Stjörnustríðið snýr aftur

Þá er nýjasti hluti Stjörnustríðs loksins kominn í bíó – mynd númer sjö í seríunni, sú fyrsta í nýjum þríleik, Mátturinn glæðist eða The Force Awakens, í leikstjórn J.J. Abrams. Ég hef beðið nýju myndarinnar með hófsamri eftirvæntingu, í bland við óumflýjanlegan kvíða, því ég er mikill aðdáandi gamla þríleiksins og sérstakur áhugamaður um eðli og þróun Stjörnustríðs-seríunnar yfir höfuð, sem á sér undarlega og flókna sögu. George Lucas er furðuverk út af fyrir sig, gamall róttæklingur sem umbreyttist í gráðugan stórjaxl, og samband hans við sínar eigin myndir og aðdáendur þeirra einkennist af stöðugri togstreitu og vantrausti. Hann hefur t.d. harðneitað að gefa út gömlu myndirnar eins og þær birtust áhorfendum á sínum tíma og vill bara að „endurbættu“ útgáfurnar fái að sjást í hágæðum. Aðdáendur hafa m.a. brugðist við með ólöglegum leiðum til að halda gömlu myndunum gangandi á vefnum, en annars hafa þær ekki komið út fyrir heimamarkað óbreyttar síðan um miðjan tíunda áratuginn og eru því í útgáfum sem standast engan veginn samanburð við sjónvarpstæki samtímans.

Óraunsæ eftirvænting

Saga Lucasar er flókin og hana er hægt að kynna sér annars staðar en hér (sjá m.a. grein mína „Leikstjórinn sem þrjóskur einvaldur“ í vorhefti Spássíunnar 2012), því nú er komið að því að skoða fyrstu Stjörnustríðsmyndina sem er framleidd án Lucasar við stjórnvölinn. Eins og flestum er kunnugt keypti Disney réttinn að öllum Star Wars heiminum fyrir nokkrum árum og er nú með margra ára áætlun um að halda sögunni áfram í gegnum ólíka miðla, með kvikmyndum, þáttaröðum, myndasögum, skáldsögum og tölvuleikjum. Eftirvæntingin hefur verið gríðarleg síðan tilkynnt var um The Force Awakens og með hverjum mola sem Disney hefur fleygt til aðdáenda hefur spennan magnast. Fólk öskraði og grét í „viðbragðs-vídjóum“ á netinu þegar Han Solo og Chewbacca birtust í stiklunni. Leyndin í kringum söguþráðinn kynti undir forvitninni og kenningar af ýmsum toga hafa sprottið upp á síðustu mánuðum. En hvernig getur nokkur mynd staðið undir slíkum væntingum? Höfum við ekki upplifað þetta allt saman áður? Jú, fyrir sextán árum, þegar The Phantom Menace kom út. Ég var gríðarspenntur og jákvæður og eins og margir vildi ég innilega trúa að sú mynd væri góð. Meira að segja að áhorfi loknu reyndi ég að halda í trúna. Jú, Jar-Jar Binks var ömurlegur, en það hlaut að vera eitthvað gott þarna, eða að minnsta kosti í vændum. En ég var í afneitun, eins og svo margir, lengi, lengi. Þegar annar og þriðju hlutar forleiksins, Attack of the Clones og Revenge of the Sith, fylgdu á eftir fórum við loksins að átta okkur á að ómögulegt væri að standa undir væntingum og að forleikurinn væri meingallaður af ýmsum ástæðum. Ef einhver heldur því enn fram að forleikurinn séu ágætar myndir, eða a.m.k. ekki alslæmar, bendi ég bara á ítarlega kvikmyndagagnrýni Harry S. Plinketts um málið – og ekki orð um það meir.

Af vef Harry S. Plinkett.
Af vef Harry S. Plinkett.

Ég hef fylgst vel með þróun nýju myndarinnar og umræðunni í kringum hana, kynnt mér helstu kenningarnar og slúðrið, og grannskoðað auglýsingaefnið, ekki bara sem aðdáandi og áhugamaður Stjörnustríðs, heldur af fræðilegum áhuga á því hvernig kvikmyndir á borð við þessar virka í víðara samhengi poppmenningarinnar. Og stemningin hefur verið mjög góð í aðdraganda frumsýningar. Leikstjórinn J.J. Abrams og allt hans lið hefur gengið næstum því vandræðalega langt í að leggja óbeina áherslu á þematísk tengsl nýju myndarinnar við þær gömlu og minnast nánast aldrei á Lucas eða forleikinn. Þannig hefur mikið verið gert úr því að nýju myndirnar verði skotnar upp á tökustöðum, ekki bara frammi fyrir grænum tjöldum, að stuðst verði við praktískar tæknibrellur, ekki bara tölvubrellur, og að áherslan verði á persónusköpun og sögu umfram sjónarspil.

Góður fílingur og grípandi persónur

Ég get ekki beinlínis sagt að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með The Force Awakens, því það er margt mjög flott við hana, en á heildina litið vantaði herslumuninn upp á að hún næði virkilega að heilla mig. Ég held það snúist að miklu leyti um að þennan sjöunda kafla skortir ákveðinn persónuleika eða sérstöðu, eitthvað sem gerir hana að nýjum kafla, en ekki bara áframhaldi og endurvinnslu á senum og þemum sem við höfum séð oft áður. En áður en ég ræði þessa galla af alvöru er mikilvægt að benda á hversu vel er staðið kvikmyndagerðinni sjálfri. Hún stendur við óbeina loforðið um að aðgreina sig frá forleiknum og vísa aftur til gömlu trílógíunnar, enda er myndin framhald af þeim – ekki forleiknum. Augljós ást The Force Awakens á forverum sínum er í raun einn helsti styrkleiki myndarinnar, en jafnframt sárasti veikleikinn, sem ég kem að örlítið síðar.

Augljós ást The Force Awakens á forverum sínum er í raun einn helsti styrkleiki myndarinnar, en jafnframt sárasti veikleikinn, sem ég kem að örlítið síðar.
Ákvörðun leikstjórans að skjóta á tökustöðum og nota praktískar brellur til að skapa áþreifanlegan heim skilar sér í mjög hrárri og fallegri upplifun á Stjörnustríðs-heiminum strax í upphafi. Sérstaða fyrstu myndarinnar lá m.a. í því hvernig Lucasi tókst að skapa „gamla“ og „notaða“ sýn á vísindaskáldskap, veröld sem fólk bjó greinilega í, þar sem geimskip voru gömul og sjúskuð og ekki allt glansandi og nýpússað, eins og hefðin var í vísindamyndum. The Force Awakens gengur enn lengra með þetta, með því að kynna okkur snemma fyrir plánetunni Jakku, þar sem ein aðalpersónan – Rey – starfar sem skransafnari innan um leifar af brotlentum og ónýtum geimskipum. Þessar fyrstu senur með henni eru gullfallegar og mér leið eins og ég væri kominn í heimsókn á góðan og kunnuglegan stað.

Star-Wars-Rey
Mynd: Disney

J.J. Abrams má eiga að hann er mikill listasmiður með góðan skilning á því sem gerði gömlu myndirnar lifandi og skemmtilegar. Enn fremur kann hann að endurskapa „Star Wars fílinginn“ og ég átti alveg til að gleyma mér í flæðinu og hverfa reglulega inn í söguna. Geimbardagarnir eru flottir og hvorki yfirgengilega langir né ruglandi – ég sá myndina í þrívídd og var furðuánægður með hversu vel hún kom út – og þegar geislasverðin mæta loks til leiks er það kærkomið og reglulega vel að verki staðið. En það sem gerir þann bardaga svo grípandi er að okkur stendur ekki á sama um persónurnar – ólíkt hryllilega langa og leiðinlega bardaganum í lok Revenge of the Sith, þar sem trilljón tæknibrellur gátu ekki vakið áhuga manns vegna þess að dramatíkin var alveg steingeld. Það sem skiptir meira máli heldur en að skapa réttu stemninguna er nefnilega að skapa lifandi og sterkar persónur.

Oscar Isaacs og Domhnall Gleeson sýna stórleik saman í Ex Machina.
Oscar Isaacs og Domhnall Gleeson sýna stórleik saman í Ex Machina.

gwendo_350px
Gwendoline Christie (úr Game of Thrones), er í hlutverki hershöfðingjans Phasma.

Samtöl og persónusköpun var reyndar ekki sterkasta hlið Lucasar í gamla þríleiknum, en manni þótti samt vænt um sögupersónurnar og tók líf þeirra alvarlega. Helsta vandamálið við forleikinn voru óspennandi og illa skrifaðar persónur, sem sugu allt líf úr dramanu í kringum fall Anakins Skywalker. The Force Awakens yrði aldrei meira en nostalgískt skraut ef ekki væri fyrir grípandi persónur og að mestu leyti tekst vel til. Aðalhetjurnar okkar, skransafnarinn Rey og uppgjafahermaðurinn Finn, eru fínar og eiga í góðu sambandi á skjánum. Húmorinn á milli þeirra er kannski kjánalegur á köflum, en virkar sem gott mótvægi við hasarinn og dramatíkina sem umkringir þær. Leikararnir eru bæði lítt þekkt andlit – rétt eins og allir leikararnir í gömlu myndunum á sínum tíma – og þau standa sig stórvel sem aðgengilegar persónur fyrir áhorfendurna. Öðrum, þekktari leikurum er hins vegar sóað töluvert. Eftir að hafa séð Oscar Isaacs og Domhnall Gleeson sýna stórleik saman í Ex Machina fyrir skemmstu var ég mjög spenntur að mæta þeim á ný í þessari veröld – sérstaklega Isaacs, sem er með áhugaverðustu ungu leikurum samtímans. En persónur þeirra eru afskaplega einfaldar – einn góður, hinn vondur, og þeir gera lítið annað en að standa sig eins og hetjur eða þruma illilega yfir hermönnunum sínum. Það sama má segja um Gwendoline Christie (úr Game of Thrones), sem hefur verið auglýst töluvert í hlutverki hershöfðingjans Phasma, en fær lítið spennandi að gera.

Adam Driver í hlutverki Kylo Ren. Mynd frá Vanity Fair/Annie Leibovitz
Adam Driver í hlutverki Kylo Ren. Mynd frá Vanity Fair/Annie Leibovitz

Annað sem ber að hrósa sérstaklega við persónurnar í The Force Awakens eru kvenhlutverkin og að kynjahlutfallið hefur verið bætt miðað við það sem áður var.
Adam Driver í hlutverki óörugga illmennisins Kylo Ren stelur hins vegar algjörlega senunni og heldur myndinni að miklu leyti uppi. Hann er í raun það eina sem virkar eins og ferskur andvari innan um þær annars nokkuð vel troðnu slóðir sem myndin fylgir. Ren lítur á sig sem arftaka Darth Vaders og vill útrýma síðasta Jedi-riddaranum, sama hvað það kostar. Hann er hins vegar truflaður og ófyrirsjáanlegur, ofbeldisfullur og fullur af heift, og ég man ekki eftir að hafa séð jafn skemmtilega tilfinningaríka persónu í allri Star Wars seríunni. Hann sýnir meiri dýpt og innlifun heldur en Anakin Skywalker gerði í öllum forleiks-þríleiknum og er umsvifalaust kominn í mikið uppáhald hjá mér. Annað sem ber að hrósa sérstaklega við persónurnar í The Force Awakens eru kvenhlutverkin og að kynjahlutfallið hefur verið bætt miðað við það sem áður var. Rey er flott kvenhetja sem stefnir í að vera áfram í aðalhlutverki í næstu myndum, en auk hennar fær Leia prinsessa auðvitað að snúa aftur, auk þess sem vitringurinn Maz Kanata, leikin af Lupitu Nyong‘o á bak við tölvugervi, er í mikilvægu hlutverki.Og þótt hershöfðinginn Phasma sé ekki sérlega bitastætt hlutverk, þá er gott að hafa Gwendoline þarna undir hjálminum. Það besta við kynjakvótann eru þó litlu aukahlutverkin sem eru á víð og dreif um allt, en við sjáum konur jafnt sem karla bæði í stjórn uppreisnarseggjanna og hjá vonda liðinu, sem ég man ekki eftir að hafa séð áður.

Loks ber að nefna persónu litla vélmennisins, BB-8, sem leikur stórt hlutverk og kemur í stað róbótanna ráðagóðu í gamla þríleiknum. Hann mun eflaust stuða einhverja sem óþarflega krúttlegur og fyrst og fremst til staðar til að létta okkur lund, en hann er að minnsta kosti enginn Jar-Jar Binks. Gömlu róbotarnir þjónuðu svipuðum hlutverkum á sínum tíma, en BB-8 gengur áberandi lengra sem gamanhlutverk og stingur stundum í stúf við myrkt og drungalegt samhengið. Hann er augljóslega hannaður fyrir yngstu kynslóðina, enda er fjögurra ára dóttir mín afar hrifin af honum. Ég mun þó ekki taka hana með í bíó, því The Force Awakens er ansi drungaleg á köflum og eflaust of þung fyrir allra yngstu áhorfendurna.

Þær ríma, eins og ljóð

En snúum okkur loks að göllunum. Ef „Star Wars fílingurinn“ er einn helsti styrkleiki myndarinnar, þá er veikleikinn einmitt fólginn í því hversu mikið The Force Awakens sækir í gömlu myndirnar. Þetta var eitt áhyggjuefnið í aðdragandanum – að myndin ætti eftir að ganga of langt í að heilla og þóknast aðdáendum. Hún gerir það vissulega á yfirborðslegan hátt, með því að láta persónur fara með tilvísanir í gömlu myndirnar og tvinna hlutum saman við (eða troða þeim inn í) söguþráðinn á langsóttan máta. En vandamálið tengist frekar dýpri uppbyggingu handritsins, sem sækir furðulega grimmt í fyrstu Stjörnustríðs-myndina. Það er allt í lagi að leyfa myndum að ríma, að vinna með skyld þemu á borð við fjölskyldumynstrið sem er fyrir miðju í The Force Awakens, rétt eins og í gömlu myndunum, en myndin gengur svo langt með endurtekin stef að hún tapar sérstöðu sinni fyrir vikið. Hvar liggja mörk nostalgíunnar? Það er allt í lagi að hafa Han Solo og Leiu prinsessu og þessa gömlu karaktera, því þau passa mun betur inn í heildarmyndina en ég þorði að vona og eru meira en bara upphafin gestahlutverk. En handritið skautar svo oft inn á gömul svæði að það verður truflandi, jafnvel fráhrindandi á köflum, að minnsta kosti fyrir þá sem eru sæmilega vel læsir á gamla þríleikinn.

 

En samanburðurinn verður vandræðalegur á köflum! Myndin byrjar á vélmenni sem brotlendir á sandplánetu með mikilvægar upplýsingar innanborðs sem vondu karlarnir gera allt til að koma höndum yfir – alveg eins og fyrsta Star Wars. Svo kemur hver senan á eftir annarri – aha, já, þessi sena, og svo þessi sena, sem er eins og þessi þarna.
Augljósustu dæmin eru sviðsetningarnar þrjár: sandpláneta, skógarpláneta, snjópláneta. Svo er það „ferð hetjunnar“ og allt það. Handritshöfundarnir hafa eflaust talið sig snjalla að skrifa nýja sögu sem byggir á formi þeirrar gömlu – enda snerist gamla myndin alfarið um að byggja á öðrum sögum og vinna með minni ævintýrasápuópera á borð við Flash Gordon og Buck Rogers – en ég fékk frekar á tilfinninguna að þeir hafi viljað fara örugga leið með því að styðjast við söguefni sem hefur virkað áður og ætti því að vera nokkuð pottþétt. En samanburðurinn verður vandræðalegur á köflum! Myndin byrjar á vélmenni sem brotlendir á sandplánetu með mikilvægar upplýsingar innanborðs sem vondu karlarnir gera allt til að koma höndum yfir – alveg eins og fyrsta Star Wars. Svo kemur hver senan á eftir annarri – aha, já, þessi sena, og svo þessi sena, sem er eins og þessi þarna. Ég var farinn að tikka við boxin í huganum og það dró mig út úr sögunni og þeim annars góða fíling sem myndin nær að smita út á við þegar hún kemst á flug. Textatengslin verða svo áberandi eftir því sem á líður að þegar kemur loks að hádramatískri senu sem ég mun ekki fara nánar út í hér, þá vitum við strax hvað mun gerast – því við höfum séð atriðið áður! Meira að segja aðalógnin í plottinu er sú sama og við höfum séð oftar en einu sinni og gerir að verkum að The Force Awakens virkar stundum eins og endurgerð í dulargervi framhaldsmyndar.

Það eru samt góðar hugmyndir í gangi, innan um allt þetta óþarfa rím. Hugmyndin um nýja herliðið sem vill halda starfi keisaraveldisins og Darth Vader áfram. Hugmyndin um aðdáanda Darth Vader og hvernig atburðir gömlu myndanna hafa nú hlotið yfirbragð þjóðsagna, ef ekki goðsagna. Hugmyndin um fjölskyldutengslin í kringum Kylo Ren, þótt þau séu dálítið fyrirsjáanleg. En handritið er líka þjakað af auðveldum lausnum, tilviljunum sem virðast engu hlutverki þjóna öðru en að færa söguna áfram, og svo stórum götum í plottinu að hægt væri að fljúga heilu geimmóðurskipi þar í gegn. Veröld Stjörnustríðs-myndanna er gríðarstór, en einhvern veginn er eins og allar persónur sem skipta nokkru máli búi í sama litla hverfinu, þar sem allir hittast akkúrat á réttum stað og stundu. Kannski er það Mátturinn sem stýrir öllum saman, en mig grunar frekar að latir handritshöfundar standi þar að baki. Hugmyndin um að sagan endurtaki sig er auðvitað eitt aðalþema myndarinnar og kannski er pælingin að láta handritið endurspegla það að einhverju leyti, en ég fékk ekki á tilfinninguna að sú hugsun réði ríkjum, heldur frekar að endurtekning væri örugg, auðveld og sannreynd leið til að segja þaulreynda Stjörnustríðssögu, sem kemur lítið á óvart fyrir vikið.

The Force Awakens er með yfirborðið á tandurhreinu og hjartað á réttum stað og þótt margt gott sé að finna í myndinni þá snúast vonbrigðin mín fyrst og fremst um að ekki hafi verið reynt að gera eitthvað nýtt með söguefnið. Heimurinn er gríðarstór og fjölbreytilegur!
Mér þykir mjög vænt um Stjörnustríðs-heiminn. Ég púsla saman Star Wars jóladagatali á hverjum morgni með dóttur minni (sem er jafnt leikfang fyrir mig og hana – í morgun fengum við AT-AT vél!). Ég mun alveg örugglega fara aftur að sjá The Force Awakens aftur í bíó og hver veit nema skynjun mín á henni muni breytast með tímanum. En þótt auðvelt sé að segja að allt væri skárra en forleiksþríleikurinn, þá vil ég samt gera töluverðar kröfur til nýju myndanna og í því samhengi þarf meira en bara góðan fíling ef þær eiga að endast. The Force Awakens er með yfirborðið á tandurhreinu og hjartað á réttum stað og þótt margt gott sé að finna í myndinni þá snúast vonbrigðin mín fyrst og fremst um að ekki hafi verið reynt að gera eitthvað nýtt með söguefnið. Heimurinn er gríðarstór og fjölbreytilegur! Er ekki hægt að segja fleiri sögur heldur en bara af uppreisnarfólki sem berst við fasískt yfirvald? Höfum við ekki fyrir löngu fengið nóg af því? Kannski þurfti J.J. Abrams bara að sanna sig fyrir okkur, sýna að hann gæti gert „Star Wars mynd“, og mögulega er þetta nauðsynlegt nostalgískt millistig sem mun líða hjá. Ef þessi mynd á að setja tóninn fyrir það sem koma skal er greinilegt að serían þarf að hrista nokkuð duglega gömlu myndirnar utan af sér og þora að stíga fyrsta skrefið yfir í stærri veröld, svo ég vísi í Obi-Wan Kenobi. Disney ætlar að gera heilan helling af myndum í framtíðinni og vonandi fáum við þá eitthvað af ferskum sögum sem þora að fara ótroðnar slóðir.

Um höfundinn
Gunnar Theodór Eggertsson

Gunnar Theodór Eggertsson

Gunnar Theodór Eggertsson er doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og stundakennari í bókmennta- og kvikmyndafræði. Hann hefur sérhæft sig í gagnrýnni umræðu um samband mannfólks og annarra dýrategunda í samtímamenningu.

[fblike]

Deila