Náttúran og dýrin skilja eftir sig spor í Hafnarhúsinu

Sýningin RÍKI flóra, fána, fabúla í Hafnarhúsinu var samsýning ólíkra listamanna þar sem ríki náttúrunnar var höfð í fyrirrúmi. Sýningin stóð frá 28. maí til 18. september 2016. Verk listamannanna eru afar ólík en rauði þráðurinn í gegnum sýninguna var náttúran og lífríkið.
Titill sýningarinnar RÍKI flóra, fána, fabúla vísar til plöntu og dýraríkisins, ásamt tilbúningi eða uppspuna mannanna á náttúrunni. Sýningarstjóri var Markús Þór Andrésson, hann starfar sjálfstætt sem sýningarstjóri, textasmiður og leikstjóri. Markús greinir frá því að í verkunum sem voru á sýningunni sé það lífríkið sem er ýmist viðfangsefnið, fyrirmyndin eða jafnvel sjálft hráefnið.

Hafnarhúsið er á tveimur hæðum og er með sex sýningarsali til afnota, niðri er salur A og uppi eru salir B, C, D, E og F. Sýningunni var skipt upp í þrjá sali ásamt tveimur gjörningum og níu kvikmyndum, í sal A og B voru ný eða nýleg verk sem voru sérstaklega gerð eða aðlöguð að þessari sýningu. Í sal C voru verk úr safneign Listasafns Reykjavíkur.

hugras-flora-fana-fabula-5
Frá sýningunni. Samsett mynd. Ljósmyndir: Svana Björg Ólafsdóttir.

Í viðtali við Víðsjá sagði sýningarstjórinn Markús Þór: „Við erum að reyna sem sagt að smokra náttúrunni inn í listasafnið.“ Þessi sýning var áminning um náttúruna, dýrin og okkar nánasta umhverfi. Náttúran og dýrin eru allt í kringum okkur, oftar en ekki gefum við þeim lítinn sem engan gaum, það er ekki fyrr en þau eru tekin úr sínu rétta umhverfi að við sjáum þau í nýju ljósi. Myndlistarmenn hafa nýtt sér þetta í listsköpun sinni með því að taka fyrir og varpa ljósi á eitthvað ákveðið sjónarhorn eða málefni sem þeim er hugleikið.

Sýningin byrjaði niðri í sal A á sakleysislegan hátt með blómum, skeljum og kuðungum svo eitthvað sé nefnt. Handgerð verk sem sett voru fram með fagurfræðilegum hætti ásamt vott af alvarleika sem fylgir til að mynda verkinu hennar Ólöfar Nordal, Þrjú lömb og kálfur. Í þessu verki er Ólöf að skírskota í fréttir sem bárust um burð vanskapaðra húsdýra á nokkrum bæjum árið 2008. Þegar að fjármálakerfið hrundi hér vöktu þessar fréttir áhuga hennar í tengslum við þeirra gömlu þjóðtrúar að vansköpuð dýr boði váleg tíðindi. Dýrin eru mótuð í leir og steypt í gifs, þau sýna ólíka galla líkt og tvíhöfða kálf.

Ólöf Nordal, Þrjú lömb og kálfur, 2009. Leir steypt í gifs. Ljósmynd: Svana Björg Ólafsdóttir.
Ólöf Nordal, Þrjú lömb og kálfur, 2009. Leir steypt í gifs. Ljósmynd: Svana Björg Ólafsdóttir.

Tilhneiging mannsins að manngera náttúruna og flokka hana kemur í ljós í verkum Helga Þorgils Friðjónssonar. Hans framlag til sýningarinnar voru glettin málverk þar sem andlitsprófíll listamannsins og fuglum er blandað saman (sjá mynd ofan við grein) Í málverkaröðinni Íslenskir fuglar og fiskar er Helgi að skírskota í listasöguna eins og kemur fram í sýningarskránni. Þær vísa til hins ítalska 16. aldar málara Giuseppes Arcimboldos og til hins svissnesk-þýska Pauls Klees. Arcimboldos var þekktur fyrir að raða saman hlutum í mannsandlit með því að nota til dæmis bækur, ávexti eða grænmeti. Verkið Gullfiskurinn sem Klee gerði árið 1925 sýnir glóandi fisk fyrir miðju ásamt smærri sjávardýrum á dökkum fleti rétt eins og sjá má koma fram í málverkaröðinni hans Helga.

Þegar komið var upp í sal B skall veruleikinn á, þar sem afskipti mannsins á náttúrunni og dýrunum átti sér stað, einnig var dýradráp sýnt með beinum og óbeinum hætti. Verkið sem setur tóninn fyrir sal B er verkið Á milli þín og mín eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson. Uppstoppaður selur er settur upp á stall beint á móti vídeói sem sýnir ferlið þegar verið er að uppstoppa þennan ákveðna sel. Selnum er stillt þannig upp eins og hann sé fulltrúi heillar tegundar en að sama skapi finnur viðkomandi fyrir samkennd með þessum ákveðna sel þegar áhorfandinn stendur við hlið hans og horfir á þegar verið er að uppstoppa hann. Nokkur önnur vídeó sem eru hluti af verkinu sýna viðtöl við ýmsa menn sem hafa misjafnar skoðanir og sögur um villta selinn sem breytir í raun ekki neinu fyrir sjálfan selinn en gefur áhorfandanum ólíka sýn á mismunandi sjónarhornum um hann.

hugras-flora-fana-fabula-6

Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Á milli þín og mín, 2009. Uppstoppaður selur og vídeóverk. Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.
Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Á milli þín og mín, 2009. Uppstoppaður selur og vídeóverk. Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.

Einnig var myndbandsverkið Slátrun eftir Unni Andreu Einarsdóttur til sýnis uppi í sal B. Í þessu vídeói tekst hún á við spurningar sem snúa að dýrahaldi og kjötáti. Hún velur sér lifandi kjúkling á markaði með það í huga að slátra honum með kjötsaxi og í lokin eldar hún þennan kjúkling fyrir matargesti. Upplifun hvers og eins spilar stóran þátt í þessu verki þar sem áhorfandinn upplifir einlæga og heiðarlega togstreitu Unnar Andreu í vídeóverkinu. Það siðferðislega álitamál og spurningar sem snúa að henni og hvað hún tekst á í nafni listsköpunar.

Unnur Andrea Einarsdóttir, Slátrun, 2004. Vídeóverk. Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.
Unnur Andrea Einarsdóttir, Slátrun, 2004. Vídeóverk. Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.

Salur C innihélt 23 verk úr safneigninni eftir listamenn frá mismunandi tímabilum. Það sem þessi verk áttu sameiginlegt var að þau féllu öll á einhvern hátt undir gróður eða dýr. Allt frá því að vera teiknuð mynd af hesti yfir í að vera texti um hest. Sýningarstjórinn sagði að verkin úr safneigninni eða óboðnu gestirnir höfðu verið valin með þema sýningarinnar í huga. Listasafninu og sýningarstjóranum er gerður sómi með því að gera sýningu um brýnt málefni sem inniheldur fræðslugildi um náttúruna. Sú sérstaka staða er hér á landi að við eigum ekkert opinbert náttúrufræðisafn. Þessi sýning er ekki staðgengill fyrir slíkt safn en á forsendum myndlistarinnar fær almenningur aðgang að úrvinnslu á náttúrunni í gegnum listræna nálgun. Hins vegar er hættan við að upplifun áhorfandans hverfi vegna of mikið af verkum úr safneigninni. Upplifunin af sal C kom út sem einhverskonar óskilgreindur samtíningur af verkum eða nokkurskonar uppfylling. Ferðalagið var á einhvern hátt rofið, ferðalag sem stigmagnaðist frá sal A til sal B. Það má vel taka undir orð sýningarstjórans að um óboðna gesti hafi verið um að ræða, sem hefði alveg mátt sleppa þegar betur er að gáð.

Yfirlitsmynd af safneign í sal C. Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.
Yfirlitsmynd af safneign í sal C. Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.

Sýningin á góðan hljómgrunn við það sem er og hefur verið í umræðunni í samfélaginu. Á undanförnum áratugum hefur umræða á alþjóðavísu færst í aukana um náttúruna og dýrin, loftlagsbreytingar og mengunina sem á sér stað af okkar völdum. Í dag er mikil vitundarvakning meðal fólks um dýrin, hvernig við komum fram við þau ásamt náttúrunni. Umhverfið okkar skipar stóran sess í lífi okkar allra og er eitthvað sem við þurfum öll að huga að hvort sem okkur líkar betur eða verr. Allt helst þetta í hendur og þurfum við á hvort öðru að halda til þess að geta lifað á þessari jörð. Þema sýningarinnar gerir áhorfandanum kleift að sjá náttúruna og dýrin í nýju ljósi og ýtir þannig undir meðvitund á umhverfinu. Sýningin leyfir áhorfandanum að taka sína afstöðu gagnvart lífríkinu og skilur eftir sig vangaveltur og spurningar. Hún gefur áhorfandanum tækifæri á að eiga samtal við verkin, spyrja sig áleitinna spurninga og leita svara. Þessi sýning skilur eftir sig opna túlkun sem leiðir að gagnrýnni hugsun og vitundarvakningu, það er í höndum áhorfandans að túlka verkin á sýningunni og taka afstöðu gagnvart samspilinu á milli manna, dýra og náttúrunnar. Í heildina er þetta vel heppnuð tilraun við að smokra náttúrunni inn í listasafnið, sem endar með því að náttúran og dýrin skilja eftir sig spor í Hafnarhúsinu. Sambandið á milli manna, dýra, og náttúrunnar er eitthvað sem við komumst ekki hjá, við þurfum á hvort öðru að halda. Til þess að það gangi upp þurfum við að finna leið til þess að lifa í sátt og samlyndi án þess að ganga á rétt dýra og án þess að eyðileggja umhverfið okkar né spilla náttúrunni. Þörf, öflug og jafnframt skemmtileg sýning um málefni sem snertir okkur öll.

Grein þessi var unnin sem verkefni í Listgagnrýni og sýningarstjórnun, námskeið á MA-stigi í listfræði við Háskóla Íslands.

Mynd ofan við grein: Helgi Þorgils Friðjónsson, Íslenskir fuglar og fiskar, 2009 – 2011. Olía á striga. Ljósmynd: Svana Björg Ólafsdóttir.

Um höfundinn
Svana Björg Ólafsdóttir

Svana Björg Ólafsdóttir

Svana Björg Ólafsdóttir er með BA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands með stjórnun og stefnumótun sem aukagrein. Hún stundar nú MA-nám í listfræði við sama skóla.

[fblike]

Deila