Af veður- og fortíðarþrá

Hugras_Oljos_thra1Tíminn og veðrið eru viðfangsefni Jónu Hlífar Halldórsdóttur á sýningunni Óljós þrá í Grafíksalnum að Tryggvagötu. Efniviðurinn endurspeglar það. Um er að ræða annars vegar traustleg veggverk úr áli eða marmara og misveðruðum kopar og hins vegar viðkvæmnislegan skúlptúr í miðju rýminu; samsafn lítilla hluta eða sýnishorna úr náttúrunni, til dæmis pappír, steina, silkibúta, lifandi kaktus og þurrkuð blóm, sem raðað er með natni á þrjú há og mjó, þrífætt tréborð.

Veggverkin eru öll textaverk, enda hefur Jóna Hlíf lengi unnið með orð og texta í myndverkum sínum. Í koparplötur, sem hún lét tærast úti í íslensku veðri í nokkra daga, hefur hún sagað út stutta texta sem tengjast tímanum. Textarnir eru settir upp eins og línur í ljóði og má þar m.a. finna vísun í eina þekktustu veðurvísu Íslands, eftir Jónas Hallgrímsson, sem hljóðar svo:

Hugras_Oljos_thra2Veðrið er hvorki vont né gott
varla kalt og ekki heitt
það er hvorki þurrt né vott
það er svosem ekki neitt.[1]

Í verki sínu heldur listakonan áfram með þessa hugmynd og bætir við nýrri vídd, tímanum: „Án minnis er tíminn / rétt eins og veðrið / svo sem ekki neitt“. Samþætting veðurs og tíma einkennir alla sýninguna og samspil hins að því er virðist óhagganlega, endingargóða, óflekkaða marmara og koparsins, sem halda mun áfram að tærast og breytast eftir því sem tíminn líður, er vel heppnað. Það lýsir m.a. togstreitunni milli óljósrar þrár okkar eftir varanleika og þeirri staðreynd að „Tíminn veðrar / sálina / Lífið drepur / tímann“. Efni og tími vinna þannig saman í þessum verkum og togast jafnframt á.

Hugras_Oljos_thra3Það sama gildir um efnivið listamannsins og orðin sem hún notar; þetta tvennt spilar saman og togast á í baráttu sinni við tímann. „Vatnið  máir steininn / orðin söm við sig“ segir á nokkuð frísklegri koparplötu og á annarri mun veðraðri við hliðina á stendur: „Steinninn máir tímann / orðin söm við sig“. Hér er m.a. vísað til þess að hin óefnislegu orð geta staðist tímans tönn mun lengur en efni sem veðrast og eyðist, enda munu útskorin orðin á koparplötunum haldast lengi óbreytt þótt áferð koparsins breytist smám saman. Tíminn og efnið má ef til vill hvort annað en orðin standa óhögguð af bæði tíma og efni. Á sama tíma sækir sýningin innblástur í bókina Veðurfræði Eyfellings, greinargerð um veður og veðurmál undir Eyjafjöllum, sem Þórður Tómasson frá Vallnatúni gaf út árið 1979[2] og er að einhverju leyti viðbragð við forgengileika orðanna; því að orðaforði fyrri kynslóða yfir veður, sem var „með ólíkindum mikill“, sé nú „að fjúka út í veður og vind“. Þórður kemur þessum orðum í efnislegan búning, sem prentsvertu á blaðsíður bókar, í tilraun til að halda þessu gamla „veðurmáli […] til haga fyrir seinni tíma“.[3]

 

Jóna Hlíf ólst sjálf upp undir Eyjafjöllum og þekkir vel bæði veðurfarið þar og hina sterku hefð að hyggja stöðugt að veðri og spá í skýin. Þórður lýsir því svo í inngangi bókar sinnar: „Veðurútlit var ráðið af láði og legi, af útliti loftsins í blikum og skýjafari og heiðríkju, af atferli lífsins frá æðsta stigi til hins lægsta. Forvitri maður byggði veðurspá sína á hugboði og draumum og sá þá oft langt inn í komandi tíð. Líkami mannsins gat orðið honum nokkurs konar loftvog, ekki síst, er þreyta og gigtarstingir tóku að hrjá hann.“[4] Hlutverk veðursins og hugleiðinga um veðrið í daglegu lífi okkar, veðurtengdur orðaforði, hjátrú og búverk, er viðfangsefni orðanna á hvítum veggverkum úr áli og þá sérstaklega staðbundið veðurfar og kúnstin að þekkja inn á veðurfar ákveðins staðar og búa því sess innan tungumálsins og menningarinnar. Jóna Hlíf tekur þannig þátt í að varðveita falleg og sérstæð orð eins og þerrifluga og deyfutíð og halda þeim í notkun. Verkin hanga á hvítum veggjum, hvít á hvítu, en orðin sjálf gefa þeim dýpt; þrívídd sem listakonan skapar með því að skera þau út í efnið. Að því leyti minna þau á skýin sem eru í raun veðrið sjálft efnisgert; hin sýnilega hlið annars óljósra veðrabrigða.

Hugras_Oljos_thra4

Jóna Hlíf hefur undanfarin tíu ár unnið textaverk sín náið með eiginmanni sínum, Hjálmari Stefáni Brynjólfssyni, og sömdu þau saman texta sem liggur frammi útprentaður á sýningunni. Textann kalla þau mónólóg og er hann settur fram sem brotakenndar, persónulegar vangaveltur um viðfangsefni sýningarinnar, til dæmis veður, tíma og orð sem vekja þrá – „hvort sem það er dauðaþrá eða fortíðarþrá, burtþrá, þrákelkni, veðurþrá eða heimþrá“.

Skúlptúrarnir í  miðjum salnum skapa svo eins konar orðalaust tilbrigði við stef sýningarinnar; þeir eru hlutbundin framsetning þess sem veðrast og eyðist í náttúrunni. Hins vegar gerir framsetningin, þar sem litlum hlutum er tyllt á viðkvæm borð, það að verkum að orðin á veggjunum eru í raun efnislega traustari. Togstreita og samspil hins varanlega og hins forgengilega, hins trausta og hins viðkvæma, og óljós mörkin þar á milli, eru þannig endurtekin á ýmsan hátt í sýningunni. Eftir situr óljós þrá okkar, eftir fortíðinni og eftir að varðveita hið forgengilega, að vinna gegn þeirri staðreynd að: „Tíminn liggur í eina átt / Enginn fær snúið / til baka“. En um leið er það ef til vill dauðaþráin og forgengileikinn sem skapar dýnamík sýningarinnar og gefur henni gildi.

[Ljósmyndir við grein: Vigfús Birgisson]
[line]

[1] Tekið úr bók Þórðar Tómassonar: Veðurfræði Eyfellings, Reykjavík, Bjartur, 2014, bls. 58.
[2] Bókin var endurútgefin með viðbótum fyrir tveimur árum.
[3] Þórður Tómasson: Veðurfræði Eyfellings, bls. 9-10 og 12.
[4] Sama rit, bls. 9.

Um höfundinn
Auður Aðalsteinsdóttir

Auður Aðalsteinsdóttir

Auður Aðalsteinsdóttir, ritstjóri Hugrásar, er doktor í bókmenntafræði við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands og hefur jafnframt víðtæka reynslu af menningarblaðamennsku.

[fblike]

Deila