Við sem erum blind og nafnlaus

Alda Björk Valdimarsdóttir
Við sem erum blind og nafnlaus
JPV, 2015
Fyrr á þessu ári sendi Alda Björk Valdimarsdóttir frá sér ljóðabókina Við sem erum blind og nafnlaus. Alda, sem er með doktorspróf í bókmenntum, kennir við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og kann það að útskýra af hverju undirrituðum þykir Við sem erum blind og nafnlaus vera lærð bók. Í þessu tilviki er orðið lærð ekki notað til að ýja að því að hér sé um hámódernískt, og þar af leiðandi tyrfið verk að ræða, heldur einfaldlega að samsetning þess ber með sér að upphafsmaður textans hafi ljóðformið algerlega á valdi sínu.

Bókinni er skipt í fimm kafla sem bjóða upp á línulega lesningu, þar sem nokkurs konar frásöguframvinda lýkst upp fyrir lesanda, en eins getur hver þeirra hæglega staðið stakur sé bókin gripin úr hillu og gluggað í hana af handahófi. Enn fremur hefur bókin að geyma sterkan tilvistarlegan tón, sem aftur má greina í fáeina gegnumgangandi þræði spennu, íróníu og mótsagna. Í vissum skilningi mætti halda því fram að ljóðmælandi standi á mörkum tveggja mæra, bernsku og fullorðinsára, og mæli út frá tvöfaldri vitund.

Nálgist maður bókina línulega þar sem hver kafli vinnur með öðrum í framvindukeðju er hægt að hugsa sér hana sem vegferð ljóðmælanda, skírskoti maður til ferðalagsins í víðustu merkingu orðsins (heimanganga, meðganga, lífsganga, dauðaganga, þrautarganga, sigurganga, þroskaganga, o.s.frv.). Auk þess mætti halda fram að ritstýring bókarinnar stuðli að því að lesandi verði sögumanni samferða, ef hugað er að því að bókin byrjar á kaflanum „Farvegir táknanna“ en endar á „Via Dolorosa“ [ísl. Vegur þjáningarinnar]. Þannig verður túlkunin um vegferð frá vöggu til grafar ansi áleitin. Hugræn tilvera einstaklingsins hefst með inngöngu hans í táknkerfi tungumálsins en henni lýkur með holdlegum dauða, eins og má ráða af vísuninni í veginn sem Kristur gekk að krossinum. Þar af leiðandi væri hægt að færa rök fyrir því að Við sem erum blind og nafnlaus taki fyrir straumhvörf þar sem eitt skeið endar en annað hefst.

Rödd bókarinnar er persónuleg en yrkisefnið sammannlegt, sem gerir að vitundarmiðja hennar er fljótandi og margræðin. Alda Björk er kvenmaður, dóttir og móðir og fyrir vikið hættir lesanda – hugsanlega – á köflum til þess að lesa ævisögulega í textann, sem gæti reynst villandi þrátt fyrir að vera freistandi, þar sem mælandi er oft og tíðum ekki síður dramatíseraður en „persónur“ ljóðanna. Alda vinnur sér í lagi gegn þessari ævisögulegu túlkun í stílbrögðum og efni ljóðanna sjálfra þar sem hún tekur fyrir sjálfsmyndir, félagslegar stöður og hlutverk kvenna sem heildstæðs en þó misleits hóps. Segja má að félagsleg staða kvenna sé þýdd yfir á eiginleg, og í vissum tilvikum hugmyndafræðileg, rými í ljóðum Öldu þar sem konur hennar er iðulega að finna í eldhúsinu, í hálfrökkrinu, bakvið dyr og þær eru í mörgum tilfellum fremur þolendur en gerendur.

Þó verður að segjast að endrum og eins er líkt og það skjóti púki upp kollinum við lestur bókarinnar. Til dæmis þegar Alda ginnir lesendur á ævisögulegar brautir í ljóðinu „Alda contra mundum“. Tvíræðri virkni táknmynda er flíkað framan í lesanda og vísunin í höfundarnafnið veltir fram fleiri spurningum en það svarar. Hvort er undirskriftin staðfesting á helgi orðsins eða sannferðug blekking? Það er val lesandans.

Í fyrsta hluta bókarinnar, „Farvegi táknanna“, er hnykkt á þessu tvíræða eðli allra táknmynda þar sem ljóðmælandi lýkur upp fyrir lesanda (mögulegum) írónískum leiðarvísi að verkinu. Í upphafsljóði bókarinnar „Þögn er dauði“ má greina að villandi eðli orða er jafnvígt því leiðbeinandi. Í ljóðinu er fullyrt að „í samræðum / sannfærum við hvert annað / um að við séum lifandi“, það er að tilvera okkar sé háð tungumálinu. Ljóðið endar á orðunum:„Þögn er dauði / farvegur táknanna líf“.

Er svo að skilja að ljóðmælandi haldi því fram að einstaklingur byggi tilveru sína á yrðingunni, sköpunarmætti orðsins? Hægt er að skilja hann sem svo að án orða sé ekkert, að merkingarheimur mannskepnunnar byggist á því að nefna hluti nöfnum og áskilja þeim hlutverk, flokka niður og skilgreina. Hins vegar má, í ljósi þess að þótt samskipti séu áberandi umfjöllunarefni í Við sem eru blind og nafnlaus þá er samskiptaleysið það einnig, líta á fullyrðinguna sem svo að hún sé háírónísk.

Táknin eru aðeins verkfæri í höndum mannanna og hvorki góð né ill í eðli sínu. Með táknum byggjum við heiminn en að sama skapi rífum við hann og hvert annað niður með táknum, Strax í upphafi bókarinnar skapast tilhneiging til þess að velta fyrir sér margræðri merkingu orða og hvernig jafnvel orðaleysi, eyður og þagnir eru sömuleiðis þáttur í merkingarsköpun. Þannig sækir Alda Björk (sem höfundur) mátt í þá hugmynd að stroka sjálfa sig sem persónu út úr textanum en samsama sig einhverju stærra þess í stað.

Þessu nær hún til dæmis fram með beitingu tungumálsins sem liggur undir grun. Ljóðmælandi er leystur upp strax í upphafslínu bókarinnar þar sem fyrstu persónu fornafnið „Við“ er handhafi raddarinnar – hér er það hugmynd sem mælir fremur en maður. Titilljóð bókarinnar sem er að finna í kaflanum „Minnisblöð óþekktu húsfreyjunnar“ er einnig lýsandi fyrir þessa hugmynd. „Við sem erum blind og nafnlaus“ (ath: ekki raddlaus) hefst á orðunum: „Konan fékk rödd karlsins lánaða“, en svo fylgir eingöngu lýsing á því hvernig kvenmaður skynjar sjálfa sig út frá sjónarhorni karlsins. Aldrei kemur fram hvað konan gerir við röddina sem hún fékk lánaða, né heldur hvort hún geti mælt með sinni eigin. Spyrja má hvort það sé vanþekking eða vankunnátta sem veldur ákvörðuninni um að beita ekki rödd karlsins, eða var rödd hans fengin að láni í öðrum tilgangi? Eins má spyrja hvort konan sé nokkuð bættari, mæli hún með rödd sem er ekki hennar eigin? „Á meðan hún talar / viðheldur hún blekkingunni / að hún sé heil“, stendur á einum stað.

Von þeirra raddlausu er hugsanlega fólgin í því að þögnin, eyðurnar og táknleysið sé jafnmikilvægt því sem sagt er.
Hugsast getur að bók Öldu sé leit að þessari rödd, þessum samastað í tilverunni þar sem konan þarf ekki að skilgreina sjónarmið sín og segðir út frá karlægum gildum. Í þeim skilningi er rétt að taka fram að hin hliðin á samskiptum og samböndum sem Alda fjallar um í bók sinni er til orðin úr vísvitandi notkun á eyðum, þögninni. Von þeirra raddlausu er hugsanlega fólgin í því að þögnin, eyðurnar og táknleysið sé jafnmikilvægt því sem sagt er. Hugsast getur að manneskjan sé ekki eingöngu mótuð af því sem sagt er við hana heldur einnig af því sem er aldrei fært í orð. Írónía opnunarljóðs bókarinar er helguð þeirri hugmynd og í því felst hugsanlegur máttur þess raddlausa, sem hefur rödd karlsins til afnota en kýs að þegja.

Athygli er vakin á vissum vandkvæðum sem snúa að því hvernig við lítum og skynjum heiminn. Ekki síst í ljóðinu „Milli mín og heimsins“ þar sem Alda tekst á við hvernig skynjun takmarkast við það sem rúmast „innan ferhyrningsins“, þótt aðeins brot tilverunnar rúmist þar innra. Jafnóðum býður textinn upp á þá túlkun að sjónarhornið sem tilveran byggir á sé ætíð skakkt þar sem það styðst við svikult kerfi tákna.

Við sem erum blind og nafnlaus er fyrsta ljóðabók Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, en hún er vandlega yfirveguð. Efni og form eiga ekki einungis vel saman, heldur vinna vel saman og bjóða upp á ófyrirséða merkingarauka við hvern endurlestur. Bókin er skorinort og auðskilin, meitluð en þrungin merkingu.

Um höfundinn
Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson er með MA gráðu í bókmenntafræði. Hann er stundakennari við íslensku- og menningardeild HÍ þar sem hann kennir jöfnum höndum í bókmennta- og kvikmyndafræði.

[fblike]

Deila