Á mótum danskrar og íslenskrar menningar

Í Bókmenntir, Fréttir, Málvísindi, Viðburðir höf. Hugrás

Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að dönskukennsla hófst við Háskóla Íslands efnir námsleið í dönsku til ráðstefnu um danskar bókmenntir og norræn tjáskipti, og verður hún haldin næsta laugardag, þann 9. apríl, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Fjallað verður um birtingarmyndir Íslands í dönskum bókmenntum og nýjar rannsóknir á norrænum málskilningi. Þá verður opnuð ný heimasíða um tengsl Danmerkur og Íslands.

Nikolaj Frederik Severin Grundtvig eftir Constantin Hansen.

Nikolaj Frederik Severin Grundtvig eftir Constantin Hansen.

Ráðstefnan hefst klukkan 13:00 með fyrirlestrum tveggja lektora frá Kaupmannahafnarháskóla um birtingarmyndir Íslands í dönskum bókmenntum. Sune Auken mun þar fjalla um það hversu mikilvægur norrænn bókmenntaarfur, og þá ekki síst goðsögurnar, eru í skáldskap 19. aldar höfundarins Grundtvigs, sem hafi verið sérlega meðvitaður um sérstöðu íslenskra bókmennta og haft ákveðna sýn á Ísland í því samhengi. Erik Skyum-Nielsen mun síðan halda erindi um mýtur og fantasíur um Ísland í dönskum samtímabókmenntum.

Í síðari hluta ráðstefnunnar færist áherslan yfir á nýjar rannsóknir í norrænum málvísindum. Ulla Börestam, prófessor við Uppsalaháskóla, mun fjalla um það hvernig dönskunám í íslenskum skólum hefur reynst Íslendingum sem setjast að í Svíþjóð ákveðin brú yfir í sænskuna. Pernille Folkmann, lektor við Háskóla Íslands, tekur einnig fyrir þá staðreynd að Íslendingar nota gjarnan dönskukunnáttu sína úr skóla sem grunn til að ganga inn í sænskt eða norskt málsamfélag, og Eva Theilgaard Brink, fræðimaður hjá Nordisk Sprogkoordination, beinir athyglinni að samskiptum ungs fólks á Norðurlöndum, hvernig það getur nýtt sér tungumálaskyldleikann, hvaða hindranir verða á vegi þess og hvaða hlutverki enskan gegnir.

Á hinum nýja vef um tengsl Danmerkur og Íslands verður m.a. að finna gögn og upplýsingar um Dani á Íslandi svo sem einkabréf, dagbækur og ljósmyndir ásamt upplýsingum um starfsemi félaga Dana hér á landi. Vefurinn verður opnaður formlega á ráðstefnunni af Mette Kjuel Nielsen, sendiherra Danmerkur á Íslandi, og Auður Hauksdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, flytur erindi um dönsk-íslensk menningartengsl á Netinu.

hugras_donsk_islensk_menning2

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn á meðan húsrúm leyfir.

Hér má sjá dagskrá og frekari upplýsingar um ráðstefnuna.

Deila


„Vér hverfum frá oss sjálfum“

16. október, 2017Franska leikritaskáldið Florian Zeller hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verkið Föðurinn, meðal annars Moliere verðlaun árið 2014. Verðskuldað er það. Þetta er ákaflega vel skrifað og sterkt leikrit en það er þannig gert að það leiðir áhorfandann stig af stigi inn i hugarheim föðurins, André, (Eggert Þorleifsson). Sá hugarheimur er framandlegur og kemur okkur á óvart, það tekur smátíma fyrir áhorfandann að ná áttum. Ég ætla því að vara ykkur við og segja: ef þið ætlið að sjá þessa sýningu Þjóðleikhússins ættuð þið ekki að lesa lengra núna – lesið þegar þið eruð búin að sjá sýninguna! Má ég spyrja: ...

Leikstjóraspjall við Baltasar Kormák

13. október, 2017Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði, fjallar um Leikstjóraspjall Baltasar Kormáks, en hann svaraði spurningum um eigin feril og kvikmyndir, íslenska kvikmyndamenningu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.

Leitin að íslensku klaustrunum

12. október, 2017Út er komin á vegum Sögufélags og Þjóðminjasafns Íslands bókin Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði. Steinunn bregður hér ljósi á sögu kaþólsks klausturhalds í landinu á persónulegan hátt þar sem skipulögð leit að íslensku klaustrunum er í forgrunni. Klaustrin voru öflugustu stofnanir kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á miðöldum, næst á eftir biskupsstólunum. Saga þeirra, sem spannar nær 500 ár, einkennist af auðsöfnun og aga í bland við bóklega menntun, handverk, stjórnsýslu, hjúkrun, lækningar og útbreiðslu trúar á Guð alvaldan og helga menn og konur. Hún er líka saga síendurtekinna ...