Óraunhæf lausn á flóttamannavanda

Hege Storhaug
Þjóðaplágan íslam
Magnús Þór Hafsteinsson þýddi
Tjáningarfrelsið, 2016
Flóttamannastraumurinn til Evrópu á undanförnum misserum getur vel boðað nýja þjóðflutninga sem ekki verði séð fyrir enda á í bráð. Innflytjendabylgjurnar á 20. öld voru tíma-, stað- og aðstæðubundnar. Fólk frá fyrrum nýlendum Evrópuríkjanna notuðu tækifæri sem gáfust til að flytja inn á herraþjóðirnar og njóta einhvers af þeim gæðum sem meðal annars höfðu verið sótt til heimalanda þess. Aðrir komu til að ganga í þau störf sem við sem fyrir vorum litum ekki við. Svo börðu pólitískir flóttamenn sem og fólk frá stríðshrjáðum svæðum auðvitað upp á. Hver hópurinn leysti annan af hólmi og bylgjurnar gengu yfir. Nú kunna málin að horfa öðru vísi við.

Flóttamannastraumurinn boðar að tími uppgjörs sé runninn upp. Lengur verður ekki unað við misskiptinguna ætli mannkyn að eiga framtíð fyrir sér við sæmilega friðsamlegar aðstæður.
Allur sá tími sem kenndur er við nýöld eða nútímann (ca. 1750–1950) — skeið landafunda, nýlendustefnu, iðn- og tæknibyltingar — má líta á sem tímabil rányrkju í umgengni Vesturlandabúa við náttúruna og arðráns þeirra gagnvart stórum hluta mannkyns. Á þennan hátt hafa andstæður norðurs og suðurs aukist stöðugt og misskipting jarðargæða sem mannkyn á í sameiningu orðið augljósari með alþjóðavæðingunni. Munurinn á ríkum og fátækum í heimsþorpinu er nú svo hrópandi að ekki verður með nokkru móti varið né umborið áfram. Það er þessi veruleiki sem býr að baki umræðum um „efnahagslega flóttamenn“ sem virðast mæta litlum skilningi og takmarkaðri samúð. Stærstur hluti þeirra lifir við örbirgð á heimaslóðum og leitar nú framtíðar og réttlætis þar sem allsnægtirnar og auðurinn — að miklum hluta ránsfengur — hefur safnast fyrir.

Flóttamannastraumurinn boðar að tími uppgjörs sé runninn upp. Lengur verður ekki unað við misskiptinguna ætli mannkyn að eiga framtíð fyrir sér við sæmilega friðsamlegar aðstæður.

Gjörbreyting vestrænnar menningar?

Auðvitað hafa þjóðflutningarnir þegar haft áhrif á samfélög Vesturlanda ekki síst í Evrópu og mun bara hafa aukin áhrif í nánustu framtíð. Raunar má vel vera að menning okkar hafi þegar náð hápunkti sínum. Framundan kann að vera hnignun eða hrun vestrænnar menningar eins og við þekkjum hana nú.

Um þetta er raunar ekki svo mikið að segja í stóra samhenginu. Áður hafa menningarsvæði hafist og liðið undir lok. Ekkert segir að svo verði ekki líka með þá menningu sem hefur fóstrað okkur og við köllum okkar. Það er engin ástæða til að ætla að við höfum fundið besta hugsanlega mátann til að reisa á sambúð fólks eða að hinn vestræni maður og menning hans sé kóróna sköpunarverksins. Við kunnum að óttast róttækar breytingar og hugsanlegt hrun á samfélagsgerð okkar. Komi til þess verðum við aðeins að horfast í augu við að við verðum ekki fyrst til að lifa slíkt skeið. Þvert á móti fjallar mannkynssagan öðrum þræði um breytingar af þessu tagi. Sú saga verður ekki um eilífð okkur í vil.

Þessi orð eru ekki hugsuð sem einhvers konar dómsdagsspá. Þvert á móti. Ég sem þetta rita er sannfærður um að mögulegt sé að lifa góðu, merkingarbæru og tilgangsríku lífi þrátt fyrir að kjör okkar kunni að breytast á róttækan hátt við nýja skiptingu jarðargæða. Nýjar kynslóðir geta vaxið úr grasi og öðlast mannsæmandi tilveru. Ef uppgjörið sem nú stendur yfir tekst vel má einmitt vera að fleiri muni njóta sín og það víðar um heim en nú er raun á. Ein af forsendum þess er þó að spenna minnki milli ólíkra menningarsvæða, unnið verði gegn gagnkvæmum fordómum, andúð og jafnvel hatri og leitast verði við að finna nýjar leiðir til að byggja upp betri heim. — Besta leiðin til þess er opin, djúp og breið en umfram allt kærleiksrík umræða.

Þjóðarplágan íslam

Umræðu á borð við þá sem hér er lýst eftir hafa aðstandendur bókarinnar Þjóðarplágan íslam ekki áhuga á að stunda. Á ég þar við höfundinn, norsku fjölmiðlakonuna Hege Storhaug, Magnús Þór Hafsteinsson sem þýtt hefur bókina og samtök(?) sem kenna sig við Tjáningarfrelsið og gefa bókina út. Hugsanlega líta þeir svo á að hér sé um umræðubók að ræða, jafnvel innlegg í umræðu af ofangreindu tagi. Raunin er þó önnur. Þetta er barátturit sem keyrt er áfram af miklum ákafa til að vekja athygli á einu máli og einkennist því miður af miklum ótta sem er ekki góður grunntónn í opinni umræðu.[pullquote type=”right”]Þetta er barátturit sem keyrt er áfram af miklum ákafa til að vekja athygli á einu máli og einkennist því miður af miklum ótta sem er ekki góður grunntónn í opinni umræðu.[/pullquote]

Í stuttu máli eru viðhorf höfundarins þau að það geisi stríð í Evrópu, að þegar hafi fjölmenn svæði tapast, þ.e. þau borgarhverfi þar sem flestir innflytjendur eru búsettir og að aðeins séu örfá ár þar til við sem sátum á fleti fyrir munum bíða endanlegan ósigur.

Ég ætla ekki að gera neinum til hæfis með því að stimpla Hege Storhaug og samverkamenn hennar hér á landi sem „íslamófóba“ eða halda því fram að þau óttist trúarbrögðin íslam sem slík. Það verður hver lesandi að meta fyrir sig. Óttinn beinist frekar að breytingunni sem lýst var hér framar. Þau óttast að framundan bíði hrun vestrænna gilda og menningar. Ég held því aftur á móti fram að það sé að miklu leyti undir okkur sjálfum komið, því hvernig við mætum aðkomufólkinu, hvort við reynum að kynnast aðstæðum þeirra og bakgrunni eða hvort við lítum á þau sem óvini í stríði líkt og Storhaug gerir.

Þjóðarplágan fjallar ekki um íslam

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að Hege Storhaug fjallar alls ekki um íslam í bók sinni og raunar er það líklega helsti kostur hennar. Höfundurinn hefur enga þekkingu, forsendur né áhuga á að gera grein fyrir trú múslima. Þegar hún nálgast það viðfangsefni mest byggir hún einkum á ritum sænska sagnfræðingsins Carls Grimberg (f. 1875) sem á sinni tíð samdi heimssögu í fjölda binda og varð með því alþýðufræðari heilla kynslóða sem nú eru að mestu horfnar. Rit hans geta þó ekki talist traustur grunnur á okkar dögum. Þá leitar hún fanga hjá Bertrand Russel og Winston Churchill. Ekki skal efast um ágæti þeirra á sínum sviðum og á sínum tíma. Hæpið er þó að dómar þeirra eða fordómar um íslam hafi eitthvert sérstak gildi nú á dögum eða eigi brýnt erindi við okkur.

Þar með tekur hún skrefið út úr því sem kalla má málefnalega umræðu og gerir rit sitt að því barátturiti gegn íslam í öllum myndum sem það í raun er.
Að vísu leggst Storhaug í örlitla könnun á trúartextum múslima en stundar þá einkum útreikninga á mismunandi hlutföllum „harðs“ og „mjúks“ boðskapar í Kóraninum og öðrum helstu helgiritum. Slíkt segir þó lítið. Til samanburðar má geta þess að Gamla testamentið sem mörgum þykir ansi „hart“ fyllir tæpar 1240 bls. í Biblíunni (útgáfunni frá 2007) en Nýja testamentið rúmar 340 bls. Hugsanlega líta heldur ekki allir svo á að í Nýja testamentinu sé aðeins „mjúkan“ boðskap að finna. Mergurinn málsins er að hlutfallareikningur af þessu tagi er út í hött. Ef nálgast á árþúsundagamla trúartexta verður að beita ritskýringu og textatúlkun sem líkleg sé að leiða upprunalegan boðskap í ljós en hann þarf síðan að heimfæra upp á daginn í dag eigi einhver merking að fást.

Felist kostir Þjóðarplágunnar í að lesendum sé að mestu hlíft við útlistunum á íslams-trú af viðlíka tagi og hér er bent á felst stærsti annmarki bókarinnar í að höfundur hafnar því að gera greinarmun á íslam annars vegar og íslamisma og/eða öfga-íslam hins vegar. Þar með tekur hún skrefið út úr því sem kalla má málefnalega umræðu og gerir rit sitt að því barátturiti gegn íslam í öllum myndum sem það í raun er. Það dregur svo auðvitað mjög úr gildi bókarinnar.

Félagslega sýn skortir

Annar galli á bókinni er að höfundurinn spyr aldrei stórra, ágengra og félagslega meðvitaðra spurninga um orsakir og skýringar þess ástands sem hún telur — að sumu leyti með réttu — að upp sé komið í ýmsum löndum Evrópu. Hún spyr ekki hverjar séu hinar undirliggjandi skýringar á innflytjenda- og flóttamannastraumnum sem nú gengur yfir né heldur hver okkar hlutur sé í því efni. Hún spyr heldur ekki hverjar séu hinar raunverulegu félagslegu skýringar þess að innflytjendur séu orðnir í meirihluta í ýmsum borgarhverfum Evrópu né heldur hvaða félagssálfræðilegu afleiðingar það hefur fyrir heilar kynslóðir að alast þar upp. Hún virðist þeirrar skoðunar að allir hafi frjálst val um hvort þeir setjist að í Arnarnesjum eða Breiðholtum álfunnar og fólki sé sjálfu um að kenna ef það einangrast í gettóum samtímans. Þá er henni umhugað um að sýna fram á af hve opnum huga t.d. landar hennar Norðmenn hafi tekið innflytjendum. Hún virðist heldur ekki meta til fulls áhrif þess að hin betur stæðu flytja milli borgarhverfa og velja börnum sínum sérskóla af ýmsu tagi til að verjast þeirri mengun sem þeim finnst sækja að einsleitri há- og millistéttatilveru þeirra.

Úrræðin

Ég las þessa löngu útleggingu Hege Storhaug á neyðarástandinu sem hún telur að ríki í Evrópu með vaxandi óþoli yfir því hve djúpt var á úrræðum eða aðferðum til að bregðast við þeim vanda sem vissulega er á ferð. Undir blálok bókarinnar grillir þó í lausn hennar á vandanum. Áður en þar að kemur tekur hún þó fram „[…] að það sé orðið of seint að gera gangskör að því að lagfæra hlutina með mildum aðgerðum“ (bls. 415).

Ég las þessa löngu útleggingu Hege Storhaug á neyðarástandinu sem hún telur að ríki í Evrópu með vaxandi óþoli yfir því hve djúpt var á úrræðum eða aðferðum til að bregðast við þeim vanda sem vissulega er á ferð.
Fyrsta úrræðið sem Storhaug nefnir er að stjórnvöld sendi „[…] herlið til að koma skikki á töpuðu svæðin og vísa fólki úr landi […]“ (bls. 417). Athygli skal vakin á að höfundurinn á hér við borgarhverfi þar sem löglegir innflytjendur hafa búið jafnvel kynslóðum saman. Hér ræðir hún því um hernað Evrópuríkja gegn eigin þegnum. Það vekur athygli að Storhaug sem kynnir sig sem mikinn baráttumann mannréttinda telur þetta úrræði ekki afdráttarlaust óásættanalegt heldur aðeins „nánast óásættanlegt“ (s.st.). Vart er mögulegt að líta svo á að með þessu sé mælt með aðferðum réttarríkisins til að bregðast við félagslegum vanda sem vissulega er til staðar.

Lausnin sem Storhaug mælir með er þó að „[…] stöðva förufólksstrauminn sem nú á sér stað inn í Evrópu“ (bls. 417). Þetta vill hún gera með því að vísa fólki frá landamærum álfunnar og reisa einhvers konar búðir, „móttökustöðvar“, fyrir fólk í Afríku, Miðausturlöndum og Asíu og „[…] auka frekar hjálpina á heimasvæðum fólks“ (s.st.).

Raunhæft úrræði?

Úrræði þessu lík hafa vissulega oft verið rædd og kunna að hljóma vel. En er þetta raunhæf lausn og líkleg til að takast? Er ekki umfram allt of seint að reyna að beita henni? Þetta er einhliða aðgerð á okkar forsendum, varnarbarátta forréttindafólksins. Úrræðið miðar ekki að raunverulegri lausn á vandanum sem við er að glíma, misskiptingunni og ranglætinu, heldur er hér bent á leið sem miðar að því að halda óbreyttu ástandi, status quo.

Þetta er einhliða aðgerð á okkar forsendum, varnarbarátta forréttinda-
fólksins. Úrræðið miðar ekki að raunverulegri lausn á vandanum sem við er að glíma, misskiptingunni og ranglætinu, heldur er hér bent á leið sem miðar að því að halda óbreyttu ástandi.
Við skulum alla vega gera okkur grein fyrir að hér verður ekki um neina þrifalega þróunaraðstoð að ræða sem við getum safnað fyrir á sunnudögum. Hege Strohaug nefnir heimkynni fólksins sem nú er á flótta gjarna ónýt ríki. Hjálpinni sem hún vill beita á „heimasvæðunum“ verður því ekki við komið öðru vísi en farið verði inn í þessi ríki og þá líklega með vopnavaldi til að koma „þar á skikki“. Ætli árangurinn yrði ekki eins og vant er: sundursprengdir innviðir, skólar og sjúkrahús, ónýt vegakerfi og vatnsveitur, samfélög í rústum — og í framhaldinu enn fleira fólk á flótta.

Ekki verður því betur séð en Hege Storhaug, Magnús Þór Hafsteinsson og Tjáningarfrelsið bjóði upp á alls óraunhæfa lausn á flóttamannavandanum og ali fremur á andstæðum milli samfélagshópa í Evrópu en dragi úr þeim. Þjóðarplágan íslam getur því varla talist þörf bók hér á landi þar sem einsleitni þjóðfélagsins er jafn mikil og raun ber vitni og ótti við hið óþekkta á svo greiða leið að þjóðarsálinni.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila