Synd og fyrirgefning

Ólafur Gunnarsson
Syndarinn
JPV útgáfa, 2015
Syndarinn, ný saga Ólafs Gunnarsonar, hefst þar sem Málaranum (2012) sleppti. Nú er þó annar málari í brennipunkti. Davíð Þorvaldsson, burðarpersóna Málarans, er hér aukapersóna. Í stað hans stendur keppinautur hans og fjandmaður, Illugi Arinbjarnar, á miðju sviðinu. Syndarinn fjallar um upphafningu hans og fall.

Auðvitað má spyrja hver syndarinn raunverulega sé. Davíð Þorvaldsson er stórsyndugur maður þótt hann sé fyrst og fremst ógæfumaður. Illugi er augljóslega syndugur. Þegar hann á í hlut nægir að nefna hrokann sem er ein af dauðasyndunum sjö. Hann drýgir þó ýmsar aðrar syndir líka. Þó eru fleiri syndarar á ferli í sögunni eins og mannlífinu sjálfu. „Góði“ bróðirinn, Karl, er líka syndari. Hann selur ódauðlega fegurð, málverk Manets, fyrir fé. Með því gerir hann sig sekan um ágirnd — aðra af dauðasyndunum. Svo koma ýmsir statistar úr Helförinni við sögu auk foringjans sjálfs. Hver efast um synd þeirra?

… stundum þótti þessum lesanda nóg um djöfulganginn sem bæði dynur á sögupersónunum og sem þær koma sjálfar til leiðar.
Það er mikið um að vera á öllum 412 blaðsíðum Syndarans og stundum þótti þessum lesanda nóg um djöfulganginn sem bæði dynur á sögupersónunum og sem þær koma sjálfar til leiðar. Mest kveður þar að Illuga sem í upphafi sögunnar er kulnaður og á í mestum vanda við að velja réttu leiðina til að drepa sig. Það er enda eina rökrétta niðurstaða þess sem er sannfærður um að Guð hafi látið sig á jörðina svo að hann mætti gefa mannkyni mikilfengleg málverk og vera sannleikanum trúr en hefur misst tökin á list sinni. Hann á þó eftir að hverfa frá gælum sínum við dauðann, ná aftur tökum á penslinum og líða að nýju eins og Guði þegar hann sagði: Verði ljós. — Hvort sem það svo reynist gæfa hans eða ógæfa. Til einskis verður það þó ekki. Þrátt fyrir þessa bólgnu sjálfsmynd og háleitu köllun hreyfir þó ekkert við honum nema eitthvað djöfullegt eins og hann trúir vígslubiskupinum í Skálholti fyrir.

Þegar hæst ber sér Illugi fyrir sér hvar hann á efsta degi dansar kringum jólatré með Kristi og dr. Göbbels.
Lýsingar á verkum Illuga mynda rauðan þráð í sögunni. Með þessu „listasögulega ívafi“ tengir höfundurinn saman innri og ytri heim Illuga og dýpkar persónuna. Illugi er kópíisti sem sækir í stíl og mótíf klassískra meistara en snýr þeim á hvolf í staðfærslum og túlkunum þar sem trylltar hugsýnir ráða ferðinni. Þegar hæst ber sér Illugi fyrir sér hvar hann á efsta degi dansar kringum jólatré með Kristi og dr. Göbbels. Hápunkti sínum nær þessi endursköpun og viðsnúningur í síðasta verkinu sem aldrei kemur fyrir almenningssjónir en hefur þó hvað mest áhrif í sögunni.

Að byggingu er sagan breið og fyrirferðarmikil skáldsaga um skamman tíma í lífi Illuga Arinbjarnar og samferðafólks hans, raunverulegs og skáldaðs. Vigdís forseti gengur til að mynda ljóslifandi inn í söguþráðinn og út úr honum aftur. Þótt tímaspönnin sé ekki löng er tímalínunni fylgt staðfastlega en tveimur hliðarsögum úr síðari heimsstyrjöldinni skotið inn til skýringar og dýpkunar. Í lokin er þessi klassíska bygging rofin með „Eftirmála“ sem þó er mikilvægur þáttur í sögunni í heild.

Stuttur eftirmálinn breytir öllum hlutföllum í bókinni. Syndarinn fjallar í raun og veru ekki um synd eða syndara heldur sjálfa fyrirgefninguna.
Raunar er það svo að stuttur eftirmálinn breytir öllum hlutföllum í bókinni. Syndarinn fjallar í raun og veru ekki um synd eða syndara heldur sjálfa fyrirgefninguna. Út í gegnum bókina glímir Illugi í trúleysi sínu við spurninguna um hvort fyrirgefning Krists sé skilyrðislaus eða hvort yfirveguð grimmdarverk verði aldrei fyrirgefin. Getur Guð til dæmis fyrirgefið nasistum Helförina? Fyrir sitt leyti svarar Illugi spurningunni í hinu hulda lokaverki sínu sem Davíð Þorvaldsson krýpur frammi fyrir í útskúfun sinni í bókarlok.

Ef til vill fjallar Syndarinn um nemesis, refsingu og niðurlægingu Illuga Arinbjarnar eins og Egill Helga tæpti á í Kiljunni um daginn. En þá fjallar hún ekki síður um karþasis, hreinsun og uppreisn Davíðs Þorvaldssonar, málarans sem drap dóttur sína. Í Syndaranum er Ólafur Gunnarsson hinn alvitri sögumaður sem skapar sögupersónum sínum grimm örlög, þó ekki að eigin geðþótta heldur samkvæmt fyrirfram gefnu lögmáli sem meðal annars má finna í Magnificat, lofsöng Maríu: Hinum voldugu og hrokafullu er steypt af stóli en smælingjar upphafnir (Lúk 1.52). Þetta er sístætt lögmál réttlætisins sem sjaldnast virðist þó annað en draumsýn. Eftirmálinn bindur þéttan enda á söguna og gerir hana að meistaraverki.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila