Allir myrða yndið sitt

Jólasýning Þjóðleikhússins og Vesturports er meistaraverk Williams Shakespeare um hinn afbrýðisama Mára Óþelló og harmræn örlög hans. Leikstjóri er Gísli Örn Garðarsson.

Náttúra – ónáttúra

othelloSýningin hófst á því að Óþelló kemur inn á sviðið og fellir risastórt grenitré sem vex upp úr svörtum sandi. Áhorfendur höfðu þá horft nokkuð lengi á það, glæsilega lýst með þremur ofanljósum sem bjuggu til fíngert samspil ljóss og skugga. Lýsingin í verkinu var raunar afar fagurlega gerð af Halldóri Erni Óskarssyni. Undir þessu sjónarspili gafst áhorfendum líka tækifæri til að dást að tónlist Björns Kristjánssonar, Borkó, sem einnig sá um hljóðmynd með Kristjáni Sigmundi Einarssyni.

Eftir hina táknrænu opnun um manninn sem ræðst gegn rótum sínum eða náttúrunni eða lífinu sjálfu er skipt um svið fyrir opnum tjöldum. Gríðarmikill plastheimur verður til á sviðinu, hliðartjöld úr plastræmum, plastþak í bylgjum í loftinu. Þetta var tilkomumikið, fallegur og kaldur rammi um veröld svika, undirferlis, losta og dauða og þessi leikmynd er verk Barkar Jónssonar.

Aðlögun

Svo mikið hefur verið skrifað og talað um verk Shakespeares að erfitt getur orðið að segja eitthvað nýtt um þau og í ofanálag hafa þau verið linnulaust á dagskrá allt árið 2016 á 400 ára ártíð skáldsins.

Sýningin er róttæk endurvinnsla eða afbygging á harmleik Shakespeares.
Flestar nútímauppfærslur á þessum gömlu verkum eru aðlaganir og mismiklar breytingar gerðar á upphaflega verkinu. Þær sem styst ganga eru styttingar á frumgerð en haldið er trúnaði við hana í öllum aðalatriðum. Stundum er gengið lengra í endurvinnslu og tilfærslu á frumgerð og lengst þegar segja má að sett sé upp nýtt verk, sem notar frumverkið eins og hugmyndabanka.

Óþelló í leikgerð Gísla og leikhópsins lendir að mínu mati einhvers staðar á milli tveggja seinni möguleikanna. Sýningin er róttæk endurvinnsla eða afbygging á harmleik Shakespeares. Í henni er Óþelló tekinn niður af hetjustalli sínum og verður að einhverju leyti fórnarlamb eigin karlmennskuhugmynda. Jagó er leikinn af konu sem á margvíslegra harma að hefna. Textinn er styttur, bætt inn í hann og hann er grófari en frumtextinn og fyrri þýðingar verksins á íslensku. Leikendum er fækkað úr fjórtán í níu. Leikritið er fært inn í nútímann í allri umgjörð, tímalausum búningum og nútímalegum innskotum.

Femínismi

Óþokkinn Jagó er hér kvenhlutverk eins og áður sagði, leikinn af Nínu Dögg Filippusdóttur. Þessi kynusli kostar nokkrar tilfæringar í texta en færri en búast mætti við. Það er gengið framhjá hinni metnaðarfullu Jagó þegar Óþelló gerir Kassíó að liðsforingja sínum þó hún hafi meiri reynslu og betri meðmæli. Hún er í hefndarhug. Henni dugir ekki að hefna sín á keppinautnum Kassíó heldur skal herforinginn Óþelló líka farast. Ýmis mynstur í textanum breytast við þetta, eiginkona Jagós verður til dæmis að hverfa en það skiptir ekki öllu máli.

othello2

Meira máli skiptir að næstruddalegustu karlrembutextar þessa verks (Óþelló er í fyrsta sæti) eru lagðar í munn Jagó. Nú geta konur hæglega verið valdasjúkir ruddar og illmenni eins og dæmin sanna. Nína Dögg Filippusdóttir bjó til verulega samviskulausan óþokka sem spilar á afbrýðisemi Óþellós. Hún lék frekar lágstemmt og framsögn hennar var mjög góð. Það er skemmtileg sena í seinni hlutanum þegar þær Desdemóna bera saman afleita stöðu og möguleika kvenna í þessu leikriti. Það er jafnframt eina skiptið sem einhvers konar „kvenleiki“ kemur fram hjá Jagó. Þriðja konan í sýningunni, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, „hóra Kassíós“, átti stutta en eftirminnilega innkomu inn í það kvennatal.

Nína Dögg Filippusdóttir bjó til verulega samviskulausan óþokka sem spilar á afbrýðisemi Óþellós.
Desdemóna er leikin af Aldísi Amah Hamilton, ungri og hæfileikaríkri leikkonu sem fær enn erfiðara hlutverk en Jagó í nútímafærslu leikritsins. Sakleysi hennar er teflt gegn girnd og tortryggni valdamikils karls í verki Shakespeare. Hér treður hún upp og sýnir erótískt dansatriði í eigin brúðkaupi fyrir gráðug augu gestanna og þó Aldís færi afar vel með það atriði skildi ég ekki tilganginn með því og sennilega ekki Óþelló heldur.

Márinn

Óþelló Shakespeares er harmleikur og hetjusaga af þeim hraustasta og djarfasta meðal herforingja sem hefur einn veikleika, ástina, sem hinn slægi og grimmi rógberi Jagó notar sér til að fella hann. En hann hefur líka annan „veikleika“ sem undirmenn hans og aðalsmenn í Feneyjum vita vel af og koma oft að. Óþelló Shakespeares er hátt settur og valdamikill. Honum er treyst fyrir vörnum Feneyja þó hann sé ekki heimamaður, heldur þeldökkur Máritaníubúi, og því á hann marga óvildar- og öfundarmenn. Brabantíó, faðir Desdemónu og góðborgari í Feneyjum fer þar fremstur í flokki. Hann er leikinn af Birni Hlyni Haraldssyni sem minnti á Don Correleone á efri árum! Ég þekkti hann ekki fyrst.

Óþelló er leikinn af Ingvari E. Sigurðssyni, og það skapar stundum misræmi í textanum þegar Óþelló talar um sig sem svartan. En með valinu á þessum leikara fylgir annað misræmi sem máli skiptir, hann er næstum þrjátíu árum eldri en Desdemona Aldísar. Áherslan er sem sagt í þessari leikgerð færð frá kynþætti Márans yfir á ást og afbrýði hans þar sem kynslóðabil skiptir máli.

othello3

Þetta er að mörgu leyti snjallt. Margir túlkendur verksins hafa verið ósáttir við trúgirni Óþellós og það hve auðveldlega hann fellur fyrir rógi Jagós en það verður meira sannfærandi ef aldursmunurinn er veikur punktur hjá honum og óttinn við samkeppni  yngri manna er til staðar frá upphafi.

Áherslan er sem sagt í þessari leikgerð færð frá kynþætti Márans yfir á ást og afbrýði hans þar sem kynslóðabil skiptir máli.
Óþelló er stríðshetja en við sáum valdsmanninum sjaldan bregða fyrir en þeim mun meiri áhersla var lögð á nýuppgötvaðar tilfinningar hans og hamingju, sorg fremur en reiði eftir að sneyðist um traust á konunni. Hann var oft fáklæddur, á nærbuxum einum eða jafnvel nakinn og liggur eftir í fósturstellingum þegar Jagó þjarmar mest að honum með rógi sínum.  Spurningin er hins vegar hvort þessi afbygging á hetjunni og áherslan á augljósa veikleika hennar afbyggi ekki harmleikinn samtímis.

othello4

Líkaminn og þýðingin

Búningar Sunnevu Ásu Weisshappel voru fantagóðir. Sviðssetningin öll einkenndist af naumhyggju, svartar sandhrúgurnar nýttust sem leikmunageymsla og margt fleira. Tveimur klefum með hálfgegnsæjum plasthliðum var rennt inn á sviðið eftir þörfum. Annar var lítill kamar, sem var óspart notaður í misgrótesku spaugi.

Að hætti Vesturports var mikil hreyfing á sviðinu, leikið kringum og uppá kössunum og farið inn í þá og gegnum þá á marga vegu.
Hitt var ýmist stofa eða svefnherbergi þeirra Óþellós og Destemónu. Svona kassar verða nánast eins og leiksvið á leiksviðinu og að hætti Vesturports var mikil hreyfing á sviðinu, leikið kringum og uppá kössunum og farið inn í þá og gegnum þá á marga vegu. Lokasenan var áhrifamikið myndverk; kassanum sem rúmaði svefnherbergi hjónanna var lyft upp á einu horninu svo hin myrta stúlka í hjónasænginni og dauður maður hennar blöstu við í skekktri en merkilega fagurri mynd.

Shakespeare skrifaði fyrir áhorfendur úr öllum stéttum samfélagsins og passaði sig á því að hafa alltaf „alþýðlega“ kafla í verkum sínum til þess að stríða fína fólkinu og hrella penpíur. Í þessari uppfærslu á Óþelló er skotið inn femínísku „trúnó“ Desdemónu og Jagós eins og áður sagði, innskotum með vísun til útlendingahaturs á Íslandi í dag og fleiri lausum og föstum skotum á pólitík dagsins og hlutverk leikhússins. Það var bráðskemmtilegt.

Hallgrímur Helgason hefur unnið magnað verk og í þýðingu hans eru ákaflega fallegir kaflar
Það er ekki á hvers manns færi að þýða verk Williams Shakespeare með öllum sínum orðaleikjum, myndmáli og í bundnu máli þar á ofan. Hallgrímur Helgason hefur unnið magnað verk og í þýðingu hans eru ákaflega fallegir kaflar, hljómfagrir, fyndir og undirfurðulegir – en líka nokkrir sem bæta heldur í dónaskapinn. Það er í anda uppfærslunnar en kamarspaug er vandmeðfarið og verður það sjálfsagt alltaf. Það væri áhugavert verkefni að bera saman gamlar og nýjar þýðingar á Óþelló.

Óþelló Vesturports er stórglæsileg og vel leikin sýning, frumleg aðlögun á verki Shakespeare – en skýtur ef til vill stundum yfir markið. Um það dæma þó áhorfendur að lokum.

Ljósmyndir við grein: Eddi (Eggert Jonsson)

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila