Sterk líkamleg nærvera

Í verki sínu Kvika kafar Katrín Gunnarsdóttir danshöfundur í líkamlegan veruleika og kallar fram hjá dönsurunum mismunandi hreyfingar og ólíka orku. Hún ýtir við hugmyndum áhorfandans um hvað sé dans og hvað sé list. Markmið verksins er að skoða þætti sem ólíkir dansstílar eiga sameiginlega og kanna samband dansaranna á sviðinu við áhorfendurna í salnum.
Rannsóknarvinna Katrínar birtist okkur í verkinu sem nokkrir ólíkir kaflar þar sem líkaminn er í forgrunni í öllu sínu veldi; fagur, agaður, kröftugur, flæðandi, kyrrstæður, þreyttur, sveittur og sem þátttakandi í átökum við sig sjálfan eða í samspili við annan eða aðra líkama.

Verkið byrjaði á einföldum en taktföstum hreyfingum. Andardráttur dansaranna og stapp skapaði áhrifaríka hljóðmynd og byggði á sama tíma upp orku og stemmingu í salnum. Þessi kafli krafðist mikillar hlustunar af hálfu dansaranna vegna þess að þeir höfðu aðeins hvern annan til að halda takti og vera samtaka í hreyfimynstrinu.

Strax í þessu atriði sást að farnar yrðu ótroðnar slóðir hvað hugmyndir um dans varðar því sú tæknilega færni sem einkennir hreyfingar þjálfaðra dansara voru ekki til staðar nema hjá hluta þátttakenda.
Strax í þessu atriði sást að farnar yrðu ótroðnar slóðir hvað hugmyndir um dans varðar því sú tæknilega færni sem einkennir hreyfingar þjálfaðra dansara voru ekki til staðar nema hjá hluta þátttakenda. Til viðbótar við dansarana Védísi Kjartansdóttur, Snædísi Lilju Ingadóttur og Unu Björg Bjarnadóttur, sem allar eru vel þjálfaðar og firna flinkir dansarar, var leikarinn Hilmir Jensson og myndlistarmaðurinn Kristinn Guðmundsson með í verkinu. Sem leikari er Hilmir greinilega vanur því að vinna með líkamann á tjáningarríkan hátt og hafði nokkuð góða líkamsbeitingu þó að hann hefði ekki fágun vel þjálfaðs dansara. Kristinn hafði aftur á móti ekki mjög sterka líkamsbeitingu og stakk því í stúf hreyfilega séð í þeim hlutum verksins sem kröfðust líkamlegrar nákvæmni. Líkamsbygging hans er líka mýkri en venjulega sést á danssviðinu sem einnig vakti athygli. Tilvist hans á sviðinu var þó í alla staði áhugaverð því eins og í öðrum dansverkum sem hann hefur tekið þátt í undanfarin ár hefur hann fram að færa orku sem hin ekki hafa. Í viðtali við Katrínu Gunnarsdóttur, höfund verksins, í Víðsjá á frumsýningardaginn kemur fram að með því að velja einstakling í verkið sem ekki hefur farið í gegnum slípun og fágun áralangrar dansþjálfunar hafi hún verið að leita að öðruvísi og hugsanlega náttúrulegri orku en annars hefði verið. Ef sett eru upp feminísk gleraugu má spyrja sig hvort ekki hefði verið áhugavert að fá lítt eða ekkert þjálfaðar konur með óhefðbundinn líkamsvöxt til að taka þátt því það er ekki nýtt að mismunandi karlmannslíkamar sjáist á sviði í dansverkum en það er mjög sjaldgæft að áhorfendur berji mismunandi kvenlíkama augum á danssviðinu.

hugras_KVIKA3
Ljósmyndir við grein: Jónatan Grétarsson

Verkið skipti síðan – of snemma fyrir minn smekk því ég hefi gjarnan viljað sjá meira af þessum leik með hrynjandina – úr taktfastri hrynjandi yfir í atriði þar sem líkamsskjálfti var megininntak. Eins og fyrri kaflinn byrjaði skjalftinn smátt í aðeins einum líkama en fluttist síðan yfir í annan og svo annan og annan þar til allir dansararnir voru sameinaðir í einni skjálfandi heild. Í þessum kafla, sem og reyndar í hinum, urðu til áhugaverðar myndir á sviðinu og jók það á efni dansverksins sem annars snérist fyrst og fremst um mismunandi líkama á hreyfingu. Það er ótrúlega erfitt líkamlega að viðhalda skjálfta í skrokknum og því afrek út af fyrir sig hjá dönsurunum að halda svona lengi út.

Það má ekki síður telja það til afreka að atferli þeirra á sviðinu vakti upp líkamleg viðbrögð hjá áhorfendum og stóð undirrituð sig að því að skjálfa í áhorfendasætinu án þess að geta mikið við því gert.
Það má ekki síður telja það til afreka að atferli þeirra á sviðinu vakti upp líkamleg viðbrögð hjá áhorfendum og stóð undirrituð sig að því að skjálfa í áhorfendasætinu án þess að geta mikið við því gert. Þegar hér var komið sögu varð lýsing meira áberandi á sviðinu og undirstrikaði á fallegan hátt það sem þar var að gerast. Hún var síðan, og reyndar áður, falleg viðbót við það sem þar var að gerast.

Næst færðist verkið út í líkamlega skelli og hnoð. Dansararnir héldust í hendur og skelltu saman bringum, lærum og öðrum líkamshlutum á nokkuð ofsafenginn hátt. Hér var líkamleg nálægð milli dansaranna komin á stig sem liggur vel fyrir utan norm samfélagsins um snertingu og líkamleg átök. Það fór líka ekki á milli mála að þessi kafli tók vel á hjá dönsurunum svo svitinn lak og vöðvar hnykluðust. Skjálftaatriðið og þessi líkamlegu samstuð eru eitthvað sem ekki sést oft sviði. Katrín sprengir hér þá ramma sem dansinn býr venjulega innan á nýjan og óvæntan hátt. Hluti af þessum kafla var dúett á milli Hilmis Jenssonar og Snædísar Lilju Ingadóttur þar sem þau reyndu á styrk, þor og þol. Hér var ekki um neina klassíska fagurfræði að ræða heldur átök og erfiði. Dúettinn var eftirminnilegur og þau sýndu bæði mikla leikni í því sem þau gerðu og ekki síður fallegt samspil. Áhættusöm atriði voru gerð af virðingu og natni.

hugras_KVIKA1

Hið hefðbundna í dúettum er að dansinn er gerður fágaður og að því virðist áreynslulaus. Hér var því ekki að heilsa því það fór ekki á milli mála hversu mikið þetta tók á dansarana og að þeir þurftu á allri sinni athygli að halda til að gera þessu áhættusama atriði skil. Á þann hátt opinberuðu dansararnir alvöruna á bak við ævintýrið sem fram fór á sviðinu. Hversdagsleg framsetning, líkt og í Kviku, þar sem sviðsmyndin er engin fyrir utan tjald í bakgrunni og búningarnir eru eins og hver önnur æfingaföt, hefur verið algeng í verkum innan dansgeirans undanfarin ár.

Þessi hversdagslega nálgun rýfur gat á vegginn á milli sýnenda og áhorfenda og hvetur áhorfendur til að fylgjast af áhuga með því sem fram fer frekar en að halla sér aftur í sætinu og njóta upplifunarinnar.
Upplifun áhorfandans verður því oft sú að verið sé að fylgjast með vinnu dansaranna frekar en horfa á fullskapað listaverk. Þessi upplifun byggir að sjálfsögðu á hugmyndinni um að listaverk sé eitthvað fullklárað sem hægt er að njóta í eigin rými, rými áhorfandans en ekki verkefni sem áhorfandi er vitni að og tekur óbeinan þátt í að framkvæma. Þessi hversdagslega nálgun rýfur gat á vegginn á milli sýnenda og áhorfenda og hvetur áhorfendur til að fylgjast af áhuga með því sem fram fer frekar en að halla sér aftur í sætinu og njóta upplifunarinnar.

Í síðasta kafla verksins var áhorfandinn loksins leiddur inn í fegurð dansheimsins. Eftir allt að því ruddalega framkomu í fyrri hlutunum flæddu dansarnir þar inn í mýkt og ljúft samspil byggt á gerð mynstra með höndum og líkömum í ætt við það sem maður sér ef horft er inn í kviksjá. Hér voru engar ruddalegar snertingar, sviti eða más heldur tók hvert mynstrið við af öðru í samhverfri klassískri fegurð. Einstaklega ljúf hljóðmynd varð hér einnig partur af heildarupplifuninni.

hugras_KVIKA2

Verkið Kvika ýtti rækilega við hugmyndum um hvað dans er. Það vakti líka hjá áhorfendum ólíkar upplifanir eftir því hvaða kafli verksins var í gangi. Þannig náði höfundur markmiði sínu að vinna með samband dansara og áhorfanda án þess að blanda áhorfendum á nokkurn hátt inn í verkið. Það fór ekkert á milli mála að aðstandendur sýningarinnar er fagfólk fram í fingurgóma og á bak við verkið er áhugaverð og vel unnin rannsóknarvinna. Hvað þróun danslistarinnar varðar þá er Kvika sterkt verk sem hafa mun áhrif á hugmyndir okkar um hvað dans er og hvað list er. En listrænt séð nær Kvika því ekki að vera sterk listupplifun því það var ekki mjög skemmtilegt eða heillandi og því erfitt fyrir almennan áhorfanda að tengja sig við það.

Danshöfundur: Katrín Gunnarsdóttir
Dansarar: Hilmir Jensson, Kristinn Guðmundsson, Snædís Lilja Ingadóttir, Una Björg Bjarnsdóttir og Védís Kjartansdóttir.
Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger
Hljóðmynd: BaldvinÞór Magnússon
Lýsing: Aðalsteinn Stefánsson
Dramatúrg: Símon Birgisson

Um höfundinn
Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir er menntuð í íþróttafræðum og dansi auk sagnfræði. Hún hefur skrifað gagnrýni og greinar um dans undanfarin ár auk þess að kenna listdanssögu á framhaldsskólastigi og skapandi dans fyrir börn.

[fblike]

Deila