Nafnið er Jobs – James Jobs

[x_text]Hvernig má vera að mér hafi þótt ævisöguleg stúdía á vöruhönnuði og markaðsgúru meira spennandi en yfirdrifin og eldhröð hasarmynd um einn vinsælasta leyniþjónustumann allra tíma? Ég verð að byrja á að játa að ég er hvorki sérstakur aðdáandi James Bond né Steve Jobs og fór með svipaðar væntingar á báðar myndir: að þetta yrði að minnsta kosti áhugavert í meðallagi. Steve Jobs hefur fengið dræma aðsókn, en góða dóma, og er með sérstaklega gott lið á bak við sig – en ekki sérlega lokkandi efnivið. Spectre kemur á hæla Skyfall og ég hafði heyrt að hún stæðist ekki þann samanburð (Skyfall er af mörgum talin með bestu Bond myndum allra tíma), en hún væri samt ágæt sem slík. Það kann að hljóma undarlega að taka þessar tvær myndir saman í pistli, en fyrir utan að vera báðar í bíó á sama tíma bjóða þær upp á áhugaverða umræðu í samneyti hvor við aðra, ekki síst tengt þeirri hugmynd að frumleg, vel skrifuð og umfram allt kvikmyndræn (eða cinematísk) bíómynd geti slegið út allan hasarinn og sprengingarnar í stórhasarnum, sama hversu óspennandi efnið kunni að virðast.

Byrjum á Bond

Þar sem ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á Bond kemur kannski ekki á óvart að ég hafi ekki séð neina af Daniel Craig myndunum fyrr en um daginn. Í miðri eftirvæntingunni tengdri Spectre sló ég loksins til og horfði á Skyfall, til að kynnast þessum groddalega og listræna Bond sem allir virtust dýrka. Og hún var ansi heillandi, verður að segjast. Ég fílaði Craig og allt liðið í kringum hann, sérstaklega samband hans við Judi Dench, og dáleiddist alveg af fallegri myndatöku Roger Deakins. Leikstjórinn Sam Mendes er óvenjulegt val fyrir Bond-mynd og hérna þóttist ég skynja eitthvað nýtt og spennandi. Skyfall er vissulega full af vitleysu líka, þannig séð, og fer út í hinar og þessar hasarklisjur, en ekkert miðað við þann Bond sem áður var (ég sá þó hvorki Casino Royale Quantum of Solace, þannig að ég er frekar að miða við eldri myndir á borð við Die Another Day). Myndin nær einhvern veginn að yfirstíga þær klisjur og heildartónninn helst skýr og flottur út í gegn.

UK_Skyfall_PosterÉg vissi að ég ætti ekki að búast við annarri Skyfall – þótt sami leikstjóri væri við stjórnvölinn – og ég hafði heyrt að þessi mynd væri meira „óld skúl“, í merkingunni meiri kjánalæti og töffaraskapur, og fleiri ein-setningar (one-liners). Ég hefði því átt að vera í akkúrat réttu stellingunum til að hafa gaman af myndinni – en Skyfall hafði greinilega afvegaleitt mig þannig að ég gleymdi hversu mjög mér leiðist „óld skúl“ Bond. Það rifjaðist ærlega upp fyrir mér eftir því sem leið á Spectre.

Byrjunin er svakalega flott og setur standardinn strax ansi hátt. En því miður, ekki ósvipað Mission Impossible V, nær myndin aldrei sömu hæðum aftur og smátt og smátt lognast áhuginn út af. Að sama skapi fer sagan jafnt og þétt út í gamaldags, óspennandi og einfeldningslega James Bond vitleysu og handritið liðast alveg í sundur. Ég skil samt að þetta sé það sem margir fíli við Bond, enda á Spectre svo sannarlega sína aðdáendur og hefur víða fengið alveg glimrandi góða dóma, en að mínu mati var þetta leiðinlegt afturhvarf. Síðasta hálftímann var ég alveg hættur að skilja framrás sögunnar. Það má víst ekki kjafta of mikið frá lokasprettinum en því meira sem ég hugsa um hann, þeim mun trúverðulegri verður þessi greining um að síðasti hálftíminn sé alfarið blautur draumur James Bond í andaslitrunum. Það er eina leiðin til að útskýra allar kjánalegu klisjurnar og auðveldu lausnirnar sem er dröslað fram á lokasprettinum. Þar ætla ég þó líklega Bond of mikla dýpt. Ætli myndin sé ekki bara svona illa skrifuð.

Þetta gerði að verkum að öll sú góða spenna, fiðringur og hasarfílingur sem Spectre náði að kveikja hjá mér í upphafi bíóferðarinnar var búin að breytast í leiðindi og pirring undir lokin. Ég var greinilega ekki einn um það, því ég naut þess að hlusta á hóp unglinga röfla um myndina á leiðinni út og brjóta hana niður. Spectre minnti mig á hvers vegna mér leiðist James Bond og fékk mig til að skilja enn betur hvað gerir Skyfall svona góða.

Steve Jobs

jobs_og_manmachine_posterSnúum okkur þá að öðru átrúnaðargoði samtímans, sem á kannski lítið sameiginlegt með Bond annað en að líf þeirra beggja snýst að vissu leyti um að eiga snjöllustu og flottustu græjurnar. Áður en ég dembi mér í seinni mynd pistilsins er þó við hæfi að lýsa því jafnframt yfir að ég tilheyri ekki „költi“ Steve Jobs, ekki frekar en „költi“ James Bond, og hef ekki sýnt sögu hans sérstakan áhuga hingað til. Sú saga hefur þegar verið sögð í nokkrum myndum, þ. á m. Jobs með Asthon Kutcher í titilhlutverkinu, sem mig hefur aldrei langað að sjá, en líka í nýlegri heimildamynd eftir Alex Gibney, sem ég vil endilega sjá, því Gibney gerir ávallt spennandi og vel unnar myndir.

Steve Jobs hefur verið lengi í bígerð og er leikstýrt af Danny Boyle, sem kom seint inn í verkefnið eftir að hafa reynt að koma ævisögulegri David Bowie mynd í gang, án árangurs. David Fincher ætlaði lengi vel að tækla Jobs, áður en hann hvarf yfir í annað verkefni, enda er handritshöfundurinn Aaron Sorkin sá sami og skrifaði The Social Network. Sorkin er þekktur fyrir mikla heimildavinnu í sínum skrifum, lætur ekki duga að lesa annarra manna bækur, og þótt myndin sé sögð byggja á formlegri ævisögu Jobs eftir Walter Isaacson þá fór Sorkin líka og tók sín eigin viðtöl, reyndi að kynnast persónunum og virðist hafa fengið mikla innsýn í viðfangsefnið fyrir vikið.

Myndin var ansi lengi í smíðum og kannski er það ein ástæða þess að henni hefur ekki gengið svo vel í bíó. Almenningur er líklega orðinn leiður á að heyra um Steve Jobs og Jobs „költið“ vill ekki sjá neitt sem sýnir hann í neikvæðu ljósi, en auðvitað hafa heilmiklar deilur verið í gangi um réttmæti túlkunar Sorkins á persónu Jobs. Miðað við það litla sem ég hef kynnt mér virðast þær bæði snúast um að hann sé sýndur sem of mikill leiðindapúki, eða ekki nógu mikill leiðindapúki. Jobs var augljóslega afar flókin persóna, eflaust með vott af siðblindu, eins og margir höfuðpaurar stórfyrirtækja, og í betra sambandi við tölvur en mannfólk. Að vissu leyti mætti þó alveg skilja á milli raunverulegrar persónu Jobs og hinnar skálduðu, því Sorkin fer snjalla leið að því að segja ævisögu og ákveður að byggja handritið upp sem afar sjálfsmeðvitaða sviðsetningu. Það gefur myndinni nokkurs konar tímalausan blæ, og hefði alveg getað leitt til þess að tengingin við Jobs héldist á bak við tjöldin á meðan aðalpersónan fengi að vera skálduð en innblásin af honum – ekki ósvipað Charles Foster Kane og William Randolph Hearst í höndum Orson Welles. Ég vildi eiginlega að Sorkin og Boyle hefðu farið þá leiðina, falið tenginguna við Jobs og leyft dæmisögunni og skáldskapnum að ráða meira ríkjum, því myndin fer svo nærri því hvort eð er. Við þurfum í raun ekki að vita hver Steve Jobs var til að lifa okkur inn í þessa sögu af kaldlyndum bisnessmanni og samskiptum hans við fólkið í kringum sig. Þar sem ég þekki svo lítið til Jobs upplifði ég myndina að vissu leyti á þennan hátt: sem skáldskap, sem sviðsetningu, sem hugleiðingar um mannlegt eðli og samskipti, um vald, stjórnun og togstreitu, og ekki síst samtímaneysluna og trúarbrögð tækninnar í hversdagsleikanum.

Myndin er í raun og veru bara þrjú löng atriði, sem eiga sér öll stað baksviðs, áður en ný vara er kynnt með hátíðlegri athöfn. Sú fyrsta árið 1984, önnur 1988, þriðja 1998.
Steve Jobs er listilega vel sett saman, unnin og uppbyggð. Ég get varla verið einn um að vera kominn með lítið þol fyrir þeirri ofgnótt af ævisögulegum myndum sem fylgja sama mynstrinu – svo ég tali nú ekki um ævisögulegar tónlistarmyndir – þar sem við skautum yfir æviskeið og sjáum nokkurs konar „best-of“ úr dramatíkinni. Vissulega er hægt að gera það vel, en slíkar myndir verða alltof oft fyrirsjáanlegar og óspennandi sem kvikmyndagerð. Það besta við Steve Jobs er sjálft formið: þrískiptingin. Myndin er í raun og veru bara þrjú löng atriði, sem eiga sér öll stað baksviðs, áður en ný vara er kynnt með hátíðlegri athöfn. Sú fyrsta árið 1984, önnur 1988, þriðja 1998. Myndin á sér stað nærri alfarið innandyra og verður mjög leikræn fyrir vikið, ekki síst vegna textasmíða Sorkins, sem er þekktur fyrir vel skrifaðan en á köflum alveg yfirdrifinn díalóg – það er talað út í eitt. Í höndum annars leikstjóra væri hætt við að slík kvikmynd yrði köld og flöt (þótt það gæti virkað sem leikrit), en Boyle fer alla leið í að gera myndina spennandi og kvikmyndræna. Fyrsti hlutinn er þannig t.d. allur skotinn á 16mm filmu, annar á 35mm og sá þriðji stafrænt til að veita þeim ólíkan blæ. Sama skipting endurspeglast svo í tónlistinni. Kaflarnir voru líka skotnir eins og ólíkar myndir: æft fyrir einn í einu og þeir teknir upp í réttri tímaröð.

Leikararnir eru stórkostlegir, en varla við öðru að búast frá Michael Fassbender, Kate Winslet og leikstjórn Boyles. Þótt Fassbender sé ekkert sérstaklega líkur Jobs, þá nær hann að skapa karakter sem er í senn algjör ruddi og furðulega heillandi. Winslet er algjört kamelljón sem Joanna Hoffman, samstarfskona Jobs, sem virðist hafa verið sú eina sem þorði að andmæla honum og gagnrýna. Winslet vann náið með Hoffman í undirbúningi fyrir hlutverkið, og það sést, því hún nær að skapa sérstaka nærveru (með undarlegum hreim) og er nauðsynlegt mótvægi við Fassbender, nokkurs konar tengiliður fyrir okkur áhorfendur sem eðlileg manneskja í þessu öllu saman. Jeff Daniels er frábær, að vanda, en Seth Rogen kemur hvað mest á óvart í hlutverki Steves Wozniak, félaga Jobs og meðstofnanda Apple – fyrsta alvarlega hlutverk Rogens, eftir því sem ég best veit. Dóttir Jobs, Lisa Brennan-Jobs, er líka mikilvægur karakter, því hún endurspeglar hið mannlega í Jobs (eða vöntunina á því) og dregur fram alla verstu gallana í fari pabba síns. Lisa er leikin af þremur leikkonum, eftir aldri og tímabilum, og er að vissu leyti tilfinningalegt akkeri myndarinnar, því Steve Jobs snýst auðvitað um miklu meira en bara tölvur og hönnun.

Sem fyrr segir: ég hef engan áhuga á Steve Jobs, en langaði eiginlega strax að sjá myndina aftur að áhorfi loknu og stúdera hana nánar, sem ég get alls ekki sagt um James Bond.
Myndin er í eðli sínu endurtekningasöm, því þetta er í raun sama sagan sögð þrisvar sinnum. Sama fólkið mætir baksviðs, sömu málin koma upp, og Jobs virðist aldrei læra neitt eða breytast. Á köflum fann ég fyrir dálítilli þreytu þegar ég heyrði sama hlutinn enn einu sinni (sérstaklega einn ofnotaðan nafnabrandara), en þeir kaflar gleymast fljótt, og mögulega daðrar lokaspretturinn við væmni, en passar engu að síður alveg inn í heildarmyndina. Sorkin og Boyle leggja báðir óbeina áherslu á að við eigum ekki að taka myndinni sem bókstaflegri sögu, heldur sem túlkandi endursögn á helstu atriðum og flækjum úr lífi eins manns. Jobs er látinn orða þetta sjálfur seint í myndinni þegar hann furðar sig yfir því hvers vegna allir mæti alltaf fimm mínútum fyrir frumsýningu, eins og beint af barnum, til að hella sér yfir hann? Svarið er einfalt: því við erum að horfa á leikrit, ekki ævisögulega mynd. Sorkin hefur dregið fram þær flækjur sem heilla hann og notar formið og persónu Jobs til að velta upp sem flestum hliðum á þeim. Þessar flækjur snúast fyrst og fremst um mannlega þætti, en ekki nákvæmlega hvenær eða hvernig ákveðnar tölvur og græjur urðu til. Áhorfendur sem búast við hefðbundnari ævisögulegri mynd verða kannski fyrir vonbrigðum að kynnast ekki lífi Jobs sem slíku, en með því að fara svona óvenjulega „gamaldags“ leið að efninu, í gegnum þriggja þátta uppsetningu og meðvitaða sviðsetningu, tekst myndinni að vera mun meira en bara skemmtun fyrir þá sem hafa áhuga á Steve Jobs. Sem fyrr segir: ég hef engan áhuga á Steve Jobs, en langaði eiginlega strax að sjá myndina aftur að áhorfi loknu og stúdera hana nánar, sem ég get alls ekki sagt um James Bond. Spectre mun týnast innan um allar hinar keimlíku Bond-myndirnar, en mig grunar að Steve Jobs muni standast tímans tönn sem vel unnin og grípandi stúdía, jafnt á karakterum og sjálfu kvikmyndaforminu.[/x_text]
Um höfundinn
Gunnar Theodór Eggertsson

Gunnar Theodór Eggertsson

Gunnar Theodór Eggertsson er doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og stundakennari í bókmennta- og kvikmyndafræði. Hann hefur sérhæft sig í gagnrýnni umræðu um samband mannfólks og annarra dýrategunda í samtímamenningu.

[x_text][fblike][/x_text]

Deila