Þegar þokunni léttir

Sjón
gráspörvar og ígulker
JPV, 2015
Í gráspörvum og ígulkerjum leitast Sjón við að afmá mörkin milli þess sem dags daglega myndi kallast ósamræmanlegar hugmyndir: líf og dauði; hið innra og ytra; hið veraldlega og andlega; hversdagur og goðsögn; draumur og vaka. Bókin byrjar á ljóðinu „(hólavallagarður)“ en þar lýsir ljóðmælandi draumi sínum þar sem hann stendur við „hliðið á suðausturhorni kirkjugarðsveggsins“, „berfættur á náttfötunum“ og horfir „inn í dimman kirkjugarðinn“. Markverður er endirinn á ljóðinu þar sem mælandi tjáir lesanda: „nýverið tók mig að renna í grun að ég hafi ekki vaknað – ég standi þar enn.“

Lykillinn sem lesanda er réttur að verkinu er boginn. Hann er ekki ónýtur því hann opnar enn dyr, nema það er óvíst hvort það séu dyr sem leiða til skilnings eða glundroða, óvíst hvort rödd bókarinnar sé stödd í draumi eða veruleika.

Mörkum milli svefns og vöku er eytt þar sem sá sem mælir hefur efasemdir hvort heimsmynd hans (okkar) sé á rökum reist eða hvort hún byggi á þeirri (ó)reglu sem kemur á óvæntum fundum saumavéla og regnhlífa á skurðborðum. Þrjú ljóð bókarinnar fjalla þannig sérstaklega um drauma og eiga það sameiginlegt að vera þau einu sem eru í fyrstu persónu, og þar af leiðandi mælskufræðilega nær höfundi. Opnunarljóðið flöktir á mærum óra og veruleika, ljóðið „(landsbókasafn)“ íhugar boðleiðir þekkingarinnar og „(reykjavíkurhöfn)“ tekur aftur fyrir bilið milli draums og vöku, nema í stað efans er þar komin staðfesting á vökuástandinu: „það fyllir mig súrrealískri sælu að vita að það er veruleiki en ekki draumur […]“, segir ljóðmælandi.

Er þá höfundur að hæðast að þessum ljóðum, að veikja merkingu þeirra, eða er hann að skilja sundur mörkin milli jarðlífs og draums?
Athyglisverð er notkun Sjóns á svigum í þessum ljóðum. Praktískt eru svigar notaðir fyrir einhvers konar innskot, eitthvað utanaðkomandi, sem skiptir ekki jafnmiklu máli og meginmálið – eitthvað sem má hlaupa yfir. Eins er hægt að hugsa þá sem svo að undið sé upp á merkingu þess sem sett er í svigann, líkt og þegar upphrópunarmerki innan sviga eru notuð í háði. Er þá höfundur að hæðast að þessum ljóðum, að veikja merkingu þeirra, eða er hann að skilja sundur mörkin milli jarðlífs og draums?

Að því spurðu – en ósvöruðu – má taka fram annað atriði sem snertir týpógrafíu bókarinnar, en það er að hún er eingöngu skrifuð með lágstöfum. Titlar eru ritaðir með lágstöfum og að sama skapi allur texti, hvort sem hann er í upphafi, miðju eða enda setningar. Þessir aðferð vekur upp hugrenningar hvort ásetningurinn sé fagurfræðilegur eða hvort einhver stærri hugsun hvíli að baki. Er Sjón kannski í uppreisn gegn málfræðinni?

Í gráspörvum og ígulkerjum dansar ljóðmælandi á línu sem skilur að veraldlega upplifun og þá sem lúrir handanvið. Strangt til orða tekið mætti telja að það séu ekki sértæk dæmi á borð við vöku og draum, eða aðrar andstæður á borð við jarðlífið eða handanlífið sem liggja undir grun, heldur séu það þekkingarkerfi mannsins eins og þau leggja sig – meðal annars tungumálið. Stöðluð þekking. Almenn þekking. Rökleg þekking. Hvaðan hún kemur og hvernig henni er beitt. Hverju maður trúir og byggir heimsmynd sína úr.

Sjón virðist hamra á því að skilin milli almennrar skynsemi og dulspeki (exóteríkur og esóteríkur) séu ekki afdráttarlaus heldur fljótandi og loðin. Honum er tíðrætt um bækur og hvað þær hafa að geyma. Ljóðmælandi gleymir sér á landsbókasafninu og ver dögunum í endalausri leit í spjaldskránum í stað þess að lesa bækurnar sjálfar. „erindið á safnið gleymdist þegar ég hóf leitina.“ Hann flettir „fram og til baka, þvers og kruss, [fer] upp og niður eftir skúffunum, skáp úr skáp“ og drekkur í sig bókfræði í stað bóka. „það eru undur að kúpan hafi ekki brostið, að ég héldi vitinu“. Til er þekking, og svo er til þekking, virðist hann vera að segja, sem kallar á spurninguna: hvers virði er sú sem hann gekk með út af safninu?

Spjaldskrárnar á safninu eru dæmigerðar fyrir aðskilnaðarflokkunarfræði þeirrar þekkingar sem við teljum sjálfsagða eftir innrætingu upplýsingarinnar en hentar víst vísindamönnum betur en skáldum. Sjón særir fram þá daga þegar ekki var enn búið að girða af hugsunina og talar um þá tíð þegar „við enn heyrðum krúnk í hvítum hröfnum“, „áður en við týndum marbendlinum og hvaleyjunni“ á „meðan við enn þögðum um náttúru einhyrningsins“, þegar þekkingin hafði ekki reist hugsuninni skorður. Skáld bræða saman og kveikja líf, vísindamenn bása af og kryfja.

Sjón beitir þeirri kenningu sem hann virðist setja fram í fyrsta hluta, að ekki sé allur galdur úr veröldinni.
Bókin er í fjórum hlutum. Hún hefst á draumi og hugvekju um stöðu og samsetningu þekkingarinnar, svo tekur við kafli sem kallast danse grotesque. Tröllvaxin kona finnst látin og ljóðmælandi gerir lesanda samsekan sér um að vekja hana aftur til lífs, með orðinu „við“ – hvílíkur er kraftur orða. Sjón beitir þeirri kenningu sem hann virðist setja fram í fyrsta hluta, að ekki sé allur galdur úr veröldinni. danse grotesque er jafnvel meira í ætt við galdraþulu en ljóð, byggir á endurtekningu, talnaspeki og helgisiðum; og nýtir sér aðferðir konkretljóðsins til þess að leysa upp formið og færa stafina úr stað líkt og þeir öðlist sjálfstætt líf við yrðinguna – dansi á beinhvítri örkinni.

Í þriðja hluta er tilveran aftur á móti gerð skiljanleg með því að snúa almennri skynsemi á rönguna, „framtennur vaxa á fjallbrúnum / í yfirgefnum þinghúsum“ og linditrén vaxa „með sérstöku leyfi yfirvalda“. Loks er kverinu lokað með draumkvæði. Formið, líkt og goðafræði Sjóns, á sér engin upptök og því síður endi. Við förum öll í hringi, það er aðeins afstaða okkar sem breytist – og ekki endilega til batnaðar.

gráspörvum og ígulkerjum verður seint gerð viðunandi skil í litlum bókadómi sem þessum því hún spannar ómælanlegar víddir hugsunarinnar en titill bókarinnar, gráspörvar og ígulker, gefur tilvonandi lesendum hennar ádrátt um innihaldið. Sjón sagði fyrir skömmu, í viðtali í Víðsjá, að „ljóðið [væri] bara eins og einhver gráspörvi eða ígulker, en í titlinum [væri] líka verið að reyna að skoða allt sem þar er á milli“.

Að skýringum höfundar slepptum er forvitnilegt að huga að öðrum merkingarmöguleikum titilsins. Spörfuglinn er góður söngfugl með flókið raddhylki en ígulkerið heilalaust og gaddaklætt skrápdýr fullt af meltingar- og æxlunarfærum.

Höfum við hér bandamenn af bestu sort, eða illsamræmanlegar skepnur hvora úr sinni átt? Til þess að fá úr því skorið er gagnlegt að rýna í kápu bókarinnar. Þar gefur að líta myndskreytingu sem slær gráspörvanum og ígulkerinu saman í eina hringlaga heild sem vekur upp hugrenningar hvort hér sé um að ræða sameiningu þess háfleyga og þess sem hvílir í djúpunum; hvort taugaendum ígulkersins, maríneruðum í glori og greddu, sé ljáð fögur söngrödd spörfuglsins eða hvort hér sé hvorki fugl né fiskur? Þetta kann að virðast ögn kynleg lýsing og hrottaleg, en Sjón er með réttu skáld „undurs, hryllings og ógna“, sem treystir á „auðlindir óreiðunnar“, líkt og Guðni Elísson hefur bent á.[1]

Í einu af styttri ljóðum bókarinnar segir: „það vill henda í ljóðum / að þegar þokunni léttir / taki hún með sér fjallið“. Þessi orð eru að mörgu leyti lýsandi fyrir það sem á sér stað þegar Sjón yrkir. Þau fjöll sem marka sjóndeildarhring okkar daglegu tilveru hverfa í hvítri þoku þegar við lesum Sjón og það er alls óvíst hvort þau standi þar enn að lestri loknum.

[line]

[1]Guðni Elísson, „Við ysta myrkur. Forboðnir listar í ljóðum eftir Sjón“ Ritið 2/2011, bls. 67-84, hér bls. 67, 71.

Um höfundinn
Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson er með MA gráðu í bókmenntafræði. Hann er stundakennari við íslensku- og menningardeild HÍ þar sem hann kennir jöfnum höndum í bókmennta- og kvikmyndafræði.

[fblike]

Deila