Að breyta heimi

Listamenn láta sig venjulega málefni líðandi stundar varða. Listsköpun þeirra miðast oft að því að vekja fólk til umhugsunar um vankanta samfélaga og hvetja til breytinga í átt að betra lífi. Vandamálin sem sett eru á oddinn eru sjaldnast í minni kantinum. Unnið er með stór sammannleg málefni sem erfitt er að breyta nema með breyttu hugarfari. Verkið Dracula‘s Pack sem frumsýnt var í Tjarnarbíói 23. Júní 2016 var hér engin undantekning. Velt var upp spurningum um vald fólks yfir eigin lífi og hvað leiðir séu færar til að breyta heiminum.

Ljósmynd: Geirix
Ljósmynd: Geirix

Verkið byrjaði á fallegan hátt með því að sviðsmyndin fékk að njóta sín. Sviðið, sem var á misháum pöllum, rúmaði heila hljómsveit en gerði samt ráð fyrir góðu plássi fyrir dansinn. Hvítar línur á gólfinu og upp í loft sköpuðu mikla dýpt í sviðið. Framsetningin gaf tilfinningu fyrir að maður væri staddur í timburkirkju með háu risi og og tígulegu altari á gaflinum sem teygði geisla sína upp til guðdómsins.[pullquote type=”right”]Á sama tíma minnti uppsetningin á arkitektúr Guðjóns Samúelssonar þar sem form íslenska stuðlabergsins er í aðalhlutverki. [/pullquote]Á sama tíma minnti uppsetningin á arkitektúr Guðjóns Samúelssonar þar sem form íslenska stuðlabergsins er í aðalhlutverki. Þegar áhorfendur gengu í salinn barst þeim þrastarsöngur til eyrna og klukknastef Hallgrímskirkju tekinn upp á band. Smátt og smátt lifnaði skuggsýnt sviðið við en fyrst aðeins með því að reykur liðaðist inn á það og hóf sinn dans. Í kjölfarið varð vart við hreyfingu um allt sviðið líkt og veröld væri að vakna í morgunþokunni. Í upphafssenunni var dulúð ríkjandi. Hreyfingar sýnendanna sem smátt og smátt komu í ljós voru dýrslegar í ljósaskiptunum og hrifu mann með inn í ævintýraheim. En svo birti og í ljós komu ungir listamenn sem varfærnislega færðu sig yfir á sína staði, annað hvort við hljóðfærin eða á gólfinu. Dulúðinni var þar með lokið en í staðinn kom veruleiki þar sem listræn orð og hreyfingar tóku völdin við undirleik nútímalegra tóna.

Markmið Julietta Louste leikstjóra og danshöfundar með listsköpun sinni er að spegla samfélagsmál og hvetja til breytinga. Hennar sýn er að listin geti breytt fólki og fólk geti breytt heiminum. Þessi ætlan hennar birtist meðal annars í frösum á borð við: Getum við breytt eða getum við ekki breytt, hlustum á okkur sjálf, manneskjur eru meira virði en landamæri, ekkert fæst fyrir ekkert, fólk getur breytt heiminum, list getur breytt, menntun getur breytt (íslenskað af undirritaðri). Efnislega kom fátt nýtt fram í textanum sem fluttur var. Hann var klisjukenndur og svo almennur að hann hafði litla möguleika á að hrista upp í áhorfendum. Kóreógrafískur þáttur sýningarinnar var samt áhugaverður en vakti varla neinn eldmóð en var nokkuð áhugaverður áhorfs.

 

Framsögn á texta er nokkuð sem oft er ábótavant í dansverkum þar sem hreyfing, tónlist og framsetning texta fer allt fram á sama tíma. Merking hans fer þá fyrir ofan garð og neðan hjá áhorfendum og verðu í raun óþarfur. Hvernig fallið var í þessa gryfju í Dracula‘s Pack mátti sjá, þegar söngkonan flutti texta af blaði og í ræðu sem Juliette heldur á seinustu metrum verksins. Annars var framsögn textans skýr svo hvert orð komst vel til skila. Textanum var snyrtilega framborinn með litlum en áhugaverðum hreyfingum og saman sköpuðu orð og hreyfingar skemmtilega kóreógrafíska heild sem auðvelt var að njóta. Eintóna tónlist eða hljóðheimur sem hljómaði í verkinu sérstaklega í fyrri hlutanum var ekki ólíkur mörgu því sem heyrist í dansverkum nú um stundir. Þessi stíll höfðar ekkert sérstaklega til undirritaðar en það má frekar skrifa það á smekk en gæði.

Krafturinn í verkinu jókst til muna þegar líða tók á sýninguna og þá ekki síst vegna þess að þar varð tónlistarflutningurinn allur kröftugri. Þar mátti sjá einkar skondinn borðavals og flotta senu þar sem dansararnir og leikarinn sátu á (danslegum) rökstólum í kringum borð. Hér var ekki um neina nýjung að ræða í danssköpun en aftur á móti ágætt handverk. Í þessari senu má sjá tengingu við Græna borð þýska danshöfundarins Kurt Jooss sem var frumsýnt 1932 en í því verki sýndi höfundur hvernig dauðinn væri eini sigurvegari stríðsreksturs og gagnrýndi hvernig ráðamenn þjóða semdu um líf og lönd fólks við samningaborðið án tengsla við raunveruleika þess.

[pullquote type=”right”]Þegar litið er á verkið í heild má segja að rýmið var skemmtilega nýtt og handverkið við danssköpunina var með ágætum. Sviðsmyndin var áhugaverð og notkun lýsingar eftirtektarverð.[/pullquote]Þegar litið er á verkið í heild má segja að rýmið var skemmtilega nýtt og handverkið við danssköpunina var með ágætum. Sviðsmyndin var áhugaverð og notkun lýsingar eftirtektarverð. Saman sköpuðu þessir þættir á köflum fallegar senur. Búningarnir komu ágætlega út án þess að vera sérlega spennandi. Tónlistin komst vel til skila og var kröftug og skemmtileg í seinni hlutanum. Frammistaða dansaranna var ágæt og það sama mátti segja um leikarana. Verkið var þannig nokkuð vel unnið en varð ekki nógu spennandi vegna þess hvað það var efnislítið. Það vantaði upp á alla yddun þess og að taka þær vel þekktu hugmyndir sem unnið var með í aðra vídd.

Það virðist loða við dansverk nú til dags að þau eru of löng. Efni þeirra verður af þeim sökum útþynnt og klisjur verða áberandi. Þetta var því miður líka raunin í verkinu Dracula‘s Pack Svo þrátt fyrir marga góða spretti þá vantaði sterkari heildarsýn, og skarpari fókus í efnistökum. Þeir listamenn sem að verkinu standa skortir greinilega ekki hæfnina á sínu sviði. Það þyrfti bara að skera efnið hressilega niður svo eftir standi aðeins það sem raunverulega skiptir máli.

Leikstjóri og danshöfundar: Julietta Louste
Dansarar: Tura Gomez Coll, Oscar Pérez Romero, Mirte Bogaert og Juliette Louste.
Leikarar: Kjartan Darri Kristjánsson og Arnþór Þorsteinsson
Tónlistarmenn: Toni Vaquer, Iván González, Albert Cirera, Ramon Prats, Ingvi Rafn Björgvinsson og Hjalti Steinn Sigurðarson.
Sviðsmynd: Victor Peralta
Aðstoðarleikstjóri: Tura Gomez Coll

Ljósmyndir við grein: Geirix

Um höfundinn
Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir er menntuð í íþróttafræðum og dansi auk sagnfræði. Hún hefur skrifað gagnrýni og greinar um dans undanfarin ár auk þess að kenna listdanssögu á framhaldsskólastigi og skapandi dans fyrir börn.

[fblike]

Deila