[x_text]
Falleg sviðsmynd og áhrifamikil lýsing og hljóðstjórn einkenna Vegbúa, fágaða sýningu Kristjáns Kristjánssonar og Jóns Gunnars Þórðarsonar, sem byggir á ævi og list KK. Elskuleg og skemmtileg kvöldstund.
Ég átti satt að segja ekki von á neinu öðru en notalegum KK-tónleikum þegar ég fór að sjá Vegbúa í Borgarleikhúsinu í gær. En Vegbúar Kristjáns Kristjánssonar og Jóns Gunnars Þórðarsonar eru meira en það.

Á litla sviðinu í Borgarleikhúsinu blasir falleg sviðsmynd Móeiðar Helgadóttur við. Á sviðinu eru jarðlitir ríkjandi, frá gulu og brúnu yfir í appelsínurautt. Tugir „gítara“ eru hengdir upp í snúrum, þá ber við svartan bakgrunninn og þeir virka eins og speglar þegar ljósatónleikar verksins hefjast. Magnús Helgi Kristjánsson stendur fyrir lýsingunni sem er ákaflega falleg. Með lituðum ljósum eru sköpuð hughrif, búin til rigning/tár, fuglar, hnígandi og stígandi mynstur. Þetta var smekklegt og áhrifamikið og sama má segja um hljóðmynd Garðars Borgþórssonar sem leysti flókna miðlunina af fagmennsku.

Ljósmynd: Jorri

Verkið er einleikur eftir KK og leikstjórann Jón Gunnar. Sagan sem sögð er byggist upp kringum gítara KK, hvernig hann kynntist þeim, hverjir þeir eru og hvað hann getur gert með þeim. Gítararnir verða eins og persónur í statívum sínum á sviðinu. Upprifjun KK á því hvernig hann eignaðist þá er persónuleg og ævisöguleg en sú saga er líka menningar-og tónlistarsaga. Fleiri þemu koma í ljós og eru endurtekin í textanum; þögnin og tónninn, móðirin og faðirinn sem lætur sig hverfa, fíknin, hraðinn, máttur söngsins gegn kúgun og valdníðslu sem vill listamanninn feigan. Allt hvílir á flytjandanum sem er einn á sviðinu í næstum tvo tíma.

KK heldur vel á sögunni, leikur og sprellar, syngur eins og engill og spilar á gítarana sína af snilld. Hann hefur mikla en hógværa útgeislun, lúmskan húmor og pólitískan brodd. Lagaval hans kemur þeim ekki á óvart sem hlustað hafa á morgunþættina hans, hann á sér sína kanónu sem er alþjóðleg, alþýðleg og heillandi. Hann snerti áhorfendur greinilega og skemmti þeim og kvöldstund með honum er vel varið.

LJósmynd: Jorri
Ljósmynd: Jorri

[/x_text]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila