Ritið:3/2014 – Skjámenning

Í Eldri Rit höf. Hugrás

Ritstjóri: Björn Þór Vilhjálmsson
Í þriðja hefti Ritsins 2014 er leitast við að kanna stöðuskjámenningar í íslensku, alþjóðlegu og sögulegu samhengi. Meðal efnis er fyrsta greinin sem skrifuð er á íslensku á sviði leikjafræða (e. game studies), „Frásögn eða formgerð? Tölvuleikir, leikjamenning og umbrot nýrrar fræðigreinar“, en þar fjalla Björn Þór Vilhjálmsson og Nökkvi Jarl Bjarnason um djúpstæðan skoðanaágreining sem mótaði upphafsár leikjafræðinnar og halda því fram að eftirköstin hafi haft meiri áhrif á þróun fræðigreinarinnar en jafnan er gert ráð fyrir. Jóhanna Gunnlaugsdóttir kynnir niðurstöður rannsóknar um notkun starfsfólks á samfélagsmiðlum meðan á vinnutíma stendur í greininni „Skjámenning og netnotkun vegna einkaerinda á vinnutíma“, en samfélagsmiðlar af ýmsu tagi – en þó einkum Facebook – gegna sífellt stærra hlutverki í lífi flestra, svo stóru raunar að erfitt getur verið að segja skilið við þá meðan við erum í vinnunni. Þriðja greinin, „Frá framúrstefnu til hátíðarmynda: Um skilgreingarvanda kvikmyndarinnar í ljósi módernískra hefða“, er umfjöllun Björns Ægis Norðfjörð um óhefðbundnar kvikmyndir og ýmsa kosti við flokkun þeirra. Tæknin breytist og skjástærð tækjanna sem við notum til að horfa á kvikmyndir taka stökkbreytingum; í sumum tilvikum stækka þeir umtalsvert (flatskjáir fyrir heimilið eru komnir í 100 tommur) en í öðrum minnkar myndflöturinn gríðarlega (margir horfa á myndefni í símanum sínum eða iPoddinum). En hvort sem horft er á 7 tommu skjá eða 100 tommu, og hvernig sem umgjörð tækjabúnaðarins breytist að öðru leyti, þá er það ekki síst hefðarveldið sem heldur velli á skjánum og Björn Ægir ræðir um þær kvikmyndir sem hafa gjarnan þótt vera í framvarðarsveit formsins.

Þrjár ritrýndar greinar birtast utan þema. Svavar Hrafn Svavarsson skrifar um umbyltingu í hugmyndaheimi Forngrikkja er lýtur að hamingjuhugtakinu og heldur því fram að hvörfin sem þá urðu marki upphaf heimspekilegrar siðfræði. Guðni Elísson fjallar um „Vantrúar-málið“ í ljósi spurninga um akademískt frelsi og Hjalti Hugason um nauðsyn þess að gaumgæfa þau heiti sem viðhöfð hafa verið í rannsóknum á trúmálahræringum hér á landi og í norðanverðri Evrópu á 16. öld. Tveir ritdómar birtast í þessu hefti. Ragnhildur Hólmgeirsdóttir hefur sitthvað að segja um Ástarsögu Íslendinga að fornu eftir Gunnar Karlsson. Síðari ritdóminn mætti jafnvel kalla átakasama hugleiðingu en þar fjallar Hildur Lilliendahl Viggósdóttir um Kötu eftir Steinar Braga.

Tvær þýðingar birtast og falla báðar undir skjámenningarþemað. „Hvað einkennir tölvuleikjagreinar? Vangaveltur um greinafræði eftir rofið mikla“ eftir David Clearwater er í senn merkilegt uppgjör við leikjafræðin og kortlagning á því hvert skuli nú halda. Þá birtist ennfremur þýðing á inngangskafla ritsins Media, Society, World: Social Theory and Digital Media Practice eftir Nick Couldry. Couldry leggur áherslu á að skoða eigi miðlun sem iðkun, þ.e. sem hluta af vanabundinni hegðun mannsins á jörðinni. Þetta er nálgun sem hefur verið mjög ráðandi síðustu árin og óhætt er að segja að það hafi verið Couldry sjálfur sem lagði línurnar fyrir hana í grein sem birtist árið 2004 í Social Semiotics, „Theorising Media as Practice“, en kaflinn sem hér er þýddur er einmitt endurskoðuð útgáfa af þessari grein.

Kaflar og útdrættir

Inngangur
Björn Þór Vilhjálmsson: Skjámenning, tískumenning, dægurmenning

Björn Þór Vilhjálmsson og Nökkvi Jarl Bjarnason: Frásögn eða formgerð? Tölvuleikir, leikjamenning og umbrot nýrrar fræðigreinar
Útdráttur og lykilorð   Abstracts and keywords

Björn Ægir Norðfjörð: Frá framúrstefnu til hátíðarmynda: Um skilgreingarvanda kvikmyndarinnar í ljósi módernískra hefða
Útdráttur og lykilorð   Abstracts and keywords

Jóhanna Gunnlaugsdóttir: Skjámenning og netnotkun vegna einkaerinda á vinnutíma
Útdráttur og lykilorð   Abstracts and keywords

Myndaþáttur

Sindri Freysson: Skjásettir

Greinar utan þema

Guðni Elísson: Fúsk, fáfræði, fordómar? Vantrú, Háskóli Íslands og akademísk ábyrgð
Útdráttur og lykilorð   Abstracts and keywords
Hjalti Hugason: Heiti sem skapa rými. Hugleiðing um heiti og hugtök í siðaskiptarannsóknum
Útdráttur og lykilorð   Abstracts and keywords
Svavar Hrafn Svavarsson: Sifjafræði hamingjunnar
Útdráttur og lykilorð   Abstracts and keywords

Ritdómar

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir: AKTA! – KATA! – HATA!
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Sigur eðlishyggjunnar?

Þýðingar

David A. Clearwater: Hvað einkennir tölvuleikjagreinar? Vangaveltur um greinafræði eftir rofið mikla
Nick Couldry: Inngangur: Stafræn miðlun í ljósi félagsfræðinnar

[fblike]

Deila