Mynd af kápu bókarinnar

Ólíkir þræðir hnýttir saman

Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Tungusól og nokkrir dagar í maí
Mál og menning, 2016
Sigurlín Bjarney hefur getið sér gott orð fyrir ljóð, smáprósa og smásögur síðustu ár en fyrsta bók hennar Fjallvegir í Reykjavík kom út árið 2007. Tungusól og nokkrir dagar í maí sem er nýútkomin er hennar sjötta bók.

Bókin er ekki nema að hluta til ljóðabók því að hún skiptist í þrjá hluta, þann fyrsta og þann þriðja mætti kalla smáprósa en þeir hlutar eru brúaðir með ljóðum. Fyrsti hlutinn nefnist Látra-Björg á vergangi, sem er lýsandi fyrir efni hans. 300 ár eru liðin frá fæðingu þessarar þjóðsagnakenndu skáldkonu, Látra-Bjargar, en ósagt skal látið hvort þau tímamót hafi áhrif á efnistök Sigurlínar. Þessi kafli samanstendur af eins konar dagbókarfærslum Látra-Bjargar sem var fræg af kveðskap og endaði líf sitt sem flökkukona. Raunar er lítið vitað fyrir víst um líshlaup Látra-Bjargar sem bjó lengst af á Látrum á Látraströnd og lést 68 ára, ógift og barnlaus. Þekktar eru sögur af því að hún hafi sótt sjóinn og ekki staðið fullhraustum karlmönnum að baki. Það er ekki að undra að skáld hafi, bæði fyrr og nú, sótt innblástur í sögusagnir af Látra-Björgu og kveðskap hennar.

Þessi upphafshluti bókarinnar er þannig býsna vel heppnaður og hefði að ósekju mátt vera lengri, höfundur er vel fær um að blása nýju lífi í sögulegt efni.
Fyrsti hluti bókarinnar er mjög kröftug byrjun og grípur lesandann undir eins. Textinn er sannfærandi, Látra-Björg stendur manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Hún mælir í fyrstu persónu, eins og við má búast í dagbókarslitrum, og þó að Sigurlín byggi á heimildum og sögum af Látra-Björgu birtist hér ný og fersk túlkun á henni. Samúðin kviknar í síðustu færslum þar sem líður að andlátinu og er um leið nöturleg lýsing á lífi flökkufólks þegar Sigurlín dregur upp mynd af síðustu dögum Látra-Bjargar þar sem hún reikar ein á ferð. Þó að ekki séu öruggar heimildir til um ævilok hennar er talið að hún hafi dáið úr hungri á vergangi í móðuharðindunum og Sigurlín lýsir þessum örlögum:

Ég held af stað. Andliti bregður fyrir á steinum. Far þú til fjandans. Hjartað sekkur. Ég festi hyrnuna og held áfram. Allar ferðir enda einhvers staðar. Á einhverjum áfangastað þar sem er hlýja. Á upphafspunktinum. Vonandi. Ég skima eftir bæjum og mannaferðum en hér er ekkert nema auðn (11).

Þessi upphafshluti bókarinnar er þannig býsna vel heppnaður og hefði að ósekju mátt vera lengri, höfundur er vel fær um að blása nýju lífi í sögulegt efni.

Margbrotinn heimur kvenna er eins rauður þráður frá upphafi til enda.
Fyrsti hlutinn rammar einnig ágætlega inn bókina því að margbrotinn heimur kvenna er eins rauður þráður frá upphafi til enda. Í öðrum hluta bókarinnar, Tungusól, yrkir Sigurlín meðal annars um hannyrðir og víða birtist skemmtilegt myndmál tengt þráðum, prjónum og hekli. Þessi tónn er sleginn strax í fyrsta ljóðinu sem hún nefnir „Arfur“ og hefst á hárbeittri upptalningu á formæðrum sem lýkur svo:

Konur eru eins og blúndur og fjaðrir
mjúkar léttar viðkvæmar sterkar flóknar
þræddar í flækjuþráðum sem handahófið varpar fram í
fegurð (15)

Við tekur ljóðið „Þráðbjörg“ þar sem hún heldur áfram að flétta saman þræðiog kynslóðir kvenna í vel heppnuðu rímuðu ljóði.

Í ljóðunum ber einnig nokkuð á ást, ástarsorg, söknuði og missi. Sum eru þó nokkuð glettin og lúmskur húmor sem birtist af og til. Leikur að orðum og tvíræðni kallar þessa tilfinningu fram en með sama hætti tekst höfundi einnig að kalla fram sorgartilfinningu. Gott dæmi um það er ljóðið „Harmdögg“ (36–37) þar sem höfundi tekst á mjög einfaldan en sniðugan hátt að lýsa „þjóðarharmi“. Öll eru ljóðin skrifuð á fallegu máli og aðgengileg en kannski er helsti galli þessa hluta að hann er fremur jafn án þess að nokkurt ljóð rísi hærra en önnur.

Í síðasta hluta bókarinnar, Nokkrir dagar í maí, kveður við nokkuð annan tón en í þeim tveimur fyrri. Formið kallast þó á við fyrsta hlutann því að hér eru aftur eins konar dagbókarfærslur en þó með mjög ljóðrænu ívafi. Þessar færslur lýsa hins vegar á mjög opinskáan hátt innra lífi dagbókareigandans sem glímir meðal annars við ástarsorg og móðurmissi; að því er virðist hvort tveggja í einu:

Síminn var þungur þegar ég hringdi í bræður mömmu. Að tilkynna andlát í síma er eins og að senda raddað húðflúr inn í heilann, að stöðva tímann í andartak sem aldrei gleymist. Breytt landslag í höfðinu, lífinu.

Í dag eru þrjár vikur síðan trjámaðurinn yfirgaf mig. Hann settist við eldhúsborðið mitt og sagðist þurfa að fara … Ég vildi bara segja þér, kæri trjámaður, að stíflan er brostin. Ég sakna þín. Sakna okkar. Það sem tvær sálir skapa saman verður aldrei endurtekið. Aldrei. Hvergi (52)

Í þessum hluta reynir nokkuð á lesandann því að margt er sagt umbúðalaust, á köflum gróteskt, og tilfinningin fyrir því að hafa opnað dagbók í leyfisleysi hvarflar ef til vill að einhverjum. Hér birtist fín lína á milli einlægni og væmni sem höfundi tekst ekki alltaf að feta en það gerir lesturinn á köflum óþægilegan, mælandi dagbókarinnar er stundum uppáþrengjandi, í það minnsta fyrir þá sem sækjast almennt ekki eftir efni sem er þrungið tilfinningasemi.

Þó að vafalaust mætti slípa skrifin aðeins hér og hvar sýnir þessi bók þegar upp er staðið að rödd Sigurlínar er mikilvæg í íslenskum bókmenntaheimi. Hér skrifar hún almennt af miklu innsæi um reynsluheim kvenna á vönduðu og litríku máli.

Um höfundinn
Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir er doktor í íslenskum bókmenntum og stundakennari við Íslensku‐ og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið hennar er íslenskar miðaldabókmenntir. Sjá nánar

[fblike]

Deila