Ósýnilegir strengir

Matthías Johannessen
Við landamæri
Ástráður Eysteinsson annaðist útgáfuna
Sæmundur, 2015

Við landamæri hefur að geyma úrval ljóða sem Matthías Johannessen hefur ort síðustu fimm ár. Ástráður Eysteinsson annaðist útgáfuna og ritaði þar að auki rækilegan eftirmála að bókinni, sem bregður hvort í senn birtu á æviverk skáldsins og veitir lesendum lyklasafn að ljóðum bókarinnar.

Í einum skilningi væri hægt að tala um að hentistefna ríkti þegar hugað er að formi bókarinnar. Finna má í henni hreinan prósa, prósaljóð, hugvekjur og stemningar bæði í lausamáli og bragbundnar. Allar sortir. Í öðrum skilningi fær maður á tilfinninguna að hér sé ekki um neins konar óreiðu að ræða, öllu heldur að sá sem yrki sjái að ljóðið býr í öllum hlutum, tekur á sig alla vega myndir sem allar eiga jafnan rétt á sér svo fremi sem skynjuninni sé komið til skila.

Titill bókarinnar gefur lesendum nokkra hugmynd um innihald hennar. Landamæri marka skil, hvort sem það er staðfræðileg niðurhlutun jarðskorpunnar eða þær skorður sem okkur mönnunum eru settar í frumspekilegum skilningi. Hér er litið hvort í senn fram og til baka, út og innávið. Hið smágerða atviksorð „Við“ gerir svo meir en að leggja línurnar, það staðsetur mælanda. Hann yrkir ekki um mærin úr öruggri fjarlægð, sjálfur stendur hann á mörkunum og metur stöðu sína.

Þetta er allt svo einkennilegt
sem yfir mig gengur,
engu líkara en ævin sé
ekki staðreynd lengur.

Deyjandi lifum en lífið er
löngum sem brostinn strengur,
við njótum þess eins sem áður var
en er ekki lengur.

Áður þekkti ég annan mann
og eitt sinn var ég drengur,
seinna átti ég eilíft líf,
en ekki lengur (84).

Við landamæri skiptist í fimm hluta – líkt og grískur harmleikur – þar sem hver og einn hefur sín efnislegu sérkenni.
Við landamæri skiptist í fimm hluta – líkt og grískur harmleikur – þar sem hver og einn hefur sín efnislegu sérkenni. Matthías yrkir um borgina (menningu) og landið (náttúru), sögu mannsins og innræti í gegnum tíðina. Auðskynjað er að menningarlæsi hans er mikið og sjóndeildarhringurinn gríðarlega víðfemur. Yrkisefni Matthíasar er raunar í grunninn svo stórt að það er hægt að lýsa því með einu litlu orði: Lífið.

Þar vinnur með skáldinu að hann hefur lifað lengi og reynt margt, er skarpur greinandi og þjóðfélagsrýnir sem þekkir bæði fortíð sína og samtíma nógu vel til að vita að þau eru ekki aðskilin heldur vinna saman.

En tíminn líður, tengist aðeins því
sem tvíræð reynsla kallar fram á sviðið,
það sem var en verður ekki á ný
sem vorköld ást á því sem nú er liðið,
samt býr við hjartað blik af gömlum eldi,
það brakar enn í þeirri öskuglóð
og enn er Þorgeir þögull undir feldi
og þrætubókarfjöld á heljarslóð (55).

Sökum þess er umfjöllunarefni Matthíasar, þótt stundum sé sótt í fjarlæga sögu, einhvers konar endurskin á þann tíma sem við lifum nú. Menningarsagan er sjónarhóll þaðan sem hægt er að yfirvega gangverk samtíðarinnar. Ástráður orðar þetta í eftirmála sínum þegar hann segir: „Í hverju menningarsamfélagi, hverju tungumáli, þarf að fara könnunarferðir yfir landamæri tíma og rúms og endurskapa arfinn fyrir samtímann“ (137). Matthías kallar þetta víst „ritstýrða sagnfræði“ (137).

Öllu ægir saman í skáldskap Matthíasar, tímabilum, stöðum, fólki, hugmyndum og tilverustigum því allt er þetta tengt á einn eða annan máta. Hagi maður lestri eftir því ber manni því að líta á litlu orðin í ljóðunum en ekki þau sem æpa á mann. Litlu orðin sem hverfa innan um upphrópanir en þjóna þeim tilgangi að hnýta saman tengingarnar, þann vefnað sem ljóðið er þegar vel tekst til. Í Við landamæri vísa þessi smáorð oftast nær í skort af einhverju tagi, þagnir, logn, úrkomuleysi og annað slíkt. Þetta eru þó ekki áhrifalaus fyrirbæri og vakin er athygli á virkni þess sem oft er litið framhjá, eða jafnvel í gegnum. Vindurinn, til dæmis, orsakar hreyfingu og líf þótt við getum hvorki snert hann né séð.

Vindurinn strýkur
laufvana greinar

fínlegur gítarlófi

garðurinn vaknar
undir syngjandi
vængjum

vindurinn hreyfir
ósýnilega strengi
milli haglsárra
greina
að morgni (11).

Meðvituð notkun á orðum og tengingum sem þessum – hverfull ilmurinn, straumur árinnar – er leið til þess að draga fram bæði efnisleysi og formleysi, innan efnis og forms.

Með ritstýrðri sagnfræði sinni horfir Matthías á íslenskan samtíma í gegnum linsu menningarsögunnar og kemst að niðurstöðu. Aflið býr í því óséða. Hreyfing er kraftur. Það á að ganga gegnum efnið og smokra sér milli línanna á tímans bók.

Þá leysast allar útlínur upp, allar kvikmyndir sem við höfum
séð verða að einni kvikmynd, öll tónverk að einu tónverki og
allar bækur að einni bók.

Og þá leggjum við allt í hendur heilags anda, alla reynslu sem
verður ein reynsla og allar minningar sem eru ein minning.

Og ein gleymska (109).

Í þeim skilningi yfirvegar ljóðabók Matthíasar hið stóra í tilverunni. Líf. Dauða. Ást. Guðdóm.
Í þeim skilningi yfirvegar ljóðabók Matthíasar hið stóra í tilverunni. Líf. Dauða. Ást. Guðdóm. En heildræn framsetning, form og sú tilfinning sem textinn miðlar virðist kalla á að við hlekkjum þessi fyrirbæri ekki niður né skiljum þau að, heldur reynum að átta okkur á þeim ósýnilegu strengjum sem binda þau saman. Loks mætti færa rök fyrir því að áherslan á gildi og gagn þess óáþreifanlega megi jafnvel sjá í því með hvaða hætti Matthías notar greinarmerki.

Allir titlar ljóðanna eru t.d. innan sviga líkt og í afsökunarskyni, eða til þess að draga úr stýringarvirkni þeirra. Eins eru upphafsljóð hvers hluta fyrir sig merkt „Án titils“ (í stað þess að sleppa titlinum) en engu að síður fylgir titill innan hornklofa á eftir þessum staðhæfingum. Spyrja má hvort þetta séu ómerk innskot eða enn ein leið skáldsins til þess að benda á virkni þess sem ekki verður lesið í meginmáli tilverunnar – líti maður á lífið sem texta?

Um höfundinn
Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson er með MA gráðu í bókmenntafræði. Hann er stundakennari við íslensku- og menningardeild HÍ þar sem hann kennir jöfnum höndum í bókmennta- og kvikmyndafræði.

[fblike]

Deila