Ef til vill hafa einhverjir rekið upp stór augu eða sperrt eyrun þegar tíðindi bárust af ljóðabók eftir Bubba Morthens. Bubbi hefur verið mikilvirkur á ýmsum sviðum og á sér fáa líka þegar kemur að afköstum í tónlist; hvort sem  um textagerð eða lagasmíð er að ræða og fjöldi Íslendinga kann þekktustu texta hans utan að. Hér fetar Bubbi nýjar slóðir á ferli sínum þó að lagatextar og ljóð séu ekki alveg óskyld fyrirbæri. Bókin ber hins vegar vitni þeim eðlismun sem er á greinunum tveimur, ljóð hans eru knöpp og formið veitir frelsi. Einn helsti styrkur Bubba sem textasmiðs birtist hins vegar óumdeilanlega í ljóðabókinni: hann bregður upp sterkum svipmyndum með fáum orðum. Þeir eru eflaust fjölmargir sem eiga í hugskoti sér mynd af stúlkunni sem starir á hafið eða manninum sem aldrei fór suður.

Í bókinni eru alls 33 númeruð ljóð án titils. Þó að hvert ljóð sé sjálfstætt er bókin öll ljóslega ein heild og titillinn lýsandi fyrir allt verkið.
Í bókinni eru alls 33 númeruð ljóð án titils. Þó að hvert ljóð sé sjálfstætt er bókin öll ljóslega ein heild og titillinn lýsandi fyrir allt verkið. Í upphafi ríkir myrkrið og eftir því sem líður á tekst ljósinu að brjóta sér leið í gegn, en til þess þarf afl og styrk. Hönnun bókarinnar er efnisleg útfærsla á titlinum, svört kápa með litlu gati sem skorið hefur verið í gegnum alla bókina; kjölurinn er gulur eins og ljósglæta.

Það er erfitt að lesa ljóðabók eftir Bubba Morthens án þess að öll sú forþekking sem óhjákvæmilega fylgir Íslendingi fæddum seint á síðustu öld hafi áhrif á lesturinn. Strax á fyrstu síðu læðist sá grunur að lesanda að höfundur sæki yrkisefnið meðal annars í eigin reynsluheim og sú tilfinning ágerist með lestrinum. Hugrenningatengsl við bókina Bubbi, sem Silja Aðalsteinsdóttir skráði 1990, vakna en vissulega er ljóðabókin af allt öðrum toga, myndirnar myrkari og myndum miðlað á öðru formi.

Flest ljóðanna eru ávarp, aðalpersóna bókarinnar er „þú“.  Aðeins tvö ljóð eru í fyrstu persónu og eru þau auðmerkt með skáletri. Með þessu móti er lesandinn í nokkuð óvenjulegri stöðu, því ef að hann les ljóðin upphátt er líkt og hann sjálfur ávarpi aðalpersónuna. Þessi tvö ljóð sem eru í fyrstu persónu, 4 og 25, eru þó tvímælalaust með þeim áhrifameiri í allri bókinni og hefðu að ósekju mátt vera fleiri slík.

Meginefni bókarinnar er fíkn og víma. Hvert ljóð á fætur öðru lýsir á einhvern hátt þeim heljargreipum sem fíknin hefur á aðalpersónu bókarinnar.
Meginefni bókarinnar er fíkn og víma. Hvert ljóð á fætur öðru lýsir á einhvern hátt þeim heljargreipum sem fíknin hefur á aðalpersónu bókarinnar. Um leið má greina nokkurs konar línulega frásögn frá upphafi til enda, í öðru ljóði bókarinnar er persónan barn og í æsku virðist mega finna eina af rótum vandans: „tíu ára gamall / 36 kíló af ótta / með lítið kvíðabarn / í maganum / tíu ára gamall með hríðir / óttinn var að koma í heiminn“.

Sautján ára finnur ljóðmælandi lausnina í brúnum mola og pípu. Í lok bókarinnar birtist  fullorðinn einstaklingur sem hefur sagt skilið við myrkur fortíðarinnar en óttast það samt. Það mætti ímynda sér að ljóðin hafi þjónað sem eins konar meðferð, að hér sé höfundur að yrkja sig frá biturri reynslu.

Fíkillinn heyr þó ekki aðeins baráttu við eigin fíkn heldur einnig frægðina. Hann er tónlistarmaður og rembist við að falla í hópinn: „þrá þín eftir / viðurkenningu / dró þig áfram / hégóminn / er harður húsbóndi“.

Saman við vímuna sem er alltumlykjandi fléttast litlar örsögur, dregnar eru upp svipmyndir af fólki sem verður á vegi fíkilsins og þeirra bíða jafnan grimm örlög. Hann er ekki einn í sinni þjáningu. Víða má greina ósk um annað líf. Í ljóði 12 er brugðið upp mynd af hversdagsleikanum sem hann þráir: „er einhver leið til baka / þar sem morgundagur / drauma þinna bíður / þar sem niðurinn frá / þurrkaranum syngur þér / barnagælur / og bókin á náttborðinu / er eftir milan kundera“. Í bókinni takast sífellt á hin sterka fíkn og vonin um annað og betra, ósk sem virðist á köflum ómögulegt að uppfylla. Þessi þrá er hins vegar afar sterk og lesandi finnur áþreifanlega fyrir henni. Fíkillinn er heimilislaus: „þig langar heim / en hvar er heim“ segir í ljóði 19 og er tveimur ljóðum síðar endurtekið: „heim / en hvar er heim“.

Fremst í ljóðabókinni vitnar höfundur í skáldsöguna Moby Dick eftir Herman Melville með orðunum „Kallið mig Ísmael“. Vísanir í söguna um Moby Dick skjóta oftar upp kollinum í ljóðabókinni, búrhvalur birtist á einum stað og hafið er áberandi í líkingamálinu. Ógn hafsins er eins og stef í bókinni, það er myrkt, kalt, úfið og hættulegt. Rétt eins og fíknin er hafið seiðandi og ógnvekjandi í senn. Í þessum dúr er einnig myndmálið í bókinni, það er kröftugt, dökkt og áhrifamikið. Hér eru lesanda engin grið gefin.

Ljóðin eru öll meitluð og tungumálið fjölbreytt en einfalt. Vísanir í bókmenntir og goðsögur koma víða fyrir en eru látlausar og yfirleitt viðeigandi. Ljóðin eru misgóð en mörg þeirra afar áhrifamikil. Höfundi tekst vel að skapa drungalega tilfinningu sem hverfur aldrei alveg. Framan af er bókin afar dökk og fram að síðustu ljóðum er líkt og vonin muni aldrei hafa betur; lesandi kann jafnvel að verða úrkula vonar um að ljósið taki nokkurn tíma að skína. Það verður þó í blálokin og í síðasta ljóðinu kallast á 10 ára barnið sem gekk með óttann í maganum og fíkillinn endurfæddur: „endurfæðast / er það mögulegt / endurfæðast án þjáningar / endurfæðast / já það er hægt / án þjáningar / nei … herakles var ekki sá eini / sem dvaldi meðal hinna dauðu / og braut sér leið til baka“. Eftir langa baráttu og þrautagöngu hefur fíklinum tekist að öskra gat á myrkrið. Bubbi Morthens sýnir í bókinni áhugaverða og áður óþekkta hlið á sínum listamannaferli og verður forvitnilegt að sjá hvort fleiri slík verk fylgi í kjölfarið.

 

Um höfundinn
Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir er doktor í íslenskum bókmenntum og stundakennari við Íslensku‐ og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið hennar er íslenskar miðaldabókmenntir. Sjá nánar

[fblike]

Deila