Ritlist eða skapandi skrif?

Í Fræði, Menningarfræði, Umfjöllun höf. Rúnar Helgi VignissonLeave a Comment

Um höfundinn
Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson er dósent í ritlist við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur umsjón með ritlistarnámi við skólann og er jafnframt rithöfundur og þýðandi. Sjá nánar

Utgafuhof 2013 Hvislminni

Á liðnu ári gáfu meistaranemar í ritlist og hagnýtri ritstjórn út sýnisbókina Hvísl. Um er að ræða rúmlega 200 blaðsíðna bók með sýnisverkum þrettán meistaranema í ritlist í ritstjórn fimm meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

Eftir því sem ég kemst næst hófst kennsla í listrænum skrifum fyrst við Iowaháskóla í Bandaríkjunum á fjórða áratug síðustu aldar. Þeirri kennslu hefur verið haldið áfram allar götur síðan og nemar þeirra Iowamanna hafa nú unnið til fjölda verðlauna í Bandaríkjunum og víðar. Nú er svo komið að kennsla af þessu tagi er stunduð víða um heim. Um 2.400 háskólar í Norður-Ameríku bjóða upp á nám í ritlist, auk fjölda skóla í Bretlandi og Ástralíu. Á Norðurlöndum eru líka allmargir skólar, Danir hafa t.d. komið sér upp virtum skóla, Forfatterskolen, og eru útskriftarnemar hans fyrir nokkru farnir að setja svip á bókmenntalífið þar í landi. Einnig má finna skóla í Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, Póllandi, Suður-Afríku, Singapore og Hong Kong.

Á ensku er vanalega talað um creative writing í þessu sambandi. Danir og Norðmenn tala um kreativ skrivning, Svíar um kreativ skriving, Þjóðverjar um kreatives Schreiben, Spánverjar um escritura creativa, Pólverjar tala um twórcze pisanie eða kreatywne pisanie, Frakkar tala hins vegar um métiers d’écriture eða sletta enska hugtakinu.

Í öllum þessum löndum er hugtakið étið meira og minna beint upp eftir Bandaríkjamönnum. Og viti menn, hugtakið skapandi skrif virðist hafa komist á flot í íslensku ritmáli upp úr 1980 ef marka má timarit.is. Árið 1984 er t.d. auglýst námskeið með þessum titli í Tómstundaskólanum.

Þegar fyrst var farið að leiðbeina fólki um listræn skrif við Háskóla Íslands, það var árið 1987, var hins vegar ekki talað um námskeið í „skapandi skrifum“ heldur í ritlist. Það var Njörður P. Njarðvík, prófessor í íslensku, sem lagði til að orðið ritlist yrði notað um þessa námsgrein. Hann afskrifaði hitt hugtakið, sem er augljóslega bein þýðing á „creative writing“, með þeim rökum að skrif væru ekki skapandi heldur sá eða sú sem skrifaði, enda er stundum talað um skapandi listamenn.

Enn tölum við um ritlist í þessu sambandi við Háskóla Íslands. Við bjóðum upp á námskeið í ritlist bæði í grunnnámi og meistaranámi. Orðið finnst okkur sjálfsagt og eðlilegt í fylkingu sambærilegra orða: tónlist, myndlist, leiklist. Skapandi skrif hafa vissulega náð fótfestu í málinu, en hjá okkur eru það hins vegar nemendurnir sem eru skapandi í skrifum sínum.

Yfirþyrmandi náttúrukraftur smásagna Rómönsku-Ameríku

17. október, 2017Út er komið annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins sem hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges og Gabriel García Márquez. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006. Aðalritstjóri þessa bindis, Kristín Guðrún Jónsdóttir, segir langflestar sögurnar vera þýddar úr spænsku, en einnig séu sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku. Sögurnar eru allar þýddar úr frummálinu og ...

„Vér hverfum frá oss sjálfum“

16. október, 2017Franska leikritaskáldið Florian Zeller hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verkið Föðurinn, meðal annars Moliere verðlaun árið 2014. Verðskuldað er það. Þetta er ákaflega vel skrifað og sterkt leikrit en það er þannig gert að það leiðir áhorfandann stig af stigi inn i hugarheim föðurins, André, (Eggert Þorleifsson). Sá hugarheimur er framandlegur og kemur okkur á óvart, það tekur smátíma fyrir áhorfandann að ná áttum. Ég ætla því að vara ykkur við og segja: ef þið ætlið að sjá þessa sýningu Þjóðleikhússins ættuð þið ekki að lesa lengra núna – lesið þegar þið eruð búin að sjá sýninguna! Má ég spyrja: ...

Leikstjóraspjall við Baltasar Kormák

13. október, 2017Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði, fjallar um Leikstjóraspjall Baltasar Kormáks, en hann svaraði spurningum um eigin feril og kvikmyndir, íslenska kvikmyndamenningu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.

Deila

Leave a Comment