Leitum ekki langt yfir skammt

Bergrún Íris
Viltu vera vinur minn?
Töfraland, 2015
Viltu vera vinur minn? er hæversk, lítil og pen bók máluð í daufum og ljúfum litum. Einmana kanína gjóar sakleysislega augum til lesenda og spurningin – titill bókarinnar – virðist borin fram með hiki í röddu. Myndabókin um hvítu kanínuna er þriðja bók Bergrúnar Írisar þar sem hún er bæði höfundur mynda og texta. Hinar fyrri eru Vinur minn, vindurinn (2014) og Sjáðu mig sumar (2015) og þar er köttur í aðalhlutverki.

Í upphafi sögu er kanínan hnuggin yfir vinafæð sinni og beinir orðum sínum beint til lesenda: „Ef þú hefur einhvern tíma verið einmana veistu líklega hvernig mér líður.“ Hún viðurkennir að stundum sé alveg ágætt að vera einn en oft sé það langt í frá skemmtilegt. Kanínan ákveður að taka málin í sínar eigin hendur og leita sér að vinum á nýjum stað en til að komast þangað þarf hún að byggja brú. Það reynist hins vegar flóknara en hún gerði sér grein fyrir og fyrr en varði eru öll dýr skógarins byrjuð að hjálpa henni. Loksins, þegar brúin hefur verið byggð með sameiginlegu átaki allra dýranna, áttar kanínan sig á því að hún þarf alls ekki að fara yfir brúna – öll dýrin í skóginum eru vinir og hún er hluti af þeim.

Viltu vera vinur minn? er dágott dæmi um myndabók þar sem er að finna gott samspil mynda og texta. Algengt er að myndskreytingar séu viðbót við texta og ýti undir og stækki upplifunina af því að lesa textann. Þegar um myndabækur er að ræða vinna myndir og texti hins vegar saman að því að flytja heildarskilaboðin og merkinguna; hvort í sínu lagi geta myndir og texti þess vegna virst óskiljanleg eða yfirborðskennd. í myndabók Bergrúnar Írisar er hægt að lesa textann einan og sér og sömuleiðis láta duga að skoða myndirnar en með því móti verður sagan ósköp leiðinleg. Þegar myndir og texti eru hins vegar skoðuð saman breytist merking hvors um sig og verður, eins og kanadíski bókmenntafræðingurinn Perry Nodelmann segir í Words about pictures, eitthvað miklu meira en summan af hvoru tveggja. Myndir breyta orðum, orð breyta myndum og þegar vel tekst til getur afraksturinn orðið einstaklega djúp og ríkuleg frásögn. Þetta sést til að mynda þegar kanínunni og útliti hennar eru sérstakur gaumur gefinn.

Í raun segir útlit kanínunnar mun meira um líðan hennar en textinn.
Framan á kápunni situr vesalings kanínan átakanlega alein á vegasalti og horfir vongóð á lesendur. Á titilsíðunni er hún hnuggin í grafkyrri rólu og hún er álíka miður sín á fyrstu opnu sögunnar. Þar stendur hún og horfir niðurlút á boltann sinn en hefur engan að sparka til. Á sömu opnu róla tveir kampakátir birnir. Það hýrnar yfir kanínunni þegar hún áttar sig á möguleikanum á vinum á nýjum stað og það færist bros á vör þegar hún er byrjuð að smíða brúna. Kanínan er dregin mjög skýrum dráttum og ungir lesendur, hvort sem þeir sitja í kjöltu eða fletta bókinni einir, eiga ekki í neinum vandræðum með að átta sig á sálarástandi kanínuskinnsins en það er sérlega gaman að skoða hvernig Bergrúnu tekst að koma því til skila með því að breyta lögun augabrúna kanínunnar og láta eyrun vísa upp eða niður, aftur á bak eða áfram. Í raun segir útlit kanínunnar mun meira um líðan hennar en textinn.

Sagan er ekki aðeins sögð með myndum af kanínunni. Þar sem birnirnir róla glaðir í sinni gera þeir það í birtu og sól en kanínan stendur aftar og í skugga og þar eru notaðir dekkri litir. Þetta leggur áherslu á vanlíðan og einsemd kanínunnar. Hér vinna texti og myndir einkar vel saman, alveg eins og á næstu opnu þar sem kanínan situr nokkuð ánægð við kertaljós með bók fyrir framan sig og stóran bókastafla en fyrir ofan myndina stendur: „Það þarf ekki að vera slæmt að vera einn með sjálfum sér. Suma daga er það ósköp notalegt.“ Framan og aftan á kápunni flögrar lítill fugl og smám saman – algjörlega án orða – birtist lesendum sagan af litla fuglinum sem fylgist með kanínunni, hjálpar henni þegar hún þarf á að halda og verður síðan vinur hennar. Á síðustu síðu bókarinnar situr kanínan svo inni í ljósbleiku hamingjuskýi, kampakát og inni í uppbrettu eyra hennar kúrir litli fuglinn og er engu minna sæll.

Myndirnar ná allar yfir heilar opnur eða síður en í þau skipti þar sem opnan myndar ekki eina heild, þ.e. er í raun tvær myndir, flæða myndirnar engu að síður saman svo ávallt er heildarsvipur á opnunum.
Litir bókarinnar eru dempaðir og ljósir en verða þó bjartari og skærari eftir því sem líður á bókina og brosið kanínunnar breikkar. Notaðir eru vatnslitir og trélitir í bland og þykir mér Bergrúnu Írisi best takast upp við blöndun þessara lita á síðunni þar sem kanínan les við kertaljósið. Myndirnar ná allar yfir heilar opnur eða síður en í þau skipti þar sem opnan myndar ekki eina heild, þ.e. er í raun tvær myndir, flæða myndirnar engu að síður saman svo ávallt er heildarsvipur á opnunum. Þetta sést þar sem kanínan fær hugmyndina að brúarsmíðinni og tekur svo til við á hægri síðu að sækja sér greinar. Þar flæðir grænn litur vinstri síðunnar yfir á þá hægri og stóru greinarnar hægra megin ná yfir á þá vinstri. Textinn er prentaður á myndirnar og mér þykir miður hversu áberandi það er að letrið er prentað ofan á myndirnar, ef svo má segja, og virðist þannig ekki hluti af sjálfu myndverkinu. Letrið er vissulega stórt og skýrt en ég velti fyrir mér hvort einfaldara letur, án alls flúrs, hefði ef til vill hentað myndunum betur. Bókin er prentuð á fremur þykkan og sléttan pappír en fallegra hefði verið að hafa hann ögn grófari og glansinn minni en þá hefðu vatnslitirnir notið sín betur.

Viltu vera vinur minn? minnir á verðlaunabókina Ólíver eftir Birgittu Sif sem kom út árið 2012 og er það ekki leiðum að líkjast en svo skemmtilega vill til að báðir höfundar lærðu myndskreytingu barnabóka í sama skóla, Angela Ruskin í Cambridge School of Art. Ólíver hefur slegið í gegn og mér þykir ekki ólíklegt að við munum geta sagt hið sama um Viltu vera vinur minn? áður en langt um líður. Bókin er kærkomin viðbót á smáan markað íslenskra myndabóka; saga sem hægt er að lesa aftur og aftur og koma sífellt auga á nýjar leiðir til að lesa bæði myndir og texta. Kanínan þurfti ekki að leita langt yfir skammt til að finna vini og við Íslendingar þurfum ekki að byggja brýr til að finna vandaðar myndabækur – Viltu vera vinur minn? sannar það.

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila