Höfuð konunar og handleggir eru einnig nálægt hringforminu. Fiskarnir gætu í þessu samhengi táknað hið karllæga, eða sáðfrumur kringum hinn stóra hringlaga frjósama kvið (einkum verk nr. 15). Notkun litaorða í titlum verkanna er athyglisverð. Í fyrrnefndum verkum kemur  einkum fyrir orðið rautt og orð sem vísa í dökka eða dimma liti eða yfir í svart eins og rökkur, sbr. dumbrauður sem merkir einmitt „með óskærum dimmrauðum lit”.

Verkin Rökkrið er rautt (verk nr.13) , Í Dumbshafi (verk nr. 14) og Um rauða nótt (verk nr. 15)

Blái liturinn kemur fyrir í mörgum titlum verka Rúnu á sýningunni, samanber titlana Blá nótt, Fuglar morgunblámans, Blávængjuð kyrrð. Bleikur kemur einnig fyrir eins og sjá má í titlinum Bátar í bleikum sandi. Óbeinar litatilvísanir má sjá í titlinum Haustfuglar og er þá vísað til lita sem við tengjum haustinu, til að mynda lita fölnandi laufa. Skipið og hafið tengjast bláum lit í hugum margra en það er gegnumgangandi þema hjá Rúnu, rétt eins og hjá Valtý Péturssyni. Athyglisvert er að bátar Rúnu, og varir margra andlitanna, eru skorin út með hringforminu sjálfu, mótuð með hluta hringsins, og minna á formin í stoðum verka súrrealistans Salvadors Dalí (1904-1989).

Rauða fisknum, aðalpersónu úr barnabók Rúnu, bregður fyrir í nokkrum verka hennar í Gerðubergi. Hann er alltaf stakur í torfunni hvað lit varðar, eins og í barnabókinni – en í sögunni leitar hann að öðrum rauðum fisk, syndir til þess um heimsins litríku höf, og finnur hann að lokum. Stundum sjáum við stakt rautt skip meðal annarra skipa – eins konar vísun í fiskinn, sem er stakur rétt eins og appelsína Lundströms. Rauðum fisk bregður fyrir í ýmsum verkum Henris Matisse en hann sótti meðal annars innblástur í prentverk japönsku listamannanna Hokusai (1760-1849) og Hiroshige (1797-1858).

Óhætt er að segja að Rúna samtvinni margt af fyrri reynslu í þessari fallegu sýningu sem vert er að mæla með. Vonandi fáum við að sjá fleiri nýjar myndir á næstu árum frá þessari hugljúfu og sterku listakonu.

Sýning Rúnu stendur til 5. febrúar og er opin virka daga frá kl. 9-18 og um helgar frá kl. 13-16. Aðgangur er ókeypis.

Um höfundinn
Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín er listmálari og listfræðingur. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði frá Háskólanum í Bologna árið 2006 en hafði áður lokið námi í málaralist í Listaakademíu Rómar. Hulda Hlín hefur haldið einkasýningar, annast sýningarstjórn og tekið þátt í samsýningum auk þess að fást við ritstörf á sviði myndlistar. Meginrannsóknarsvið Huldu Hlínar er merkingarfræði hins sjónræna með áherslu á liti. Sjá nánar

[fblike]

Deila