Trú og vísindi

Trú og vísindi og sambandið þeirra á milli hefur löngum reynst heit kartafla. Á árinu hafa a.m.k. tvær bækur komið út hér um þessi málefni.
Er þar um að ræða bók ameríska prestsins og guðfræðingsins Robs Bell, Það sem við tölum um þegar við tölum um Guð í þýðingu Grétars Halldórs Gunnarssonar og ritið Öreindirnar, alheimurinn, lífið — og Guð eftir líf- og búvísindamanninn Bjarna E. Guðleifsson.[1]

Bækurnar eru í raun furðu áþekkar en í heimildaskrá kemur fram að höfundi íslensku bókarinnar er kunnugt um þá amerísku. Ekki er þó ljóst í hvaða mæli hún hefur orðið innblástur fyrir íslenska ritið. Markmið höfundanna eru ólík. Fyrir Bell virðist einkum vaka að aðlaga orðræðuna um Guð að heimsmynd nútíma vísinda sem raunar er sístætt guðfræðilegt viðfangsefni.  Markmið Bjarna Guðleifssonar er annað og víðtækara, þ.e. að samsama trú og raunvísindi. Álitamál er hvort það sé frjó leið til að bjarga trúnni frá þeim dauða sem mörgum virðist blasa við standist hún ekki þá áskorun sem felst í hinni nútímalegu, vísindalegu heimsmynd.

Þrjár lykilspurningar

Bjarni E. Guðleifsson
Öreindirnar, alheimurinn, lífið — og Guð
Bókaútgáfan Hólar, 2016
Í riti sínu leggur Bjarni Guðleifsson þrjár spurningar til grundvallar er hann spyr:
Úr hverju er alheimurinn? Hvernig myndaðist alheimurinn? Og hvernig varð jarðlífið til?

Með réttu bendir Bjarni á að hinir forn-grísku heimspekingar hafi spurt áþekkra spurninga nokkrum öldum fyrir Krists burð. Að því er virðist hallast hann einnig að því að þeir hafi jafnvel svarað þeim með furðu líkum hætti og náttúruvísindamenn gera nú á dögum. Það er þó væntanlega mikil einföldun. Megi finna slíka samsvörun liggur hún líklega einkum á sviði orðræðunnar. Þótt svipuð orð og hugtök komi fyrir í fornri, grískri heimspeki og hugtakaheimi nútímavísinda (t.d. atom) er merkingarheimurinn og heimsmyndin sem liggja að baki næsta ólík.

Sé það eigi að síður rétt að heimspekingarnir fornu og stjarnfræðingar, eðlisfræðingar og lífvísindamenn dagsins í dag séu í leit að svörum við sömu eða áþekkum spurningum um uppbyggingu alheimsins sem og uppruna hans og lífsins á jörðinni segir það ugglaust aðeins eitt: Að spurningar á borð við þessar séu manninum á öllum tímum eiginlegar, að það sé með einum eða öðrum hætti hluti af menningunni að grafast fyrir um eðli og uppruna lífs og heims.

Kjarni máls

Þar kunnum við einmitt að vera komin að kjarna málsins, þ.e. að glíma við lífsgátuna sé manninum í blóð borin þótt því skuli ekki haldið hér fram að hún sé manninum eðlislæg. Hér kann allt eins að vera um menningar- og félagslegt fyrirbæri að ræða. Það er svo aftur annað og flóknara mál hvar hinu félagslega og menningarlega sleppir og hið eðlislæga tekur við!

Þar kunnum við einmitt að vera komin að kjarna málsins, þ.e. að glíma við lífsgátuna sé manninum í blóð borin
Líklega getum við flest verið sammála um að glíman við lífsgátuna sé djúpstæð mannleg þörf sem flest okkar finna til a.m.k. á frjóustu skeiðum ævinnar. Fyrr á tímum var litið svo á að í þessari glímu fælist í raun leit að Guði og að trúarþörf væri manninum eðlislæg. Bjarni Guðleifsson virðist raunar vera þessarar skoðunar en í riti sínu fullyrðir hann: „[…] Guðstrú er öllum mönnum eiginleg og jafnvel heiminum gagnleg.“[2]  Um þetta ríkir sem kunnugt er engin sátt lengur. Margir finna ekki til neinnar trúartilfinningar og telja raunar að trú eða trúarbrögð séu til trafala.[3]

Hvert og eitt okkar hlýtur að hafa frjálsar hendur um hvernig hann eða hún skilgreinir leit sína að tilgangi lífsins, trúarlega eða veraldlega.
Sanni nær er líklega að manninum kunni að vera í blóð borin leit að tilgangi með lífi sínu og tilveru. Einhver kann að líta svo á að þar sé einungis komin ný og veraldleg birtingarmynd af leitinni að Guði. Það er þó óviðeigandi forræðishyggja að halda slíku fram. Hvert og eitt okkar hlýtur að hafa frjálsar hendur um hvernig hann eða hún skilgreinir leit sína að tilgangi lífsins, trúarlega eða veraldlega.

Óljós hugtakanotkun

Nokkur ljóður er það á riti Bjarna Guðleifssonar að hugtakanotkun þar er nokkuð á reiki. Heimsmynd er hugtak sem gegnir mikilvægu hlutverki í ritinu. Það virðist þó notað í þremur mismunandi merkingum: Í fyrsta lagi er það notað um samfelldar eða samstæðilegar hugmyndir um „[…] myndun og byggingu heimsins […],[4] þá virðist það notað um (forna) landskipunar- eða landafræði eins og t.d. landafræðihugmyndir Snorra í Heimskringlu[5] og loks þrjú mismunandi sjónarhorn á heiminn: nærumhverfið, örheiminn og alheiminn.[6]

Þá er merking hugtaksins bókstafstrú flöktandi. Vissulega notar Bjarni það stundum í hefðbundinni merkingu um þá sem telja að túlka beri orð og frásagnir Biblíunnar bókstaflega.[7] Þó virðist gæta hjá honum þeirrar tilhneigingar sem er algeng í íslenskri trúmálaumræðu að líta svo á að öll trú sé bókstafstrú. Hann fullyrðir t.a.m. að bókstafstrúarmenn taki þátt „[…] í að byggja musteri og kirkjur og telja sig vera þar í meiri nánd við Guð“.[8] Hér skal því ekki haldið fram að Guð sé manninum endilega nálægari í kirkjum og/eða musterum en t.d. úti í guðsgrænni náttúrunni. Það er á hinn bóginn fráleitt að kirkjubyggingar og helgi þeirra sé eitthvert séreinkenni bókstafstrúarmanna! Í formála játar höfundur líka að hann „[…] gæti líklega flokkast sem bókstafstrúarmaður […]“.[9] Í ritinu virðist hann þó óyggjandi koma fram sem „aðlögunarmaður“ en þeim flokki lýsir hann svo að þeir telji

[…] að bæði raunvísindin og skaparinn hafi komið að myndun alheims. Þeir vilja að trú og vísindi nái sáttum og mætist á jafnréttisgrundvelli og aðlagi sig hvort að öðru. Því geti þurft að breyta hlutverki Guðs í sköpuninni og aðlaga það að nýjustu niðurstöðum vísindanna.[10]

Það virðist raunar þungamiðja ritsins að boða þessa afstöðu. Hér má vissulega hnýta í orðalag. Hvernig komu raunvísindin t.a.m að myndun alheimsins?! Þetta er þó „sympatísk“ og öfgalaus afstaða en spyrja má hvort hún sé endilega frjó lausn á þeim árekstri sem sumum virðist milli trúar og vísinda.

Aðlögun vísinda og trúar

Eftir alllanga útlistun á efnafræðilegri uppbyggingu alheimsins svarar Bjarni Guðleifsson fyrstu spurningu sinni svo að öreindir séu smæstu eindir efnisins og geti bæði raunvísindamenn og Guðstrúarmenn verið sammála um það.[11] Þá segir hann ekkert í kristinni trú mæla gegn því að alheimurinn sé byggður úr örsmáum öreindum.[12]  Allt er þetta ábyggilega satt og rétt.

Málið vandast aftur á móti þegar höfundur fullyrðir að allt efni sé „[…] gert úr örsmáum eindum, öreindum, sem nefnast létteindir, kvarkar og krafteindir auk andefnis og hulduefnis“ og að um þetta séu guðfræði og raunvísindi sammála.[13] Hvaða guðfræðingar hafa tjáð sig af einhverju viti eða sjálfstæðri þekkingu um þessi efni og hvaða máli skiptir álit þeirra? Er til einhver guðfræðileg kenning í efnafræði og hvers virði er hún þá? Síðar í ritinu gengur höfundur raunar svo langt að stilla „þróunartrú náttúruvísindanna“ og „sköpunartrú guðfræðinnar“ upp sem hefðbundnum  andstæðum sem hann reynir svo að sætta.[14] Fróðlegt væri raunar að vita hvað þessi meinta sköpunartrú guðfræðinnar sé að áliti höfundar og hvernig hún komi fram hjá nútímaguðfræðingum. Hér virðist höfundur hafa mjög óljósar hugmyndir um hvað guðfræði sé og við hvaða verkefni hún fæst (sjá síðar). Ég ætla honum a.m.k. ekki að reisa hér vísvitandi vindmyllur til þess eins að berjast við!

Í leit að svari við annarri spurningu sinni sem lýtur að uppruna alheimsins segir höfundur:

Raunvísindamenn telja að ekkert í uppruna og eðli alheims verði betur skýrt með skapara en án hans og þess vegna sé engin ástæða til og engin þörf á að leita til guðfræðinnar um skýringu á heimsmynd vísindanna.[15]

Hvort sem þetta nú er skoðun höfundarins sjálfs eða ekki hygg ég að þessir raunvísindamenn hafi mikið til sína máls og þeir guðfræðingar enda vandfundnir sem telji sig hafa gildari svör en þeir við þeirri spurningu sem hér um ræðir.

Annars kemur svar bókarhöfundar líklega best fram í eftirfarandi orðum sem bera sömu „aðlögunarhyggju“ vott og fram kom í svari hans við fyrstu lykilspurningunni:

Sumir munu telja að á meðan við vitum ekki hvað var á undan myndun alheims þá sé auðveldast (og kannski líka eðlilegast) að telja að Guð hafi verið til fyrir tíma Miklahvells, að hann hafi að einhverju leyti staðið að baki sköpun alheims. Þá er svarið við spurningunni um myndun alheims að Guð hafi komið Miklahvelli af stað og síðan hafi náttúrulögmálin, með eða án Guðs hjálpar, komið alheimi í það jafnvægi náttúrufasta sem þar ríkir nú, jafnvægi sem viðheldur lífi á jörðu.[16]

Hér er höfundur inni á hefðbundnum brautum er hann leggur til að getið sé í eyður raunvísindalegrar þekkingar með því að vísa til guðlegrar íhlutunar. Hann gerir sér enda grein fyrir því sjálfur er hann talar um vandann sem í því felst að vísa til slíks „eyðuguðs“  sem oft er einnig nefndur deux ex machina.[17]

Þriðju spurningunni sem laut að uppruna lífsins svarar bókarhöfundur enn í anda „aðlögunarhyggju“ sinnar. Hann hallast sem sé að því „ […] að Guð hafi skapað lífið en eftir að lífið var myndað hafi lífverurnar þróast eftir lögmálum þróunarkenningar Darwins“.[18]

Spurning er aðeins hvort Bjarni Guðleifsson hafi þar með valið frjóa leið til að aðlaga trú og vísindi.
Að þessu sögðu má segja að höfundi hafi tekist bærilega „[…] að breyta hlutverki Guðs í sköpuninni […]“ svo vísað sé til skilgreiningar hans á „aðlögunarmönnum“.[19] Raunar má segja að hann hafi með þessum svörum gerst klassískur „deisti“ en þeir aðhylltust þá skoðun að Guð hafi í upphafi komið sköpunarverkinu til leiðar en síðar látið það afskiptalaust líkt og úrsmiður sem lætur sér nægja að smíða sigurverkið og koma því af stað.[20]

Spurning er aðeins hvort Bjarni Guðleifsson hafi þar með valið frjóa leið til að aðlaga trú og vísindi.

Að skýra og skilja

Í upphafi bókarinnar slær höfundurinn föstu að náttúruvísindin og guðfræðin glími hvor um sig við lykilspurningar ritsins: Hver byggingarefni alheimsins séu, hvernig alheimurinn hafi myndast og hvernig lífið hafi orðið til.[21] Sjálfur kannast ég ekki við að nein grein guðfræðinnar fáist við spurningar af þessu tagi. Það er ekki til nein sérstök guðfræðileg efnafræði, stjarn- eða lífeðlisfræði né heldur nokkrar aðrar guðfræðilegar aðferðir sem svara spurningum á borð við þessar. Vera má að hér sé enda um að kenna óljósri hugtakanotkun, þ.e. að höfundur geri ekki greinarmun á guðfræði og trú.

Það er ekki til nein sérstök guðfræðileg efnafræði, stjarn- eða lífeðlisfræði né heldur nokkrar aðrar guðfræðilegar aðferðir sem svara spurningum á borð við þessar.
Í þessu sambandi er þó mikilvægt að velta því upp hvort vera kunni að okkur hætti ekki til að rugla saman spurningum um uppruna og eðli lífs og heims annars vegar og spurningum um tilgang þessa alls hins vegar. En þetta eru í raun alls óskyldar spurningar.

Mörgum finnst áhugavert og gefandi að velta fyrir sér gátunni um hvernig alheimurinn og lífkeðjan varð til án þess að hafa ríka þörf fyrir að spyrja um tilgang og markmið eða merkingu að baki þessa. Aðrir eru í ríkri þörf fyrir að velta einmitt spurningunum um tilgang og merkingu mannlífsins fyrir sér alveg burtséð frá því hvernig lífið og alheimurinn kunni svo að hafa orðið til í upphafi. Það er bara allt önnur Ella!

Að sumra mati eru hér komið að helsta greinarmun raunvísinda og mann- eða hugvísinda. Þeir álíta raunvísindi leitast við að skýra viðfangsefni sín, t.d. alheiminn, byggingu hans og tilurð sem og uppruna lífsins á jörðinni. Til þess nota þau ákveðnar aðferðir og líkön (paradigm) sem Bjarni Guðleifsson gerir áhugaverða grein fyrir í bók sinni. Hugvísindin telja þeir aftur á móti reyna að skilja viðfangsefni sín og túlka þau og nota til þess allt aðrar aðferðir og líkön. Til þessarar greinar þekkingaröflunar telst þá guðfræðin. Viðfangsefni hennar a.m.k. nú um stundir lúta alls ekki að spurningum á borð við þær sem Bjarni Guðleifsson varpar fram heldur glíma guðfræðingar við spurningar á borð við hver sé merking og tilgangur mannlegrar tilveru í þessum heimi, til hvers við séum hér og hver sé ábyrgð okkar sem hluta af alheiminum. Frammi fyrir þessum spurningum skiptir raunar litlu hvort allt hafi orðið til í einum Hvelli eða ekki. Sú spurning lýtur að fjarlægu upphafi. Guðfræðin glímir við tilveru — og þá einkum mannlega tilveru — hér og nú. Sem betur fer hefur guðfræðin í seinn tíð þó í vaxandi mæli tekið að fjalla um tilveru mannsins sem hluta af stærri heild og má vel tala um vist-guðfræði í því sambandi. Samtal náttúruvísinda og guðfræði geta nefnilega verið gefandi og frjótt þótt sú sé ekki alltaf raunin.

Sé gengið út frá þessum ólíku hlutverkum raunvísinda og guðfræði virðist sú hugmynd Bjarai Guðleifssonar fráleit að guðfræðingar hafi eða telji sig hafa einhver svör við spurningum raunvísindanna. Það skal svo viðurkennt að trú og guðfræði er alls ekki eitt og hið sama. Margt af því sem Bjarni Guðleifsson eignar guðfræðinni getur vissulega átt við trúna, trúarbrögðin almennt eða kristnina sérstaklega þótt svo þurfi alls ekki að vera.

Þegar rætt er um trúna má loks benda á að bókarhöfundur virðist líta svo á að hún sé fyrst og fremst „andlegt“ fyrirbæri: fáist við „andleg efni“, eigi við „andlegt svið“ eða felist í „andlegri heimssýn“[22] „Andlegt“ er vissulega órætt orð. Sjálfur hallast ég að því að það leiði til smættunar að líta svo á að öll trú sé „andleg“ hvort sem það orð er látið ná yfir óefnisleg fyrirbæri eða fyrirbæri annars heims.

Að mínu viti er trú ‘hugboð um að tilvera okkar búi yfir einhvers konar hæð, dýpt eða breidd sem ekki verði mæld með viðteknum einingum; von um að í henni eða að baki hennar búi markmið eða tilgangur og tilfinning fyrir að handan veruleikans kunni að búa óræður leyndardómur sem kallast Guð í kristinni trúarhefð. Þessi afstaða, hvort sem hún nú felst í óljósri kennd eða óhaggandi fullvissu, hefur síðan í för með sér lotningu fyrir lífinu í öllum þess myndum og ábyrgð gagnvart umhverfinu í víðasta skilningi. Trú í mínum huga er því ekkert sérlega andleg. Hún er miklu fremur félagsleg og vistfræðileg eins og áður var drepið á.

Harður dómur?

Mörgum kann að virðast sem ég hafi farið hér ómjúkum höndum um rit Bjarna E. Guðleifssonar sem spannar ómælisvíddirnar milli örveranna og Guðs. Það er leitt ef svo er. Í bókinni gerir hann heiðarlega tilraun til að sætta það sem mörgum virðast ósamræmanleg fyrirbæri, þ.e. raunvísindalega þekkingu og kristna trú. Í því efni vaða svo sannarlega uppi yfirborðslegar og grunnhyggnar skoðanir og það er sérstakt þakkarefni ef einhver reynir að takast á við það viðfangsefni af reisn. Það hefur Bjarni Guðleifsson vissulega leitast við að gera. Rit hans kann líka að hjálpa mörgum sem glíma við svipaðar vangaveltur og hann.

Hér var öllu þessu púðri aðeins eytt til að benda á að hér er um flókin mál að ræða sem svo sannarlega má nálgast út frá fleiri en einni hlið. Klassískur „deismi“ í nútímaútgáfu þarf ekki að vera besta leiðin til að ná því markmiði sem Bjarni lagði upp með.

[line]
[1] Um bók Bells sjá Hjalti Hugason, „Er hægt að tala um Guð?“, hugras.is, 20. september 2016 sótt 19. desember af https://hugras.is/2016/09/er-haegt-ad-tala-um-gud/
[2] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 12
[3] „Yfirheyrslan: Vigdís Diljá“, Akureyri Vikublað, 1. desember 2016 2016, bls. 8.
[4] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 14, sjá og 43.
[5] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 17–18.
[6] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 19.
[7] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 59.
[8] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 13.
[9] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 7.
[10] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 12.
[11] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 33.
[12] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 41.
[13] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 42, sjá og 85.
[14] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 58, 85.
[15] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 59.
[16] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 60, sjá ennfremur 62–63, 85–86. Hér skal tekið undir með bókarhöfundi að ótækt er að stilla kenningum um Miklahvell og sköpun upp sem algjörum andstæðum. Sjá t.d. Hjalti Hugason, „Guð eða Mikilhvellur?“, hugras.is, 30. janúar 2016, sótt 19. desember 2016 af https://hugras.is/2016/01/gud-eda-miklihvellur/.
[17] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 60 sjá og 79. Sjá t.d. Hjalti Hugason, „Öðruvísi stríðsárabók“, hugras.is, 4. janúar 2016, sótt 19. desember 2016 af https://hugras.is/2016/01/odruvisi-stridsarasaga/.
[18] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 79 sjá og 80–81, 85.
[19] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 12.
[20] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 82–83.
[21] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 7.
[22] Bjarni Guðleifsson, „Öreindirnar“, bls. 60, 79, 82.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila