Mínum Drottni til þakklætis

[x_text]
Sigurður Pálsson
Mínum Drottni til þakklætis.
Saga Hallgrímskirkju
Hallgrímskirkja, 2015
Um langt skeið hefur tíðkast að gefa út vegleg rit til að minnast afmæla kirkna og/eða prestakalla, sókna eða safnaða. Skemmst er að minnast 100 ára sögu Hafnarfjarðarkirkju í þremur bindum upp á tæpar 1600 blaðsíður. Spyrja má ýmissa spurninga um rit sem þessi, hvort réttmætt sé að einstakar sóknir þjóðkirkjunnar gefi út slík rit og hvert gagn þau geri og þá fyrir hverja.

Svarið við fyrstu spurningunni er raunar alfarið fjárhagslegs eðlis. Tekjur sókna, einkum sóknargjöld, eru ætluð til að standa straum af kirkjulegu starfi. Í seinni tíð hafa þessar tekjur að flestra mati ekki nægt til að halda úti fullnægjandi safnaðarstarfi og greiða af byggingarskuldum margra sókna. Útgáfa afmælisrita getur ekki talist til kirkjulegs starfs. Við þær aðstæður sem lýst var er tæpast ábyrgt að ráðast í slík verkefni nema tryggt hafi verið að útgáfan sé fjárhag sóknarinnar og/eða þjóðkirkjunnar óviðkomandi nema þá til að afla aukatekna.

Gagnsemi kirkjuafmælisrita veltur hins vegar að mestu á að markmið þeirra séu sem skýrust, viðfangsefni vel afmörkuð og vinnubrögðin við skrifin þannig að ætlunarverkið takist.
Gagnsemi kirkjuafmælisrita veltur hins vegar að mestu á að markmið þeirra séu sem skýrust, viðfangsefni vel afmörkuð og vinnubrögðin við skrifin þannig að ætlunarverkið takist. Sé alls þessa gætt geta rit af þessu tagi verið þarft framlag til staðbundinnar söguritunar en nú gefa líka æ fleiri sveitarfélög út sögu sína og sýnir það vísast vaxandi byggðarsögulegan áhuga sem er af hinu góða. Þá geta afmælisritin orðið þarft framlag til staðbundinnar kirkjusögu og jafnvel kirkju-, félags- og menningarsögu þjóðarinnar í sumum tilvikum. Þegar svo verkast þjóna ritin stórum almennum lesendahópi og jafnvel fræðasamfélaginu. Þegar miður tekst til eru slík rit á hinn bóginn til lítils gagns nema þá fyrir þann þrönga hóp sem að þeim stendur hverju sinni. Sóknarnefndir og aðrir sem standa í afmælishaldi af þessu tagi mættu minnast ábyrgðar sinnar í þessu efni og meta hvort ástæða sé til að gefa út veglega bók eða hvort snoturt hefti í tilefni dagsins geti e.t.v. betur þjónað þeim tilgangi að vekja athygli og áhuga á starfi kirkjunnar á staðnum.

Um Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti gegnir auðvitað sérstöku máli í þessu sambandi og er sjálfsagt ríkari ástæða til að minnast afmælis hennar en flestra kirkna annarra þegar frá eru taldar nokkrar byggingar sem flokka má undir menningarminjar. Hér kemur tvennt til, sérleiki byggingarinnar sjálfrar og saga safnaðarins sem þar heldur til. En stofnun Hallgrímssóknar og tveggja annarra sókna (Laugarness- og Nessóknar) markar upphaf nútímavæðingar þjóðkirkjunnar í höfuðborginni. Þangað til var þar aðeins dómkirkjusöfnuðinn að finna og óbreytt ástand hefði líklega leitt til aðskilnaðar þjóðkirkjunnar og borgarbúa. Þjóðkirkjan hefði með öðrum orðum misst fótfestu í stærsta þéttbýlinu. Þetta er saga sem vert er að halda til haga.

Tilefni þess rits sem hér er til umræðu — Mínum Drottni til þakklætis — breyttist að vísu meðan á samningu þess stóð. Upphaflega var að því stefnt að það kæmi út 2011 til minningar um 25 ára vígsluafmæli kirkjunnar. Undirtitill þess er enda Saga Hallgrímskirkju. Að því leyti ber að skoða það sem byggingarsögu þessarar stærstu kirkju landsins. Aðstandendur virðast hins vegar hafa vanáætlað verkið mjög og þegar upp er staðið er ritið fremur 75 ára afmælisrit Hallgrímsprestakalls. Óvíst er þó að þetta breytta tilefni hafi valdið einhverju um efni og efnistök þar sem frá upphafi virðist hafa verið að því stefnt að bókin fjallaði um hvort tveggja bygginguna og söfnuðinn.

Vígsla Hallgrímskirkju haustið 1986 var vissulega viðburður í síðari tíma kirkjusögu landsins. Athöfnin var óvenju tilkomumikil og fjölmenn. Hún markaði (næstum því!) lokaáfanga í áratugalangri sögu framkvæmdarinnar sem einkenndist vissulega af ákveðnum hrakningum og hún hafði áreiðanlega marktæka vakningu í för með sér. Við kirkjuna myndaðist fljótt nokkuð fjölmennur óstaðbundinn söfnuður þar sem fólk sótti helgihald í kirkjunni víðs vegar að af höfuðborgarsvæðinu. Í kirkjunni skapaðist líka vettvangur fyrir fjölskrúðugt kirkjulegt menningarlíf sem höfðaði til fleiri en þeirra sem talið hafa sig kirkjuleg í þröngum skilningi. Nú er Hallgrímskirkja gróin miðborgarkirkja líkt og finna má í fjölmörgum stórborgum og tengir kirkju og borgarsamfélagið saman. Að þessu leyti var vígsla Hallgrímskirkju og starfið í framhaldi af henni sigur. Sagan sem við lesum í afmælisritinu er enda saga sigurvegaranna eins og flest skráð saga önnur hefur verið gegnum tíðina.

Og hvað merkir að kirkjuna skuli vera að finna á vef erlendrar ferðaskrifstofu yfir 10 „athyglisverðustu“ kirkjur heims ef það hefur þá einhverja þýðingu? Vissulega hefði verið áhugavert og gefandi að um spurningar af þessu tagi hefði verið fjallað í innanbúðarriti eins og hér er á ferðinni í stað þess að láta öðrum eftir að taka umræðuna.
Vissulega er gerð grein fyrir gagnrýni á stíl og stærð kirkjunnar meðan á byggingu hennar stóð. Það er þó gert þannig að þessi lesandi fékk þá tilfinningu að höfundi finnist hún hafa verið ósanngjörn, ómálefnaleg og pólitísk. Enn eru mörg álitmál um Hallgrímskirkju þó órædd og þau sniðgengin í þessu riti. Hver eru til dæmis stíleinkenni kirkjunnar? Hversu sannfærandi er heildarmynd hennar og hvernig tekst að flétta þar saman ólík stílafbrigði sem augljóslega má greina í byggingunni? Hvernig spilar t.d. kórhvelfingin saman við turninn? Og hvað merkir að kirkjuna skuli vera að finna á vef erlendrar ferðaskrifstofu yfir 10 „athyglisverðustu“ kirkjur heims ef það hefur þá einhverja þýðingu? Vissulega hefði verið áhugavert og gefandi að um spurningar af þessu tagi hefði verið fjallað í innanbúðarriti eins og hér er á ferðinni í stað þess að láta öðrum eftir að taka umræðuna.

Þá er annarri spurningu ósvarað, nefnilega hvað í því felist að Hallgrímskirkja sé „landskirkja“ ef horft er burt frá upptalningu sem finna má í greinargerð með frumvarpi til laga um sóknargjöld þar sem fjallað er um Jöfnunarsjóð sókna. Þar með er raunar komið að ákveðinni tregðu við að framfylgja þeirri stefnu sem mótuð var við upphaf þessarar sögu allrar saman en í byrjun var að því stefnt að Hallgrímskirkja yrði dómkirkja landsins. Óhjákvæmilegt er að ýmsar athafnir sem með réttu ættu að fara fram í dómkirkjunni eigi sér nú stað í Hallgrímskirkju vegna stærðarmunarins. Biskup Ísland á til að mynda tæpast eftir að vígjast í dómkirkjunni svo dæmi sé tekið. Nú er það líklega nokkuð stór biti í háls fyrir ýmsa að „lækka“ dómkirkjuna við Austurvöll (og þinghúsið!) þannig í tign. Lausn væri að slá sóknunum tveimur saman og láta kirkjurnar tvær skipta dómkirkjuhlutverkin á milli sín eftir aðstæðum. Sú þróun er nú enda víða uppi að sameina prestaköll í borgum í stærri starfs- og rekstareiningar með margar (hverfa)kirkjur. — Skiljanlegt er að svo viðkvæmu máli sé ekki hreyft í því riti sem hér liggur fyrir.

Raunar er áhugavert að lesa hversu hreinræktuð íslensk framkvæmd bygging kirkjunnar var. Val á teikningu og/eða líkani til að byggja eftir virðist hafa verið á fárra höndum og tæpast nokkur umræða hafa átt sér stað um það. Þá var hafist handa án þess að nokkur hefði neina raunhæfa hugmynd um kostnað og heildarfjármögnun. Einnig var óljóst hvernig framkvæma skyldi ýmsa verkþætti og allt fram á síðari stig byggingarsögunnar virðist hafa verið á huldu hvernig innri búnaður kirkjunnar skyldi vera. Þó má segja að það skipti öllu máli þegar móta skal „lítúrgískt“ rými.

Hallgrímskirkjusagan sem hér liggur fyrir er annars hið ásjálegasta rit og almennt vel stílað. Hún er lýsandi fremur en greinandi, alþýðleg fremur en fræðileg og vekur að sumu leyti fleiri spurningar en hún svarar.
Hallgrímskirkjusagan sem hér liggur fyrir er annars hið ásjálegasta rit og almennt vel stílað. Hún er lýsandi fremur en greinandi, alþýðleg fremur en fræðileg og vekur að sumu leyti fleiri spurningar en hún svarar. Það þarf auðvitað alls ekki að vera ókostur á verki af þessu tagi. Að einu leyti fóru vinnubrögðin þó þvert í þennan lesanda. Nokkuð er gert að því að vísa til heimilda. Það virðist þó alveg tilviljunarkennt hvenær það er gert og tilvísanirnar sjálfar eru svo rækilega faldar eftir hvern kafla, sem er óheppilegasta aðferðin sem mögulegt er að viðhafa í þessu efni. Auðvitað hefði mátt sleppa þessu fræðilega atriði alfarið í riti af þessu tagi. Því er ekki ætlað að þjóna vísindalegum tilgangi. Það er þó skaði að ekki skuli gengið mun lengra í að tilgreina heimildir þar sem ritun um Hallgrímskirkju, Hallgrímssókn, kirkjusögu Reykjavíkur og skyld efni er rétt að hefjast. Við þetta tækifæri hefði mátt leggja svo miklu meira af mörkum við að skrá heimildir sem á annað borð hafa verið leitaðar uppi eða ef til vill búnar til með viðtölum. Þannig hefði mun traustar grunnur verið lagður að áfamhaldandi rannsóknum og ritun.[/x_text]
Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila