Trúin er mesti fjársjóður sem ég hef eignast í lífinu


[container] Ein ástsælasta leikkona landsins, Guðrún Ásmundsdóttir, státar af 57 ára leikferli um þessar mundir. Guðrún er ekki mikið gefin fyrir að telja upp hlutverk sín, en þau eru að minnsta kosti 105 samkvæmt skráningum Leikminjasafnsins. Færri vita kannski að Guðrún er líka sögumaður af guðs náð. Á myndlistarsýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur og Margrétar Jónsdóttur í Nesstofu á dögunum var Guðrún fengin til að segja sögur, þar sem hún fór á kostum í frásögn sinni af fyrstu ljósmóðurinni á Íslandi, hinni dönsku Margrethe Katrin Magnussen sem bjó í Nesstofu. Varð að halda aðra sögustund strax í kjölfar þeirrar fyrri vegna margmennis.

Þegar ég kom nokkrum dögum síðar á hlýlegt heimili Guðrúnar í gamla húsið hennar við Grandaveg til að ræða við hana um sögumannshlutverkið, barst talið ekki síður að sterkri trú hennar og uppeldi. Móðir Guðrúnar lést þegar hún var aðeins þriggja ára, og hún ólst upp hjá einstæðum föður sem var orðinn sextíu og þriggja ára þegar Guðrún kom í heiminn.

„Mér fannst ég eiga hræðilega gamlan pabba og reyndi að fela það fyrir skólasystkinum mínum. Ég vildi helst að pabbi giftist aftur og þetta yrði almennilegt heimili. Ég reyndi að koma þeim saman pabba og ráðskonunni okkar, hundleiðinlegri kerlingu. Ég tilkynnti við eldhúsborðið að ég hefði keypt tvo miða á gömlu dansana í Mjólkurstöðinni. Pabba svelgdist á rabbabaragrautnum og ráðskonan skellti hurðum. Ég eyddi öllu mínu energíi í að fela þennan sextíu og þriggja ára aldur pabba. Hann var svo gamall að hann lagði sig alltaf eftir hádegi. Þessi voði mátti ekki uppgötvast.“

Hvernig var sambandið við pabba þinn?

„Þegar ég reyndi að ráðskast með pabba og þegar spenna myndaðist milli okkar kom alltaf að sáttum. Þá mátti ég fara með hendurnar undir jakkaboðungana og leggja eyrað við hjartað. Þannig fékk ég að vera eins lengi og ég vildi í faðminum á honum þessum virðulega fyrrverandi skólastjóra. Þvílík forréttindi að fá að vera í fanginu á pabba. Hann var á eftirlaunum. Krakkarnir komust aldrei að því hvað pabbi væri gamall.“

Manstu eftir fyrsta hlutverkinu sem þú lékst?

„Það átti að leika Þyrnirós í barnaskólanum og ég tilkynnti það að Þyrnirós yrði að vera ljóshærð. Það var ekkert mark tekið á því en ég fékk að leika álfkonuna sem sagði: „Það er gott að ég átti mína ósk eftir. Ég segi að þú munir sofa í hundrað ár.““

Lifði faðir þinn það að sjá þig á sviði?

„Já ég var statisti í Tyrkja Guddu og átti að segja eina setningu: „Já ég segi fyrir mína síðu að ég myndi vilja læra þetta allt saman aftur með jafnfjörugum náunga og Hallgrími Péturssyni.“ Ég sagði þetta rétt á frumsýningunni en á generalprufunni hét fjörugi náunginn óvart Jónas Hallgrímsson. Sem betur fer var pabbi á báðum sýningunum.“

Þú ert trúuð. Segðu mér meira frá því.

„Það hallærislegasta sem til er í dag er að vera trúuð! En ég öðlaðist trúna um tvítugt og hef fengið að túlka það. Trúarvissan byrjaði með pabba. Þetta var voða sætt. Við sváfum öll í sama herbergi. Ég svaf í rúminu hennar mömmu. Palli á dívan við endann. Svo kom þessi athöfn. Allir voru að fara að sofa. Venjulega kom Palli með stafla af rúgbrauði með smjörlíki ofan á og járnkönnu með vatni, en þegar nálgaðist jólin fengum við hálft epli hvert á koddann. Bærinn fylltist af eplalykt. Rúgbrauðsdiskinn lagði Palli frá sér og maulaði meðan hann las í bók. Allir voru með bækur. Svo kom að því að pabbi lagði frá sér bókina og við hin líka. Þá fluttum við bænir og signdum okkur. Síðan tók við endalaus romsa af Hallgrími Pétursyni.

Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freisting ýmisleg.
Þá líf og sál er lúð og þjáð
lykill er hún að drottins náð.

Þegar kom að „lyklinum“ vissi ég að nú voru bara fimm erindi eftir. Sem barn botnaði ég ekkert í þessari þulu, en fullorðin kann ég þetta.“

Var pabbi þinn ekki mikill spíritisti?

„Já, hann fór mikið á miðilsfundi og setti þá á sig flibba. Við Palli vorum heima á meðan. „Ég fékk miklar sannanir á fundinum,“ sagði hann og við Palli vorum andaktug. Ég fór í KFUK. Þar var kona sem var ekki par hrifin af spíritisma. Hún sendi mig heim með skilaboð til pabba: „Leitið ekki sannana í annan heim.“ Þá sendi pabbi mig með eftirfarandi klausu til hennar: „Margar eru vistarverurnar í húsi föður míns.““

Hvernig þróaðist svo trúin?

 „Nú svo verður maður eldri og gáfaðri og ég fór algerlega frá trúnni um hríð. Ég eignaðist svo aftur trú um tvítugt. Skólasystir mín í Englandi varð svo „galin“ og tekin til við að stunda guðfræði við Oxford. Ég fór að athuga með hana. Þá fór hún með mig í kirkju og vinátta okkar hefur haldist alla tíð síðan. Við nærum hvor aðra. Hún er vinur minn í útlöndum, Joanna Ray. Í kringum hana hef ég fengið dásamlegt trúað fólk að utan. Síðan hef ég oft fengið að upplifa trúna. Sigurbjörn biskup var að kenna á kyrrðardögum í Skálholti og sagði þá meðal annars: „Ef þið getið ekki formað bæn þá skuluð þið ekki forsmá litlu bænaversin frá æsku ykkar. Notiði litlu bænirnar sem þið kunnuð þá.““

Hvað er þér mikilvægast í lífinu?

Trúin er mesti fjársjóður sem ég hef eignast í lífinu. Minn draumur var alltaf að skrifa leikrit fyrir kirkjur. Ég bið alltaf heilagan anda að vera með mér og í mér og með áheyrendum.“

Eitt af þekktari verkum þínum fjallar um Kaj Munk. Hvernig varð það verk til?

„Þegar ég var ekki lengur bundin við sýningar í leikhúsinu fór ég að grúska. Kaj Munk skrifaði ég 1987 fyrir fjórtán leikara. Arnar Jónsson lék aðallhlutverkið af fullkomnun. Heimilishaldið sat á hakanum. Ragnar sonur minn stóð skælandi við eldhúsborðið: „Á ekkert að elda neinn kvöldmat á þessu heimili eða er þetta ekki orðið neitt heimili?“ Þá ákvað ég að hætta. Hver var að biðja mig að skrifa þetta leikrit? Ég opnaði Biblíuna mína og þar stóð í einu bréfi Páls: „Haltu áfram, ekki gefast upp, ég á margt fólk í þessari borg.“ Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti og ekkja Kaj Munk sátu á fremsta bekk á frumsýningunni. Þetta varð suksess! Ég gat borgað leikurunum! Daginn eftir var önnur sýning en það gleymdist að auglýsa hana. Við kveiktum á kertum, allir leikararnir og biðum eftir áhorfendum. Kapellan fylltist af fólki ungu sem öldnu. Þá kom mér ritningargrein Páls aftur í hug og ég skrifaði í minnisbókina mína: „Þetta leikrit á að sýna í öllum kirkjum á landinu og það á að verða mikil trúarvakning.“ En auðvitað var ekki farið í allar kirkjur í landinu. Nú passa ég mig á að vera ekki að þrengja trú upp á fólk. En svo hófst ævintýrið. Við sýndum í kirkju í Danmörku, lékum á íslensku og Danir fengu ágrip á dönsku. Þangað kemur þá prestur frá Vedersø-kirkju þar sem Kaj Munk hafði þjónað og Gestapo tekið af lífi þar 4. janúar 1944. Arnar Jónsson fékk menningarverðlaun DV fyrir leik sinn og ég fékk verðlaunafé frá Danmörku fyrir verkið.

Og þú hefur svo haldið áfram að vinna verk sem tengjast trúnni, ekki satt?

„Jú. Árið 1998 var leikverkið Heilagir syndarar sett á svið í upphitaðri fokheldri Grafarvogskirkju. Verkið er byggt á sögu um samkynhneigðan prest sem Þröstur Leó Gunnarsson lék og var yndislegur í hlutverkinu. Fimm árum síðar var svo leikritið Ólafía sýnt í Fríkirkjunni og Iðnó. Verkið fjallar um Ólafíu Jóhannsdóttur sem vann í 17 ár við líknarstörf í Noregi. Árið 2003 voru liðin 140 ár frá fæðingu hennar. Í kjölfarið fékk ég boð um að sýna verkið í Jakobskirkjunni í Osló. Verkið var þýtt á norsku og fóru Íslendingar í Noregi með öll hlutverkin. Fulltrúar sex stórra líknarstofnana völdu síðan Tahirah Iqbal frá Pakistan „hversdagshetju Noregs“. Vigdís Finnbogadóttir afhenti verðlaunin. Auk þess var mér veitt viðurkenning fyrir sýninguna.“

Ein af mörgum eftirminnilegum sýningum sem þú hefur staðið að tengdist tengdist þínum gamla vinnustað, Iðnó. Hver voru tildrög hennar?

„Í tilefni af 110 ára afmæli hússins vaknaði löngun mín til að minnast þeirra sem byggðu húsið og höfðu unnið í Iðnó. Sjálf átti ég 50 ára leikafmæli og ævi mín var samofin Iðnó. Ég kom fyrst í Iðnó  á stríðsárunum og seinna lék ég bæði og leikstýrði við húsið. Saga mín sem leikkonu við húsið í 30 ár fléttaðist inn í frásögnina. Börnin mín, Sigrún Edda og Ragnar fjöllistamaður, komu þessu á koppinn með aðstoð forráðamanna Iðnó. Sjálf naut ég þess að segja frá tilurð hússins og fyrstu hringekju Íslands á Tjörninni. Það var gaman að þessu og áhorfendur virtust kunna vel að meta þessa uppákomu, sérstaklega þegar ég sagði frá aðbúnaði leikaranna og að sumir hefðu lagt á sig að ganga margra kílómetra til þess að komast á sýningar.“

Nú hefur þú síðustu misseri verið að segja fólki ýmsar sögur með líkum hætti og þú gerðir í Nesstofu um daginn. Hverjir eru galdrarnir varðandi söguflutning?

„Rússneskur leikstjóri, sem setti upp Feður og syni kenndi okkur að þegar við segðum frá einhverju ættum við að sjá það fyrir okkur. Annars gæti áhorfandinn ekki séð það heldur, hvort sem myndin væri sú sama eða ekki. Hann kenndi okkur líka hve þögnin er mikilvæg, að leyfa áhorfandanum að melta.“

Að síðustu, Guðrún, hver er stærsta stundin á ferlinum?

„Þegar þessu var slegið upp í Danmörku: „Íslendingur skilur Kaj Munk betur en Danir!““

 

Sigrún Valdimarsdóttir, meistaranemi í ritlist.

[/container]

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *