„Margt líkt með konum og hryssum“

[container] „Félagsdýr, mæður, tilfinningaverur, allt eru þetta eiginleikar sem við deilum með hryssunni“ segir Sveinbjörg Þórhallsdóttir danshöfundur og lektor við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands. „Það er svo margt ókannað við hryssuna, svo margt sem forvitnilegt er að skoða.“

Áhugi listamanna á íslenska hestinum hefur líklega ekki farið fram hjá neinum sem hefur dvalið á Íslandi síðastliðið ár. Kvikmynd Benedikts Erlingssonar Hross í oss hefur farið mikið sigurskeið og Tölt – óður til íslenska hestsins, samstarfsverkefni Guðmundar Jörundssonar, Kristínar Garðarsdóttur og fleiri var haldið í Norræna húsinu fyrr á árinu. Auk þess lauk nú 13. september sýningum á dansverki þeirra Steinunnar Ketilsdóttur og Sveinbjargar Þórhallsdóttur, Reið. Verkið var lokaatriði á Reykjavík Dance Festival. Ólíkt fyrrnefndum verkum beina þær Steinunn og Sveinbjörg athygli sinni sérstaklega að íslensku hryssunni, stöðu hennar innan hjarðarinnar og þeirri orðræðu sem má greina í tengslum við hana.

„Við vildum gera femínískt verk. Það er margt líkt með konum og hryssum. Oft má segja að konur gegni stóru samfélagshlutverki þegar kemur að því að passa upp á hópinn og hvernig hópnum líður – hið sama má segja um hryssuna. Ímynd íslensku hryssunnar er notuð sem söluvara og ófá dæmi eru til um að ímynd íslensku konunnar hafi gegnt sama hlutverki”, segir Sveinbjörg.

Sveinbjörg bendir á að íslenski hesturinn gegni stóru hlutverki varðandi þjóðarstolt Íslendinga.  „Og í samhengi þjóðarímyndar eiga íslenska konan og hryssan margt sameiginlegt. Líkt og hryssan þá hefur konan löngum gegnt hlutverki þjóðarímyndar en á sama tíma verið jaðarsett og ekki notið sömu réttinda og hitt kynið“.

Við blasir að samlíking kvenna og hryssa býr yfir neikvæðum tengingum við kvenfjandsamlega þætti menningarinnar, en Sveinbjörg bendir á að þessar tvær tegundir eigi meira sameiginlegt en margan grunar. „Auðvitað er hætta á klisjum og alhæfingum þegar heilu tegundirnar eru bornar saman en það er augljóst að samfélagið heldur uppi sömu klisjunum varðandi hópana tvo,“ segir  hún en þær  Steinunn fengu fyrst hugmynd að verkinu árið 2011.

„Þá settum við upp sýninguna Belinda og Gyða en það var dansverk um samband hesta og manna, sem við fluttum tvær. Það verk var gamansamara og við lékum okkur að því að skoða bæði samskipti kvenna og samskipti kynjanna og bera þau saman við hestinn. Í Reið förum við lengra og notum samband konunnar og hryssunnar til að kanna dekkri hluti samfélagsins. Til að mynda hvernig viðhorf sem konur mæta og viðhorf til hryssa getur verið af svipuðum meiði” segir Sveinbjörg.

Sólveig Ásta Sigurðardóttir,
meistaranemi í menningarfræði.

hryssa

 

 

 
[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *