Fjölbreytt sýn á erlend tungumál og menningu

Í Fréttir, Ný rit höf. Hugrás

Yfirnáttúrulegir útvarpsþættir, ímynd Maríu Stúart skotadrottningar og Elísabetar fyrstu Englandsdrottningar í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum samtímans, rödd kattarins Brandar í barnabókunum um Pétur og Brand og ofdramb franska félagsfræðingsins Pierres Bourdieu eru meðal umfjöllunarefna í nýjasta hefti Milli mála – tímarits um erlend tungumál og menningu.

millimala_kapa300pxÍ heftinu eru tólf greinar á ensku, frönsku, ítölsku og spænsku, en einnig er í því viðtal við frönsku málvísindakonuna Henriette Walter og tvær þýðingar, á smásögunni „Bernska“ eftir Ísaak Babel sem Rebekka Þráinsdóttir sneri úr rússnesku, og á broti úr franskri gamansögu frá 12. öld sem Ásdís R. Magnúsdóttir íslenskaði.

Umfjöllun um bókmenntir af ýmsu tagi fær sinn skerf í þessu hefti. Philip Allingham kannar áhuga Charles Dickens á öðrum sögusviðum en Lundúnum og bendir á að framandlegir sögustaðir í verkum Dickens gætu endurspeglað áhyggjur hans af sonum sínum fimm en jafnframt að pólitískir, félagslegir og hernaðarlegir atburðir um miðja 19. öld hafi haft áhrif. Miguel Carrera Garrido og Ken Benson fjalla um endurskoðun á kanón liðinna alda í spænskum bókmenntum og hvernig nýjar rannsóknir hafi stuðlað að endurreisn mikilvægra fantasíuhöfunda. Í greininni er sagt frá hlutverki Juans José Plans, sem bjó til útvarpsþætti um hið yfirnáttúrulega, í endurvakningu á þessum jaðarsetta hluta spænskrar samtímamenningar. Stefano Rosatti varpar ljósi á ágreiningsefni sem fram hafa komið í rannsóknum á ítalska skáldinu Clemente Rebora en einnig á vandamál í sagnfræði og bókmenntum er hann varða. Hann styðst við rannsóknir á tungumáli og ljóðrænum stíl Reboras og með því að nýta kenningar úr hugrænni taugasálfræði reynir hann að auðvelda skilning á hinni flóknu skáldskaparlist Reboras. Þá sýnir Charlotte Lindgren hvernig kötturinn Brandur, önnur aðalsöguhetjan í sænsku barnabókunum um Pétur og Brand, er lagaður að franskri menningu í franskri þýðingu verkanna. Það gerir hún með því að beina athyglinni að lýsingum á kettinum og framsetningu á tali aðalsöguhetjanna tveggja, Péturs og Brands.

Ingibjörg Ágústsdóttir fjallar um þá mynd sem dregin er upp af Maríu Stúart Skotadrottningu og frænku hennar Elísabetu fyrstu Englandsdrottningu í kvikmyndum og sjónvarpsmyndum …
Ingibjörg Ágústsdóttir fjallar um þá mynd sem dregin er upp af Maríu Stúart Skotadrottningu og frænku hennar Elísabetu fyrstu Englandsdrottningu í kvikmyndum og sjónvarpsmyndum frá 1970 til dagsins í dag en þær hafa báðar orðið táknmyndir landa sinna. Britt-Marie Karlsson og Sara Ehrling beina einnig athyglinni að 16. öld, eða að fyrstu frönsku þýðingunni í óbundnu máli á fyrstu fjórum bókum Eneasarkviðu Virgils sem kom út árið 1541 undir dulnefninu Hélisenne de Crenne. Þýðandinn studdist ekki einungis við verk Virgils heldur einnig við þýðingu í bundnu máli frá 1509. Þýðing Crenne er frjáls og hér er sýnt hvernig hún breytir áherslum í sögunni og auðgar frásögn frumtextans.

Málvísindi eru einnig til umfjöllunar. Ilpo Kempas kannar spænsk sagnorð sem merkja ‘að segja’ og sagnir tengdar tjáningu og skynjun upplýsinga og staðreynd. Efniviðurinn samanstendur af textum á sviði fræða, vísinda og upplýsinga, þar sem endurvísun er mikið notuð, og spannar tvö helstu svæðisbundnu afbrigði spænskunnar, þ.e. á Spáni og í spænsku Ameríku. Sara Lindbladh segir frá fyrstu skrefunum í greiningu á ítölsku orðræðuögnunum va bene og va be’ í lok samtals. Fjallað er um skörun á notkun þeirra í svarlotum og endalotum. Sýnt er fram á að báðar myndirnar deila þessum tveim almennu notkunarmöguleikum þótt munur sé á þeim eftir samhenginu. Útgangspunktur rannsóknarinnar er lýsing á ögnunum í samskiptamálfræðilegu samhengi.

Tvær greinar fjalla um málefni er varða kennslu. Ingrid Lindström Leo fjallar um ólíkan skilning og túlkanir á hugtakinu lýðræði á Spáni á 20. öld, einkum í sögukennslu í skólum, og Susana S. Fernández segir frá rannsókn á viðhorfum danskra spænskukennara til fjölmenningalegrar kennslu í spænsku og þeim hindrunum sem gera slíka nálgun erfiða í framkvæmd.

François Heenen heldur síðan áfram umfjöllun um Relevance Theory eða gildiskenninguna
François Heenen heldur síðan áfram umfjöllun um Relevance Theory eða gildiskenninguna og Helge Vidar Holm segir frá því að hvaða leyti hann telur gagnrýni franska félagsfræðingsins Pierres Bourdieu á Jean-Pauls Sartre missa marks. Vidar Holm heldur því m.a. fram að ásakanir Bourdieus um stöðu Sartres sem „allsherjar“ menntamanns sem drottnaði yfir öllum þeim sviðum sem mynda „le champ intellectuel“ hafi hæft hans eigið ofdramb.

Milli mála kemur út í opnum vefaðgangi hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Einnig birtast heftin jafnóðum á vef Landsbókasafnsins.

Deila


Yfirþyrmandi náttúrukraftur smásagna Rómönsku-Ameríku

17. október, 2017Út er komið annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins sem hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges og Gabriel García Márquez. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006. Aðalritstjóri þessa bindis, Kristín Guðrún Jónsdóttir, segir langflestar sögurnar vera þýddar úr spænsku, en einnig séu sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku. Sögurnar eru allar þýddar úr frummálinu og ...

„Vér hverfum frá oss sjálfum“

16. október, 2017Franska leikritaskáldið Florian Zeller hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verkið Föðurinn, meðal annars Moliere verðlaun árið 2014. Verðskuldað er það. Þetta er ákaflega vel skrifað og sterkt leikrit en það er þannig gert að það leiðir áhorfandann stig af stigi inn i hugarheim föðurins, André, (Eggert Þorleifsson). Sá hugarheimur er framandlegur og kemur okkur á óvart, það tekur smátíma fyrir áhorfandann að ná áttum. Ég ætla því að vara ykkur við og segja: ef þið ætlið að sjá þessa sýningu Þjóðleikhússins ættuð þið ekki að lesa lengra núna – lesið þegar þið eruð búin að sjá sýninguna! Má ég spyrja: ...

Leikstjóraspjall við Baltasar Kormák

13. október, 2017Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði, fjallar um Leikstjóraspjall Baltasar Kormáks, en hann svaraði spurningum um eigin feril og kvikmyndir, íslenska kvikmyndamenningu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.