Japanshátíðin hápunktur skólaársins

Í Fréttir, Viðburðir höf. Hugrás

Gunnella Þorgeirsdóttir, lektor í japönsku

Gunnella Þorgeirsdóttir, lektor í japönsku

Hin árlega Japanshátíð Háskóla Íslands er orðin að föstum lið í skólaárinu og nýtur ætíð mikilla vinsælda. Nemendur og kennarar í Japönsku máli og menningu eyða miklum tíma og kröftum í undirbúninginn en það starf er bæði gefandi og árangursríkt, segir Gunnella Þorgeirsdóttir, lektor í japönsku. Hátíðin sé í raun hápunktur ársins í japönskunni og við undirbúninginn sameini allir krafta sína Það hristi hópinn saman og hafi afar jákvæð áhrif innan námsgreinarinnar.

Japanshátíðin verður haldin í tólfta sinn laugardaginn 30. janúar. Þar er gestum boðið að upplifa japanska menningu, hvort sem um er að ræða mat, tungumál, tísku, kvikmyndir, dans, tónlist, bardagalist, Origami, Manga, tölvuleiki eða klassíska te-seremóníu. Að viðburðinum koma einnig japanska sendiráðið og japanskir skiptinemar og allir hafa lagt nótt við dag í skipulagningu afar fjölbreyttrar dagskrár. Nemendur búa m.a. sjálfir til allar skreytingar og sjá um skemmtiatriði, dansatriði og tónlistaratriði, og liggja miklar æfingar þar að baki. Íslendingar af japönskum uppruna sjá svo yfirleitt um blómaskreytingar, sem eru afar mikilvægur þáttur japanskrar hámenningar og gefa, ásamt te-seremóníunni, innsýn í klassíska, japanska menningu.

Gunnella tók við umsjón námsgreinarinnar Japanskt mál og menning árið 2012 en námið hefur verið í boði frá því árið 2003. Aðsókn í námið hefur alltaf verið mikil og augljóst að áhugi er á japanskri menningu hér á landi. Japanshátíðin er viðbragð við þeim áhuga og er að auki ætlað að kynna ýmsa þætti námsins. Gunnella hefur þó breytt aðeins áherslunum síðan hún tók við og þróað ákveðna þætti hátíðarinnar, sérstaklega hvað varðar „cosplay“ (búningakeppni) og skemmtiatriði, en þeim hefur fjölgað. „Í stað þess að leggja megináherslu á hámenningu kynnum við nú líka alþýðumenningu og poppmenningu. Það hefur gengið mjög vel því nemendur eru margir sérfróðir í japanskri poppmenningu og koma með margvíslegt efni og hugmyndir. Í ár verður helst sú nýjung að við verðum með kynningu á te-seremóníunni og fyrirlestur. Og það verður líka hægt að fá kynningu og kennslu í sushigerð.“

Gunnella er þjóðfræðingur að mennt og hefur m.a. kynnt sér búninga- og afþreyingarmenningu, svo hún hefur haft mikla ánægju af því að taka þátt í að þróa „cosplay“ keppnina sem haldin hefur verið í tengslum við hátíðina undanfarin þrjú ár. „Nemendur okkar hafa margir áhuga á „cosplay“ og þessi keppni hefur stækkað ár frá ári, Staðan núna er sú að erfiðari hluti keppninnar er undanfari og úrslitakeppni fyrir Nordic Cosplay Championship, enda er þetta eini skipulagði vettvangurinn fyrir „cosplay“ á Íslandi. Í þessum hluta keppninnar verða þátttakendur að hafa búið búninga sína til frá grunni og um þá gilda strangar reglur. Hins vegar er líka möguleiki að vera bara í venjulegum búningum sem eru aðkeyptir eða skellt saman úr ýmsum hlutum, og taka þátt í auðveldari riðli keppninnar.“

hugras_japanshatid5 hugras_japanshatid6

Gestir hátíðarinnar eru af öllu tagi; til dæmis fjölskyldur og menntaskólanemar sem hafa áhuga á námsgreininni. Gunnella segir að alltaf komi töluvert af börnum, enda nóg fyrir þau að gera. „Svo er bara hægt að setjast niður í rólegheitum, spjalla við nemendur og kynnast þannig japanskri menningu og hugmyndum.“

Hátíðin er öllum opin og stendur frá klukkan 13 til 17 laugardaginn 30. janúar. Hér má sjá facebook síðu hátíðarinnar.

[Ljósmyndir: Gunnella Þorgeirsdóttir]

Deila


Yfirþyrmandi náttúrukraftur smásagna Rómönsku-Ameríku

17. október, 2017Út er komið annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins sem hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges og Gabriel García Márquez. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006. Aðalritstjóri þessa bindis, Kristín Guðrún Jónsdóttir, segir langflestar sögurnar vera þýddar úr spænsku, en einnig séu sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku. Sögurnar eru allar þýddar úr frummálinu og ...

„Vér hverfum frá oss sjálfum“

16. október, 2017Franska leikritaskáldið Florian Zeller hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verkið Föðurinn, meðal annars Moliere verðlaun árið 2014. Verðskuldað er það. Þetta er ákaflega vel skrifað og sterkt leikrit en það er þannig gert að það leiðir áhorfandann stig af stigi inn i hugarheim föðurins, André, (Eggert Þorleifsson). Sá hugarheimur er framandlegur og kemur okkur á óvart, það tekur smátíma fyrir áhorfandann að ná áttum. Ég ætla því að vara ykkur við og segja: ef þið ætlið að sjá þessa sýningu Þjóðleikhússins ættuð þið ekki að lesa lengra núna – lesið þegar þið eruð búin að sjá sýninguna! Má ég spyrja: ...

Leikstjóraspjall við Baltasar Kormák

13. október, 2017Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði, fjallar um Leikstjóraspjall Baltasar Kormáks, en hann svaraði spurningum um eigin feril og kvikmyndir, íslenska kvikmyndamenningu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.