Rauða akurliljan

[x_text]
Halldór Guðmundsson
Mamúska
JPV, 2015
Þegar Halldór Guðmundsson var útgáfustjóri Máls og menningar lá leið hans einu sinni á ári til Frankfurt í Þýskalandi á eina stærstu bókasýningu í heimi. Í einni ferðinni var honum bent á að heimsækja veitingahús með nafninu Scarlet Pimpernel sem útleggst Rauða akurliljan á íslensku. Heimsóknin þangað átti eftir að draga dilk á eftir sér. Halldór heillaðist svo af konunni sem rak staðinn og var þar kokkur, skemmtanastjóri og allt í öllu, að hann ritaði um hana bók á þýsku sem út kom árið 2010 og heitir Mamutschkas Lebensrezepte – Ich bin nicht verrückt, aber extravagant. Nú fimm árum síðar kemur bókin út á íslensku, bæði aukin og breytt, og heitir Mamúska – sagan um mína pólsku ömmu. Bókin er í litlu broti með rauðu letri og hana prýða allmargar ljósmyndir.

Halldór segir hér sögu konu sem hét Marianne Kowalew, en var kölluð Mamúska (mamma litla) af fjölskyldu og fastagestum veitingahússins sem hún rak. Hún var fædd í Póllandi árið 1913, á svæði sem nú tilheyrir Litháen. Eftir margskonar hörmungar sem fylgja stríði og átökum þjóða á milli og Halldór rekur skilmerkilega flyst hún til Frankfurt í Þýskalandi árið 1942.

Undirtitill bókarinnar er þannig til kominn að þegar Mamúsku varð ljóst að Halldór ætti ekki ömmu á lífi, þá sagði hún einfaldlega við hann: „þá skal ég vera amma þín“
Undirtitill bókarinnar er þannig til kominn að þegar Mamúsku varð ljóst að Halldór ætti ekki ömmu á lífi, þá sagði hún einfaldlega við hann: „þá skal ég vera amma þín“ (16). Eftir þetta styrktist vinskapur þeirra og heimsóknum og samtölum fjölgaði. Í bókinni er skemmtileg ljósmynd sem sýnir innilegt faðmlag þeirra að „ættleiðingunni“ lokinni. Halldóri þótti kona þessi æ forvitnilegri og eins og áður greinir ákvað hann að skrifa bók um líf hennar með hennar samvinnu, en það gekk ekki þrautalaust. Halldór lýsir því alloft í bókinni hversu erfitt var að fá ævisögu Mamúsku upp úr henni:

[…] hún var treg til að hleypa nokkrum of nálægt sér. Það var ekki auðvelt að sannfæra hana um að taka þátt í bókagerðinni. Stundum var hún til í tuskið, stundum ekki. […] Sjaldnast vildi hún tala um fortíðina og þegar hún gerði það, var það henni sýnilega erfitt, margt fannst henni of prívat. (23)

Halldór lagðist því í mikla rannsóknarvinnu. Hann fékk að skoða gömul skjöl sem sonur Mamúsku átti og kom sér í samband við ættingja hennar. Ýmsar upplýsingar fékk Halldór frá bróður hennar. Ekki líkaði Mamúsku það vel og við fréttirnar hringdi hún í Halldór yfir Atlantshafið og hótaði honum barsmíðum og öðru miður fögru: „[…] ég hata þig og gættu þín, ég er norn!“ (191). Henni rann þó reiðin og í næsta símtali segir hún: „Ég lem þig bara smá þegar þú kemur.“ (192)

Ekki síður er gestalistinn fróðlegur, en Halldór nefnir nokkra fræga gesti sem rituðu nöfn sín í gestabækur staðarins.
Lýsingar Halldórs á Rauðu akurliljunni eru skemmtilegar. Þar stóð Mamúska í eldhúsi sínu sem var í miðjum salnum, eldaði það sem hún átti til hverju sinni og skammtaði jafnóðum á diska. Ávallt gætti hún þess að allir gætu borðað nægju sína. Allt tók þetta tímann sinn og ekki var óalgengt að eftirrétturinn væri borinn á borð í kringum miðnætti. Er honum lauk gátu gestir dansað langt fram eftir nóttu og ekki var farið sparlega með vodkað á meðan á öllu þessu stóð. Ekki síður er gestalistinn fróðlegur, en Halldór nefnir nokkra fræga gesti sem rituðu nöfn sín í gestabækur staðarins. Þar má nefna nöfn eins og Ellu Fitzgerald, Ray Charles, Rolling Stones, Jackson Five, Pink Floyd, Beach Boys, Ivan Rebroff, Cat Stevens, Deep Purple og svo fjöldann allan af þýsku frægðarfólki þar sem hæst ber Horst Tappert sem frægur varð í hlutverki sínu sem lögreglumaðurinn Derrick.

Bókin er mjög persónuleg og skrifar Halldór af mikilli væntumþykju um hina pólsku ömmu sína. Hann stígur oft fram með alls kyns áhugaverðar athugasemdir og auka fróðleik. Hann deilir ýmsum hugsunum sínum með lesendunum sem oftar en ekki snúa að því hversu dyntótt viðfangsefni hans er:

Móðgist hún, þá gerir hún það almennilega, þegar hún er reið brakar í loftinu í kring um hana, þegar vel liggur á henni hlær hún mikið. Ímyndunarafl og hlátur, það eru hennar helstu lífsresept. „Ég óska þér sumars og hláturs í landinu þínu,“ skrifaði hún einu sinni á póstkort sem hún sendi mér.“ (157)

Halldór segir meðal annars frá uppvexti sínum í Bonn, hvernig það var að alast upp í landi sem var klofið og „kalda stríðið óvíða heitara“ (71). Hann ber saman hvernig það er að rita ævisögu Mamúsku og Halldórs Laxness, en sú fyrrnefnda „rekur ekki lífsgönguna í réttri röð, í þeim skilningi var talsvert auðveldara að semja ævisögu Halldórs Laxness – þar var aðalpersónan ekki lífs að rugla ritarann í ríminu“ (165). Lesandinn fræðist því ekki eingöngu um Marianne Kowalew, heldur einnig um Halldór Guðmundsson og margt í lífi hans og starfi.

Í bókarlok segir Halldór frá jarðarför gömlu konunar sem lifði nærri því í eitt hundrað ár, lífi sem má telja allt annað en venjulegt. Hann setur líf hennar í samhengi við atburði aldarinnar svo að úr verður dálítið sagnfræðirit í bland við ævisöguna. Bókin er því bæði fróðleg og skemmtileg þar sem Mamúska stendur ljóslifandi fyrir hugskotsjónum lesanda.[/x_text]

Um höfundinn
Einar Sigurmundsson

Einar Sigurmundsson

Einar Sigurmundsson er með M.A. – próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hann hefur áður lokið B.A. – prófi í almennri bókmenntafræði og lagt stund á meistaranám í íslenskum bókmenntum.

[x_text][fblike][/x_text]

Deila