Fuglinn í fjörunni

[x_text]
Merkileg, nýskapandi og skemmtileg endurvinnsla á Mávinum eftir Anton Tsjékhov eftir leikstjórann Yana Ross og sterkan leikhóp Borgarleikhússins. Áhrifamikil sýning, fyndin og ögrandi, en mætti þéttast og styttast undir lokin.

Einkenni leikrita Antons Tsjékhov er eftirminnilegur drungi og leiðindi sem hvíla eins og farg á persónum sem eru svo þrúgaðar og harmrænar að það verður óbærilega fyndið. Þetta er fólk af rússneskum lágaðli undir lok nítjándu aldar, stétt sem varð eftir á niðurníddum sveitasetrum, leiguliðarnir að flosna upp og fara til borgarinnar þar sem ríka og fræga fólkið gerir það gott. Ekkert að gerast á landsbyggðinni, hamingjan annars staðar og ekkert framundan nema þunglyndi, sorg og sársauki yfir því sem hefði getað orðið. Þótt Tsjékhov sé snillingur býst maður ekki beinlínis við að skemmta sér undir drep undir verkum hans en það er hægt í Borgarleikhúsinu núna, á Mávinum í leikstjórn gestaleikstjórans Yana Ross frá Lettlandi.

Samstilltur hópur

Yana Ross vill færa klassísk verk beint inn í nútímann, finna kjarna verka og „þýða“ eða endurskapa þau svo að þau tali til áhorfenda.  Hún og hennar fólk, leikhúsfræðingurinn Aine Bergroth og aðstoðarleikstjórinn Hlynur Páll Pálsson auk leikhópsins styttu, aðlöguðu og staðfærðu textann með hjálp Eiríks Arnar Norðdahl, ekki bara nöfn og staðsetningu í tíma og rúmi heldur líka með textatengslum og vísunum í önnur leikrit, pólitík og samfélagsmál á döfinni. Þetta var á köflum svo fyndið að við vorum allan næsta dag að rifja upp og hlæja að sumum bröndurunum.

Megnið af texta Tsjékhovs sjálfs er engu að síður til staðar í sýningunni eins og maður sér ef hann er borin saman við hana. Undir gamninu er hin rússneska melankolía alltaf nálæg í flottri sviðsmynd Zane Pihlström sem ekki er hægt að lýsa í stuttu máli, hefst í ruslaralegu garðpartýi framan við vídeólistaskjá sonarins Konna og endar í opnu tómi (dauðans). Lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar undirstrikaði og túlkaði mismunandi stemningu og búningar Filippíu Elísdóttur voru fágaðir og myndrænir. Tónlist og hljóðmynd Gísla Galdurs Þorgeirssonar og Baldvins Magnússonar skipti miklu máli enda tjáir sonurinn Konni sig að hluta með því að tromma tilfinningar sínar. Þetta var allt þaulhugsað og vel gert.

LJósmynd: Grímur Bjarnason
LJósmynd: Grímur Bjarnason
Kjarni verksins

Hver er svo kjarni verksins, sá er miðlað skal? Rauði þráðurinn er umræðan um listina og erindi leikhússins við okkur, enda aðalpersónurnar leikarar og listamenn. Sýningin opnast á þessari umræðu þar sem Konni (Björn Stefánsson) tekur upp á myndband einræðu sína um tilgang listarinnar, heldur óburðuglega. Betur tekst honum til þegar hann messar yfir vinum sínum, Dóra lækni (Hilmi Snæ Guðnasyni), Pálínu staðarhaldara (Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur) og síðast en ekki síst móðurbróður sínum og í raun fóstra, Pétri (Jóhanni Sigurðarsyni). Efni messunnar er upphafin afstaða til leikhússins sem byrgir mönnum sýn á það sem málið snýst um en það er róttæk aðferð hans sjálfs, gjörningur sem hann ætlar að flytja í fyrirhugaðri garðveislu. Gjörninginn mætti kalla: „Gjörning við vatn; vídeólistaverk með liggjandi konu á bekk og trommusóló.“ Upptroðslan er óskiljanleg öllum áhorfendum.

Ungu listamennirnir, Konni og kærastan hans, Nína (Þuríður Blær Jóhannsdóttir), vilja hlutdeild í frægð eldri kynslóðarinnar en hún ver menningar- og tilfinningaleg völd sín og hleypir engum inn á sviðið nema á sínum eigin forsendum. Konni verður þekktur höfundur en Tsjékhov lætur hann segja í lokaþætti leikritsins: „Smám saman hefur sú sannfæring leitað á mig að góðar bókmenntir séu ekki spurning um form, ný eða gömul, heldur hugmyndir sem verða að streyma frjálst úr hjarta höfundarins, án þess að hann brjóti heilann um form yfirleitt.“

Það er nú svo. Málið er að engar hugmyndir geta flætt frjálst úr hjarta listamannsins ef ástin býr þar ekki. Konni er orðinn jafn andlaus og honum finnst sambýlismaður móðurinnar B.T. (Björn Thors – Boris Trigorin hjá Tsjékhov) og Nína er orðin þekkt leikkona, ástlaus og óhamingjusöm, eins og Írena (Halldóra Geirharðsdóttir). Mávurinn sem Konni skýtur er ekki tákn fyrir Nínu, eins og hún heldur, og ekki hann sjálfan, eins og hann heldur, heldur er mávurinn tákn fyrir drauma þeirra beggja, flug og hrap. Um það fjallar lokasenan þar sem Konni og hin unga Nínu renna sér eftir vatninu eins og fuglar að setjast eða hefja sig til flugs, og svo kveður hann draum sinn endanlega.

hugras_DK_Mavurinn_650px
LJósmynd: Grímur Bjarnason
Glæsilegt en …

Eftir hlé sýningarinnar erum við stödd í brúðkaupi Maríu (Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur),, dóttur ráðskonunnar og kennarans fátæka Símonar (Hilmars Guðjónssonar). Stemningin minnir meira á jarðarför en brúðkaup, stíft er drukkið eins og alltaf, partýið fer úr böndunum og hatrömm átök brjótast út. Gestir tjá sig og skilmast í formi karoki og nota klisjusöfn frægra vellusöngva til að tjá tilfinningar sínar. Átök móður og sonar, Írenu og Konna verða glíma sem segir sex. Hér eins og alls staðar annars staðar gaf leikarahópurinn sig allan í sýninguna sem gefur tilefni til endalausra túlkana, ekki minnst fyrir gamlan freudista, en brúðkaupsveislan verður of löng og gróteskt og of margir boltar eru á lofti í einu. Tsjékhov endar Mávinn á því að hinn lífsþreytti Konni yfirgefur stofuna og svo heyrist hvellur. Ég hef ekki ennþá séð sýningu á þessu leikriti þar sem leikstjóranum finnst hann ekki þurfa að koma með eftirmála að þessum endi, hann er óbærilega blátt áfram. Hér er eftirmálinn, lokaatriðið, of langur en fallegur og óræður.[/x_text]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila