Sýn mín á framtíðarstefnu HÍ

[x_text class=”ptn”]
Heildarsýn, gagnkvæm virðing og samstarfshugur eru þau þrjú gildi sem ég tel að Háskóli Íslands ætti að hafa að leiðarljósi í framtíðarstefnu sinni. Mikilvægt er að starfsfólk skólans tjái opinberlega skoðanir sínar á þessum málum og efni til umræðu um þau.

Á dögunum var starfsfólki Háskóla Íslands boðið að tjá þau gildi og þær áherslur sem þeim finnst að eigi að einkenna stefnu og starfsemi skólans á næstu fimm árum. Vonandi tóku sem flestir þátt, enda ætti framtíðarstefnan að taka ríkt tillit til sjónarmiða starfsfólks, bæði vegna þess að stefnan varðar stöðu þess með beinum hætti og ekki síður vegna þess að starfsfólkið býr yfir jafnt sérfræðiþekkingu sem reynslu af stöðunni í sínu nærumhverfi innan deilda og greina. Í formlegu boði rektors var sérstaklega tekið fram að svörin væru ekki persónugreinanleg og að öllum líkindum vilja einhverjir síður að sjónarmið þeirra verði gerð opinber. Í þessum pistli ætla ég hins vegar að birta þau svör sem ég sendi inn. Að mínu mati er brýnt að starfsfólk tjái skoðanir sínar opinberlega og deili þeim með öðrum, bæði til umræðu og vangaveltna.

í fyrsta liðnum var spurt um helstu gildin sem HÍ ætti að hafa að leiðarljósi í stefnu næstu fimm ára og var unnt að tilgreina þrjú svör. Hér að neðan koma fram mín svör og ástæður mínar í stuttu máli fyrir því að velja þau fremur en önnur.

  1. Heildarsýn: Langvarandi undirfjármögnun Háskóla Íslands á vafalaust stærsta þáttinn í því að hann virðist vera byrjaður að molna innan frá. Svið, deildir og jafnvel einstakar greinar ríghalda í oft vesælar fjármögnunarleiðir sínar og tortryggja samstarf við aðrar einingar sem gæti leitt til þess að þær missi spón úr aski sínum. Fyrir vikið hefur skapast alls kyns óskynsamleg óhagræðing þar sem verið er að kenna svipuð og jafnvel nákvæmlega sömu viðfangsefni milli deilda og það réttlætt með ýmsum akademískum krókaleiðum. Verst af öllu er þó að námsframboð og námið sjálft líða fyrir vikið. Hér er kallað á heildarsýn þar sem sérstaða greinanna fær að njóta sín en jafnframt litið til þess hversu mikið þær eiga sameiginlegt og þverfagleg starfsemi efld með jafnt kerfisumbótum sem almennri viðhorfsbreytingu.
  2. Gagnkvæm virðing: Það ætti tæplega að þurfa að brýna fyrir háskólamenntuðu fólki að sérhver akademísk námsgrein, hvort sem í hana sækja árlega 300 nemendur eða fimm, er jafn merkileg og hver önnur og starfsfólk hennar á skilið jafna virðingu og aðrir fyrir að hafa tileinkað stóran hluta lífs síns þeim fræðum sem þar eru kennd. Þó er tekið að bera nokkuð á því að litið sé jafnvel niður á sumar greinar sem öðrum „óæðri“ – að því er virðist oft á grundvelli nemendafjölda. Hverjum þykir auðvitað sinn fugl fagur en þeir eru nú ansi margir fuglarnir.
  3. Samstarfshugur:  Hér er kannski ekki um að ræða gildi í strangasta skilningi þess orðs en látum það liggja milli hluta. Fjölmenn stofnun eins og Háskóli Íslands þarf nauðsynlega á því að halda að fólk sé reiðubúið að vinna vel saman. Því lengra sem haldið er í þá átt því betri verður stofnunin. „Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér“ væru ágæt einkunnarorð alhliða menntastofnunar á borð við HÍ. Við þurfum að styrkja getu okkar til að starfa saman, mynda okkur heildarsýn á starfsemi og verðmæti alhliða háskólamenntunar og vera nemendum fordæmi með því að sýna gagnkvæma virðingu í verki.

Ég hefði gjarnan viljað bæta við fleiri gildum, t.d. akademískum metnaði sem mér sýnist vera farið að halla talsvert á í þeirri sívaxandi viðleitni að þjóna atvinnulífinu. Vissulega er mikilvægt að skólinn taki eitthvert mið af þörfum atvinnulífsins en hann grefur með öllu undan sér með því að gefa atvinnulífinu stjórnartauminn. Sérþekking í bland við skapandi hugsun leiðir til nýrra starfa og jafnvel atvinnugreina. Háskóli Íslands er akademísk menntastofnun sem á fyrst og fremst að tryggja gæði þess náms og þeirra rannsókna sem starfrækt eru innan skólans.

Næst var spurt um mikilvægustu stefnumál skólans á næstu árum. Svör mín, sem ég tel að skýri sig sjálf, voru í samræmi við gildin hér að ofan:

  1. Að móta skynsamlega menntastefnu fyrir skólann sem m.a. metur eðlilegan (eða ákjósanlegan) nemendafjölda í sérhverri námsgrein og vinda þannig um leið ofan af þeirri grundvallarhugsun í kerfi HÍ sem metur árangur námsgreina einungis með hliðsjón af nemendafjölda.
  2. Að stuðla almennt að aukinni heildarsýn meðal starfsmanna skólans sem felur í sér áherslu á gagnkvæma virðingu og aukið samstarf milli deilda og sviða, bæði með aukinni umræðu um mikilvægi allra greina og hugsanlega einhverjum beinum hvötum, t.d. í deililíkani skólans. Þetta felur jafnframt í sér að vinna beri markvisst að því að útrýma fjárhagslegri misskiptingu milli námsgreina, deilda og sviða.
  3. Að útrýma hinni gjaldþrota nýfrjálshyggjunálgun við HÍ að sérhver eining eigi að vera ábyrg fyrir því að standa undir sér hverju sinni (enda margar illa undirfjármagnaðar), þ.e. hugsa út úr kassanum og meta í auknum mæli gildi eininganna út frá því sem þær skila til samfélagsins í víðari skilningi.

Að síðustu var svarendum gefinn kostur á að tjá sig ef þeir vildu koma fleiri atriðum á framfæri og notfærði ég mér þann kost með eftirfarandi málsgrein:

Algert grundvallaratriði er að tryggja hækkun neðstu reikniflokka við skólann. Langvarandi undirfjármögnun grefur undan möguleikum mikilvægra greina fyrir íslenskt samfélag að stuðla að nýsköpun og framtíðarþróun. Þeim gríðarlega tíma sem akademískir starfsmenn við tilteknar greinar og deildir þurfa að verja til stöðugrar hagræðingar væri betur varið til að efla námið og tryggja gæði þess. Þess í stað er fer gæðum óhjákvæmilega aftur við það að kennslutímar eru skornir niður og álag á akademískt starfsfólk í tilteknum deildum er löngu komið fram yfir þolmörk.[/x_text]

Um höfundinn
Geir Sigurðsson

Geir Sigurðsson

Geir Sigurðsson er dósent og deildarforseti Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Hann hefur fengist við margvísleg ritstörf á sviði heimspeki, bókmennta, samfélags­ og menningarmála. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila