Fegurðin ofar öllu

[x_text]
Og himinninn kristallast er sjónrænt áhrifamikið verk sem allir þeir sem elska ljósadýrð flugeldasýningar ættu að sjá. Þannig var endursköpunin á flugeldasýningunni svo fullkomin að dansinn var vart sjáanlegur.
Sigga Soffía, danshöfundur flugeldasýninga menningarnætur síðastliðin 3 ár, setti upp sína fjórðu flugeldasýningu fimmtudaginn 5. nóvember en nú í Borgarleikhúsinu. Hér var þó ekki um nýja sýningu að ræða heldur enduruppfærslu á flugeldasýningunni Stjörnubrim sem sýnd var á menningarnótt í ágúst síðastliðnum. Verkið Og himininn kristallast er byggt á sama handriti og Stjörnubrim. Það hafa þó verið gerðar þær grundvallabreytingar í útfærslu verksins að hlutverk mismunandi flugelda er nú í höndum dansara íslenska dansflokksins auk nokkurra minni staðgengla þeirra flugelda sem notaðir voru í Stjörnubrimi. Sýningarstaðurinn er líka allt annar eða stóra svið Borgarleikhússins í stað himinhvolfs yfir Arnarhóli.[/x_text]

[x_text]Dansarar íslenska dansflokksins hafa í gegnum æfingaferlið sett sig inn í og tileinkað sér eðli og hreyfieiginleika ákveðins flugelds og miða allt sem þeir gera á sviðinu við það. Búningar og lýsing undirstrika síðan þetta eðli hvers og eins svo fyrir áhorfandann er tengingin við flugeldasýninguna mjög skýr. Verkið byrjar meðal annars á því að „flugeldarnir“ kynna sig en í framhaldinu fá áhorfendur að sjá eðli þeirra birtast í hreyfingu og búningum. Danssköpunin hverfist svo í kringum mismunandi kafla, hæga eða hraða, ljúfa eða kraftmikla þar sem ljós, búningar, hljóð og hreyfingar endurskapa flugeldasýningu nema bara innandyra. Í hverri senu er öllu tjaldað til, jafnt tæknilega sem og í frammistöðu dansaranna. Í eyrum áhorfenda drynja skothvellir, þó aðeins sé brugðið út af með þægilegri tónlist, og á tímabili leggur reykjarlykt yfir salinn. Samanlagt er sýningin eitt dásamlegt sjónarspil og hver sá sem nýtur þess að horfa á fegurð flugeldasýninga og upplifa kraftinn sem í þeim býr ætti að leggja leið sína í Borgarleikhúsið til að sjá Og himinn kristallast.

Þegar fenginn var danshöfundur til að setja upp flugeldasýninguna fyrir menningarnótt var ekki síst litið til þess máttar sem býr í kóreógrafískum vinnubrögðum. Það að setja saman hreyfingu í tíma og rúmi þar sem ýmis blæbrigði hreyfinganna fá að njóta sín er kúnst sem danshöfundar kunna manna best. Venjulega eru danshöfundar þó að vinna með dönsurum svo það að gera dansverk án dansara er spennandi áskorun og lýsir það hugrekki og stórhug Siggu Soffíu sem danshöfundar að taka að sér það verkefni. Það að taka síðan vinnuna við flugeldasýninguna inn í leikhúsið og yfirfæra á mannlega líkama er síðan ekki minni áskorun en leyst vel af hendi af öllum þeim sem að sýningunni koma.

hugras_og-himinninn-kristallast-5

Það að færa verkið inn í leikhúsið byggir ekki síst á þeirri skoðun höfundar að upplifunin við að horfa á líkama í hreyfingu sé sambærilegt við að horfa á hreyfingar ljóssins í flugeldasýningu. Báðir atburðir bjóða upp á að sitja eða standa í þögn með fjölda fólks og upplifa kraft, flæði og fegurð. Höfundurinn skoðar hugmyndir um eðli fegurðar og hvað þarf til að áhorfendur sitji að sýningu lokinni með tilfinninguna um að þeir hafi orðið vitni að einhverju stórkostlegu. Einn af lyklunum af þessari upplifun er samkvæmt höfundi fórnin sem fólgin er í tilvist flugeldanna og ekki síður dansara. Rétt eins og flugeldarnir helgar dansarinn „líf sitt leitinni að hinni fullkomnu línu og líkt og flugeldar blómstrar hann þar til líkami hans brotnar og hrörnar“. Þannig fórna bæði flugeldar og dansarar lífi sínu og líkömum til þess að áhorfendur fái að njóta fegurðar.

hugras_og-himinninn-kristallast-4

Og himinn kristallast fjallaði fyrst og fremst um sjónræna fegurð studda af öðrum skilningarvitum eins og heyrn og lyktarskyni, en hið sjónræna skiptir mestu máli um upplifunina af verkinu. Unnendur leikhústæknibrella og ljósadýrðar geta líka glaðst yfir því sjónarspilið fékk mann virkilega til að taka andköf yfir færni þeirra sem stóðu að baki því. Þannig var ljósahönnun Björns Bergsveins Guðmundssonar aðdáunarverð og búningahönnun Hildar Yeoman mjög til þess fallin að ýta undir það sem fram fór á sviðinu, ekki síst búningur Lovísu Óskar Gunnarsdóttur sem lýsti og undirstrikaði hringhreyfingar hennar en líka glitrandi búningur Ellenar Margrétar Bæhrenzs. Hljóðmynd Jóhanns Jóhannssonar og fleiri passaði vel við efni verksins og ekki má gleyma þætti flugeldasérfræðinganna sem sáu um að sprengjur spryngju á réttum stöðum og sköpuðu eingöngu ánægjulega upplifun en engar hættur. Helgi Már Kristinsson sá um sviðsmyndina og skapar spennandi umgjörð um verkið, gegnsæju boltarnir voru snilld og með lýsingu Björns Bergsveins skapaðist töfraheimur sem ekki var annað hægt en hrífast af. Ljós, flugeldar á sviðinu, gegnsæir boltar og glitrandi búningar, allt skapaði þetta töfraljóma eða ævintýraheim.[/x_text]

 
[x_text]Gallinn við verkið sem dansverk var hvað mennskan var lítil. Aðeins á einum stað náði áhorfandinn tengslum við dansarana sjálfa en það var þegar Ásgeir og Þyri sátu fremst á sviðinu eins og börn og líktu eftir hljóðum flugelda. Það stóð þó aðeins stutt því að vörmu spori leystist atriðið upp í hróp og læti og hvarf aftur inn í hinn sjónræna veruleika þar sem dansararnir og hreyfingar þeirra voru hluti af tæknilegri útfærslu flugeldasýningar.

Hreyfingar dansaranna voru kraftmiklar og flottar, það sem af þeim sást. Þær hurfu samt í skuggann af ljósadýrðinni og dýrð búninganna. Þannig voru búningarnir sem komu svo vel út í tengslum við lýsingu og sviðsmynd of miklir fyrir dansarana. Undirrituð hefði ekki síður viljað sjá dansinn njóta sín sem túlkun á eðli flugelda í staðinn fyrir að umgjörðin, ljós, svið og búningar, sköpuðu heildarmyndina. Hreyfingin ein hefði getað komið miklu af eðli flugeldasýningarinnar til skila þó á annan hátt væri.

hugras_og-himinninn-kristallast-650px

Danshöfundur: Sigga Soffía í samstarfi við dansara
Tónlist:
Jóhann Jóhannsson o.fl.
Ljós: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Búningar: Hildur Yeoman
Sviðsmynd: Helgi Már Kristinsson
Leikhúsfræðilegur ráðgjafi: Alexander Roberts
Dansarar: Aðalheiður Halldórsdóttir, Ásgeir Helgi Magnússon, Cameron Corbet, Ellen Margrét Bæhrenz/Halla Þórðardóttir, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir og Þyri Huld Árnadóttir[/x_text]

Um höfundinn
Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir er menntuð í íþróttafræðum og dansi auk sagnfræði. Hún hefur skrifað gagnrýni og greinar um dans undanfarin ár auk þess að kenna listdanssögu á framhaldsskólastigi og skapandi dans fyrir börn.

[x_text][fblike][/x_text]

Deila