Af álagi og óreiðu

Shirley Jackson
Líf á meðal villimanna
Dimma, 2015
Þýðandi: Gyrðir Elíasson
Glansmyndin af hamingjusömu fjölskyldulífi er fjarri þeim veruleika sem lýst er í bók Shirley Jackson (1916-1965), Líf á meðal villimanna, sem er nú til í íslenskri þýðingu Gyrðis Elíassonar. Bókin kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1953 en Shirley Jackson er þekkt fyrir smásöguna The Lottery sem þegar hefur verið þýdd á íslensku af Kristjáni Karlssyni (1957) og Ragnheiði Margréti Guðmundsdóttur (1999). Aðrar skáldsögur hennar eru meðal annars We Have Always Lived in the Castle og hrollvekjan The Haunting of Hill House sem hefur notið talsverðra vinsælda og verið gerð bíómynd eftir henni.

Upphafslínur bókarinnar gefa til kynna frásagnargleði og þann gáska sem framundan er.
Sögumaðurinn er húsmóðir í smábæ í Vermont í Bandaríkjunum um miðja síðustu öld. Í byrjun sögunnar eiga þau hjónin tvö ung börn (Laurie og Jannie) en síðan bætist það þriðja við (Sally) og sagan endar á því að börnin eru kynnt fyrir nýju systkini (Barry). Upphafslínur bókarinnar gefa til kynna frásagnargleði og þann gáska sem framundan er:

Húsið okkar er gamalt, og hávaðasamt, og þéttsetið. Þegar við fluttum inn í það áttum við tvö börn og um það bil fimm þúsund bækur; ég geri ráð fyrir að þegar við að lokum yfirfyllum það og flytjum úr því munum við eiga kannski tuttugu börn og örugglega hálfa milljón bóka. (bls. 5)

Þau fundu húsið eftir mikla leit, eða kannski er frekar hægt að segja að húsið hafi fundið þau. Það má greina hrollvekjandi tón þegar hún lýsir húsinu sem er bæði stórt og óvenjulegt og hefur staðið autt í langan tíma. Húsið er eins og lifandi vera sem hefur sjálfstæðan vilja og stjórnar því til dæmis hvernig húsgögnin raðast inn í það. Gott dæmi er barnaherbergið:

Eitt herbergið valdi sér börnin, því það var stórt og bjart og sýndi greinilega hæðarmælingarstrik á einum veggnum og virtist alls ekki hafa neitt á móti því þegar vaxlitakrot tók að birtast á veggfóðrinu og málning sullaðist niður á gólfið. (bls. 23)

… líta má á bókina sem lúmska ádeilu á þessa glansmynd sem birtist svo víða í Bandaríkjunum og um heim allan á þessum tíma (og gerir enn).
Það mætti ætla að framundan væru frekari útlistanir á lífi hússins og því hvernig það stýrir og stjórnar lífi fjölskyldunnar. Svo er þó ekki og sagan færist yfir í lýsingar á fjölskyldulífinu, áskorunum hversdagslífsins og flóknu hlutverki móðurinnar. Við fáum að kynnast börnunum vel og uppátækjum þeirra. Móðirin ber hitann og þungann af heimilishaldinu og textinn fer á mikið flug þegar allir þeir þræðir sem hún þarf að halda í spretta fram og hlaupa á skeið. Hún er önnum kafin frá morgni til kvölds og ræður ekki við svo mörg verkefni. Í forgrunni er glansmyndin af hamingjusömu, fallegu og fínu húsmóðurinni sem sinnir öllu með bros á vör. Raunveruleikinn er annar og líta má á bókina sem lúmska ádeilu á þessa glansmynd sem birtist svo víða í Bandaríkjunum og um heim allan á þessum tíma (og gerir enn). Þetta má til dæmis sjá í umfjöllun hennar um minnislista og mikilvægi þeirra til að halda utan um skipulag verkefna. Listarnir fylgja innra röklegu samhengi og virðast óskiljanlegir þegar litið er á þá löngu seinna. Hún skrifar marga minnislista sem enda í ýmsum vösum og út og suður. Þrátt fyrir minnislistana er óreiðan ennþá til staðar í öllu sínu veldi.

Maður getur byrjað á einhverju atriði sem stendur á minnismiða og farið þaðan í allar áttir í einu, þar sem veröldin er nú einusinni jafn fjölbreytt og hún er, og jafnvel þótt mjög gott sé að hafa minnislista við höndina er ákaflega erfitt að halda sig nákvæmlega við það sem á honum stendur. (bls. 79)

Textinn er líflegur og á köflum farsakenndur og er reglulega brotinn upp með skemmtilegum samtölum. Gert er góðlátlegt grín að persónum en undir niðri má greina varnarleysi og þreytu húsmóðurinnar sem er stöðugt að laga barnaföt og breyta þeim svo næsta barn geti notað þau. Hún er föst í hlutverki sínu. Fjölskyldufaðirinn er elskulegur en óvirkur. Stíllinn er ýktur og hraður þannig að glundroðinn og óreiðan skila sér vel. Yfirleitt er hún ekki berorð um hlutskipti sitt en á einum stað má sjá hjartnæma lýsingu á varnarleysi foreldris:

Stundum þegar ég hugsa um móðurhæfni mína, kemur fyrir að ég sit opinmynnt og skelfd andspænis börnunum mínum, þessum litlu sjálfstæðu verum sem fara af öryggi sínar eigin leiðir og minna samt sem áður á einhvern dularfullan hátt á fortíð sem ég og maðurinn minn höfum aldrei sagt þeim frá … (bls. 171)

Áhugavert væri að skoða bókina í samhengi við verk Svövu Jakobsdóttur en í hennar verkum er reynsluheimi kvenna oft lýst á kaldhæðinn hátt.
Bókin er ávísun á skemmtilestur og fínasta afþreying. Lesandinn skynjar hið ósagða; spennuna og álagið. Ádeilan lúrir á milli línanna. Sú spurning er þó áleitin hvaða erindi saga sem er skrifuð af konu í Bandaríkjunum árið 1953 getur átt á Íslandi árið 2015, 62 árum síðar? Því er erfitt að svara en það er ljóst að bókin eldist vel og margar lýsingar í henni gætu allt eins átt við í dag. Eflaust mætti frekar spyrja: Af hverju kom hún ekki út í íslenskri þýðingu fyrr? Áhugavert væri að skoða bókina í samhengi við verk Svövu Jakobsdóttur en í hennar verkum er reynsluheimi kvenna oft lýst á kaldhæðinn hátt. Flestir sem hafa alið upp börn ættu að kannast við margt úr bókinni, þá ábyrgð sem uppeldinu fylgir og þann aragrúa smárra verkefna sem hrannast stöðugt upp.

Það er alltaf gæðastimpill þegar Gyrðir velur bækur til þýðingar en þýðing hans er á allan hátt fumlaus og vel úr garði gerð. Í þýðingu hans má finna nokkrar snjallar lausnir eins og þegar Jannie segist heita „Puddentane … down the lane“ (Life Among the Savages, Penguin Books 2015, bls. 186). Verður það í íslenskri þýðingu: „Rabarbara-Rúna… rétt við gömlu brúna“ (bls. 193). Eftirmáli Gyrðis er afar fróðlegur og góð viðbót við sjálfa söguna.

Um höfundinn
Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir er ljóðskáld og smásagnahöfundur. Hún er einnig doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og stundakennari í ritfærni við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila