Ný og endurbætt Hugrás

[container]
Hugrás hefur nú opnað endurbættan vef í tilefni þess að fimm ár eru liðin frá því að hún kom til sögunnar. Netið er síkvikur miðill og vefrit verða að þróast ört og endurnýjast til að haldast á lífi. Breytingarnar nú miða að því að færa vefinn nær því sem gengur og gerist í vefhönnun, með meiri áherslu á myndræna framsetningu og fjölbreyttar leiðir til miðlunar. Í hönnun vefsins er leitast við að skapa einfalt og hreinlegt viðmót og lesandanum er gefið næði til að lesa, hlusta eða horfa á það sem fyrir augu ber. Jafnframt er ætlunin að efla mjög flæði efnis inn á síðuna, svo Hugrás verði öflugra innlegg í samfélags- og menningarumræðuna. Í því skyni er nú kominn til starfa sérstakur ritstjóri Hugrásar, sem og myndaritstjóri.

Hugrás hefur frá upphafi verið ætlað það hlutverk að vera gátt hugvísindafólks við Háskóla Íslands út í samfélagið. Hún er vettvangur fræðafólks til að taka þátt í almennri menningar- og samfélagsumræðu með sérþekkingu sína að vopni, og jafnframt miðill sem veitir almenningi innsýn í viðfangsefni hugvísindafólks og sjónarhorn þeirra á ýmsa þætti menningarinnar.

Hugrás á að vera lifandi fjölmiðill og umræðuvettvangur sem miðlar margvíslegu efni á áhugaverðan hátt og leggur áherslu á það sem er efst á baugi hverju sinni, auk þess að draga fram í umræðuna ýmis viðfangsefni sem fræðafólk Hugvísindasviðs er að takast á við. Leitast verður við að efla umfjöllun um þá þætti menningar sem eiga undir högg að sækja í öðrum miðlum, til dæmis umfjöllun um fræðibækur, gagnrýni um myndlist og faglega umfjöllun um kvikmyndir.

Hugrás er samstarfsverkefni og stendur og fellur með því fólki sem skrifar efni á hana. Viðbrögð við endurnýjun og eflingu Hugrásar hafa hingað til verið einstaklega góð og af þeim að dæma hefur hugvísindafólk mikinn áhuga á því sameiginlega verkefni að halda úti áhugaverðum miðli og taka þátt í almennri menningar- og samfélagsumræðu

Auður Aðalsteinsdóttir, ritstjóri Hugrásar
Sóley Stefánsdóttir, myndaritstjóri Hugrásar

[/container]